Fara í innihald

Dóminíka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Samveldið Dóminíka
Commonwealth of Dominica
Fáni Dóminíku Skjaldarmerki Dóminíku
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Après le Bondie, C'est la Ter
Þjóðsöngur:
Isle of Beauty, Isle of Splendour
Staðsetning Dóminíku
Höfuðborg Roseau
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Þingræði

Forseti
Forsætisráðherra
Sylvanie Burton
Roosevelt Skerrit
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
184. sæti
750 km²
1,6
Mannfjöldi
 • Samtals (2014)
 • Þéttleiki byggðar
195. sæti
72.301
105/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 0,688 millj. dala (182. sæti)
 • Á mann 9.726 dalir (98. sæti)
VÞL (2014) 0.724 (93. sæti)
Gjaldmiðill austurkarabískur dalur
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .dm
Landsnúmer +1-767

Samveldið Dóminíka (franska: Dominique; eyjakaríbíska: Wai‘tu kubuli) er eyríki sem er hluti Litlu-Antillaeyjum, mitt á milli tveggja franskra yfirráðasvæða; Guadeloupe í norðri og Martinique í suðri. Eyjan var byggð Karíbum þegar Kristófer Kólumbus kom þar við land árið 1493. Hún dregur nafn sitt af spænska orðinu yfir sunnudag. Eyjan er 750 ferkílómetrar að stærð. Hæsti punktur hennar er eldfjallið Morne Diablotins sem nær 1.447 metra hæð. Íbúar eru rúm 70.000. Þar af búa um 16 þúsund í höfuðborginni Roseau sem er hléborðsmegin á eyjunni. Eyjan er þekkt fyrir mikla og óspillta náttúrufegurð, regnskóga og ógrynni af sjaldgæfum jurtum, fuglum og dýrum. Efnahagur eyjarinnar byggist að miklu leyti á útflutningi banana og ferðaþjónustu.

Kólumbus nefndi eyjuna eftir deginum þegar hann kom þangað fyrst, sunnudegi (dominica á latínu) þann 3. nóvember 1493. Eyjan var látin í friði í hundrað ár eftir heimsókn Kólumbusar. Spánverjar stofnuðu ekki varanlegar nýlendur á eyjunni vegna þess hve afskekkt hún var og vegna mótspyrnu íbúanna. Frakkar stofnuðu síðan nýlendu þar árið 1715 eftir uppreisn smábænda á Martinique. Eyjan varð formlega frönsk nýlenda árið 1727 en með Parísarsáttmálanum 1763 fengu Bretar hana í sínar hendur. Frakkar reyndu að leggja eyjuna undir sig á ný 1795 og 1805 en tókst það ekki. Árið 1871 varð eyjan hluti af Bresku Hléborðseyjum. Árið 1958 varð hún hluti af hinu skammlífa Sambandsríki Vestur-Indía. Landið fékk sjálfstæði 1978 en efnahagsörðugleikar einkenndu fyrstu árin vegna fellibylja og lækkandi bananaverðs. Frá 2005 hefur efnahagur landsins batnað, meðal annars vegna ferðaþjónustu og fjölbreyttari landbúnaðar.

Langflestir íbúar Dóminíku eru af afrískum uppruna. Aðeins 3000 íbúar sem telja sig til Karíba búa í átta þorpum austanmegin á eyjunni. Enska er opinbert tungumál en margir tala líka antilleysku, sem er kreólamál á frönskum grunni. Um 80% íbúa aðhyllast rómversk-kaþólska trú. Stór hluti af Disney-kvikmyndinni Sjóræningjar Karíbahafsins: Dauðs manns kista var tekinn á eyjunni.

Dóminíka er hluti eyjaboga Karíbahafsins og því eldvirkt svæði. Eyjan er að mestu úr hörðnuðu gjóskuflóðaseti og gosbergi. Talsverður jarðhiti er á eyjunni og er risahverinn Boiling Lake vinsæll áfangastaður ferðamanna. Einungis er hægt að komast fótgangandi að helsta hverasvæðinu sem er um austanvert miðbik eyjarinnar. Á fjöllum eyjarinnar eru regnskógar þar sem mikill fjöldi dýra- og fuglategunda á heimkynni sín. Páfagaukurinn Amazona imperialis er einlend tegund á eyjunni. Hann er þjóðarfugl landsins og kemur fyrir í fána þess.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Dóminíka er lýðveldi innan Breska samveldisins. Það er þannig eitt af fáum eyríkjum Karíbahafsins sem er lýðveldi. Forseti Dóminíku er þjóðarleiðtogi landsins en framkvæmdavaldið er í höndum ríkisstjórnar sem forsætisráðherra Dóminíku fer fyrir. Þing Dóminíku situr í einni deild með 30 fulltrúa. 21 þingmaður er kosinn en 9 eru öldungaþingmenn sem ýmist eru skipaðir af forseta eða kosnir af öðrum þingmönnum.

Ólíkt öðrum fyrrum breskum nýlendum í Karíbahafi var Dóminíka aldrei konungsríki í samveldinu heldur varð lýðveldi strax og landið fékk sjálfstæði. Dóminíka er aðili að CARICOM og Sambandi Austur-Karíbahafsríkja (OECS).

Dóminíka er aðili að Alþjóða sakamáladómstólnum með tvíhliða samning um friðhelgi fyrir bandaríska hermenn. Árið 2008 gerðist Dóminíka aðili að samtökunum ALBA.

Stjórnsýsluskipting

[breyta | breyta frumkóða]

Dóminíka skiptist í 10 sóknir (mannfjöldi miðað við manntal 2011).

  1. Saint Andrew-sókn (Dóminíku) (9.471)
  2. Saint David-sókn (Dóminíku) (6.043)
  3. Saint George-sókn (Dóminíku) (21.241)
  4. Saint John-sókn (Dóminíku) (6.561)
  5. Saint Joseph-sókn (Dóminíku) (5.637)
  6. Saint Luke-sókn (Dóminíku) (1.668)
  7. Saint Mark-sókn (Dóminíku) (1.834)
  8. Saint Patrick-sókn (Dóminíku) (7.622)
  9. Saint Paul-sókn (Dóminíku) (9.786)
  10. Saint Peter-sókn (Dóminíku) (1.430)

Árið 2011-2012 voru boraðar þrjár 14-1600 metra djúpar rannsóknaholur til að kanna jarðhitakerfið í iðrum eyjarinnar. Tvær holur til viðbótar voru boraðar árið 2014 og áformað var að reisa meðalstóra jarðhitavirkjun og selja raforku um sæstreng til Martinique og Guadaloupe, sem eru sunnan og norðan við Dóminíku. Þeim áformum hefur verið slegið á frest og stjórnvöld á Dóminíku hyggjast nú reisa 7-8 MW jarðhitavirkjun til að anna innanlandsþörf fyrir raforku. Um þriðjungur raforku sem nú er notuð á Dóminíku kemur frá fjórum smáum vatnsaflsvirkjunum (< 1MW hver) en tveir þriðju hlutar þeirrar raforku sem er í boði er framleidd með dísilrafstöðvum.

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.