Þríeykið
Þríeykið er viðurnefni, sem notað var af fjölmiðlum á Íslandi á tíma alþjóðlega kórónuveirufaraldursins yfir þau Ölmu Möller landlækni, Víði Reynisson yfirlögregluþjón almannavarnarsviðs og Þórólf Guðnason sóttvarnalækni.[1] Þríeykið birtist reglulega á upplýsingafundum almannavarna á hápunkti faraldursins árin 2020 og 2021 og svöruðu fyrirspurnum um útbreiðslu Covid-19, sóttvarnaaðgerðir og bólusetningar. Þau urðu þjóðþekkt vegna upplýsingafundanna og eins konar andlit viðbragða hins opinbera við faraldrinum.[2] Þríeykið naut töluverðra vinsælda á tíma faraldursins en varð einnig fyrir nokkurri gagnrýni, einkum af hálfu andstæðinga sóttvarnaaðgerða.[3] Þríeykið vann náið með ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, og þá sérstaklega með þáverandi forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur og heilbrigðisráðherrunum Svandísi Svavarsdóttur og Willum Þór Þórssyni.
Alma, Víðir og Þórólfur hlutu riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní árið 2020 fyrir störf í þágu heilbrigðismála og framlag þeirra í baráttu við kórónuveirufaraldurinn.[4] „Þríeykið“ var valið annað af orðum ársins 2020 ásamt „sóttkví“ af Ríkisútvarpinu.[5] Meðlimir þríeykisins voru jafnframt saman valin manneskja ársins á Rás 2 árið 2020.[6]
Heimildaþáttaröð um störf þríeykisins á tímum kórónuveirunnar tekin upp árið 2020 var sýnd árið 2023 á RÚV og hét Stormur.[7]
Fyrir forsetakosningarnar 2024 voru miklar vangaveltur um hvort að einhver í þríeykinu myndi bjóða sig. Einungis Alma lýsti yfir áhuga á því en endaði á því að bjóða sig ekki fram. Í alþingiskosningunum 2024 voru Alma og Víðir bæði oddvitar á lista Samfylkingarinnar, en Þórólfur gaf ekki kost á sér.[8]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir (2020). „Skilvirk, fókuseruð og með skýra sýn - viðtal við þríeykið“. Læknablaðið. Sótt 19. október 2024.
- ↑ Andri Yrkill Valsson (14. apríl 2020). „Þríeykið fastur liður á óvissutímum - en ekki í dag“. RÚV. Sótt 19. október 2024.
- ↑ „Víðir um þríeykið: „Við fögnum gagnrýni"“. Hringbraut. 13. apríl 2021. Sótt 19. október 2024.
- ↑ Bjarni Pétur Jónsson (17. júní 2020). „Þríeykið fékk fálkaorðuna“. RÚV. Sótt 19. október 2024.
- ↑ Anna Sigríður Þráinsdóttir (20. janúar 2021). „Þríeykið og sóttkví eru orð ársins 2020“. RÚV. Sótt 19. október 2024.
- ↑ Hildur Margrét Jóhannsdóttir (3. janúar 2021). „Þríeykið er manneskja ársins á Rás 2“. RÚV. Sótt 22. október 2024.
- ↑ Júlía Margrét Einarsdóttir (1. apríl 2021). „Hvað gerðist baksviðs hjá þríeykinu?“. RÚV. Sótt 22. október 2024.
- ↑ Magnús Jochum Pálsson (19. október 2024). „Þórólfur ætlar ekki fram - Vísir“. Vísir.is. Sótt 21. október 2024.