Fara í innihald

Grímur Grímsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Grímur Grímsson (GrímG)
Alþingismaður
frá  kjördæmi    þingflokkur
2024  Reykjavík n.  Viðreisn
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. september 1961 (1961-09-02) (63 ára)
StjórnmálaflokkurViðreisn
Æviágrip á vef Alþingis

Grímur Grímsson (f. 2. september 1961) er íslenskur lögreglumaður og Alþingismaður fyrir Viðreisn.

Grímur er menntaður í viðskiptafræði og er með meistarapróf í endurskoðun og reikningsskilum. Hann hóf upphaflega störf hjá lögreglunni í Reykjavík árið 1987. Hann var meðal annars í efnahagsbrotadeildinni en hætti í lögreglunni í eitt ár og starfaði á endurskoðunarskrifstofu.[1]

Grímur hóf aftur störf hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2008. Þegar embætti sérstaks saksóknara var stofnað var Grímur ráðinn til starfa hjá því frá fyrsta degi, 1. febrúar 2009. Hann vann hjá embættinu þar til það var lagt niður í lok ársins 2015 en hóf þá störf hjá héraðssaksóknara. Grímur var yfirlögregluþjónn hjá embætti héraðssaksóknara þar til hann kom aftur til starfa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 1. nóvember 2016. Hann hlaut þá stöðu yfirlögregluþjóns og yfirmanns þess hluta miðlægu rannsóknardeildarinnar sem sér um rannsóknir á alvarlegri og skipulagðri brotastarfsemi. Hann tók við stjórn miðlægu rannsóknardeildarinnar þann 1. nóvember 2017.[1]

Grímur varð þjóðkunnur á Íslandi árið 2017 þegar hann stýrði rannsókn lögreglunnar á morðinu á Birnu Brjánsdóttur. Málið vakti mikla athygli bæði fjölmiðla og almennings og Grímur uppskar töluverðar vinsældir með framgöngu sinni í málinu.[2] Grímur var meðal annars valinn maður ársins af hlustendum Bylgjunnar og lesendum Vísis í lok árs 2017.[3] Á árunum eftir morðrannsóknina var Grímur hins vegar einnig gagnrýndur af aðstandendum Birnu fyrir að hafa haft mikil samskipti við fjölmiðla á tíma rannsóknarinnar í nafni upplýsingaöflunar og hafa þannig sýnt ónærgætni. Grímur baðst afsökunar vegna þess árið 2022.[4]

Frá 2017 til 2020 vann Grímur sem tengiliður Íslands hjá Europol. Hann sneri aftur til fyrri starfa hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar í apríl 2020.[5]

Í október 2024 lýsti Grímur því yfir að hann yrði í framboði til Alþingis fyrir Viðreisn í Reykjavíkurkjördæmi norður í Alþingiskosningunum það ár. Hann sagðist meðal annars vilja leggja sitt af mörkum varðandi öryggismál og löggæslumál, auk efnahagsmála og heimilismála.[6] Grímur komst inn á þing sem jöfnunarþingmaður undir lok talninga í kosningunum.[7]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Guðrún Hálfdánardóttir (23. desember 2017). „Málið sem skók íslensku þjóðina“. mbl.is. Sótt 11. desember 2024.
  2. Kristjón Kormákur Guðjónsson (18. janúar 2017). „Hver er Grímur Grímsson? „Ég efast um að hann sé búinn að sofa síðan á sunnudag". DV. Sótt 13. desember 2024.
  3. Samúel Karl Ólason (31. desember 2017). „Grímur Grímsson maður ársins: „Langar miklu meira að vera andlitslaus þegar ég fer í ræktina". DV. Sótt 13. desember 2024.
  4. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir (26. nóvember 2022). „„Ég get ekki lifað við þessa lygi". Stundin. Sótt 11. desember 2024.
  5. Viðar Guðjónsson (19. febrúar 2021). „Grímur Grímsson snýr aftur“. mbl.is. Sótt 13. desember 2024.
  6. Jón Stefánsson (24. október 2024). „„Þurfum á því að halda að það verði breyting á stjórn landsins". visir.is. Vísir. Sótt 11. desember 2024.
  7. „Þetta eru nýjir þingmenn Íslendinga – Grímur Grímsson datt inn á síðustu stundu“. DV. 1. desember 2024. Sótt 13. desember 2024.