Fara í innihald

Kaffi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kaffi í kaffibolla.

Kaffi er koffínríkur drykkur sem gerður er úr brenndum baunum kaffirunnans og er yfirleitt borinn fram heitur eða ískaldur. Kaffi er ein algengasta verslunarvara heims, næst á eftir hráolíu. Heimsframleiðsla kaffis var 6,7 milljón tonn árlega 1998-2000. Langmesta framleiðslan fer fram í Brasilíu.

Kaffirunninn er upprunninn í Eþíópíu og var fluttur þaðan til Jemen á miðöldum þar sem hafnarborgin Mokka varð helsta útflutningshöfn kaffis. Kaffi náði miklum vinsældum á Arabíuskaganum og var flutt á markað í Evrópu á 16. öld af Hollenska Austur-Indíafélaginu og Breska Austur-Indíafélaginu. Það náði síðan mikilli útbreiðslu í Evrópu og Norður-Ameríku á 17. öldinni.

Bragð kaffis fer fyrst og fremst eftir tegund en einnig eftir ræktunarskilyrðum, meðhöndlun, brennslu, mölun og aðferð við uppáhellingu.


Grasafræði kaffis[breyta | breyta frumkóða]

Coffee Bean Structure
1 "center cut", 2 fræhvíta, 3 silfurhýði (epidermis), 4 pergament (endocarp), 5 pektín lag, 6 aldinkjöt (mesocarp), 7 hýði

Kaffirunninn er planta af ættbálknum Rubiaceæ, ættkvíslinni Coffea.[1] Runninn telur rúmlega 90 tegundir en aðeins örfáar þeirra eru ræktaðar til framleiðslu.[2] Tvær helstu tegundir kaffis sem notaðar eru til ræktunar eru Coffea arabica og Coffea canephora, þekkt sem robusta. Arabica hefur tvisvar sinnum fleiri litninga en robusta og gefur af sér kaffi með flóknari bragðeiginleika, á meðan robusta er harðgerðari og fljótvaxnari.[3] Arabica telur um 75-80% af kaffiframleiðslu á heimsvísu, en robusta er um 20%, Coffea liberica er svo undir 2% af heimsframleiðslu og aðrar tegundir eru ræktaðar í enn minna magni.[4][3]

Kaffibaunir eru fræ kaffirunnans sem vaxa inni í ávöxtum þess, kölluðum berjum. Kaffiberið skiptist í nokkur lög, yst er hýðið (exocarp), svo kemur aldinkjötið (mesocarp), næst koma pergamentið (endocarp) og svo silfurhýðið (epidermis) sem saman mynda þunna húð utan um fræin í miðju bersins.[5] Kaffiber innihalda venjulega tvær baunir hvert, lítill hluti kaffiberja inniheldur þó aðeins eina baun, ástæði þess er sú að aðeins eitt fræ bersins hefur frjóvgast. Slíkar baunir kallast "peaberry" vegna ávalar lögunar þeirra, sem orsakast af því að þær vaxa ekki á móti annarri baun. Peaberry baunir eru oft flokkaðar frá öðrum, enda fæst fyrir þær hærra verð.[6] Einnig kemur einstaka sinnum fyrir að kaffiber innihaldi þrjár baunir.

Ræktun[breyta | breyta frumkóða]

Kaffirunninn er uppruninn í norðaustanverðri Afríku en vex nú í allan hringinn um hnöttinn á milli 25 breiddargráðu norður og 25 breiddargráðu suðurs.[7] Ræktunarskilyrði skipta miklu máli við kaffiræktun, runnarnir þurfa réttan jarðveg og veðurfar. Arabica vex í 550 til 1100 metra hæð á heittempruðum svæðum og í 1100 til 2000 metra hæð við miðbauginn, hún þarf 15-24 °C meðalhita. Robusta vex hinns vegar allt frá sjávarmáli og upp í 800 metra og þrífst best í 24-30 C meðalhita.[8][9]

Kaffirunnar geta orðið allt að 12 metra háir, þar sem þeir vaxa villtir. Við ræktun kaffis eru runnarnir hins vegar klipptir niður í um 2 metra hæð til þess að auðveldara sé að hirða þá og tína berin á uppskerutíma.[10] Runnarnir bera smá hvít blóm sem gefa af sér ber sem eru græn á meðan þau eru óþroskuð, en ýmist rauð eða gul þegar þau eru orðin þroskuð. Arabica ber tvær uppskerur á ári við miðbaug, en eina á heittempruðum svæðum.[9] Á þeim svæðum sem bera tvær uppskerur á ári eru runnarnir nánast stöðugt í blóma og á sömu greininni geta verið blóm, óþroskuð ber og fullþroskuð ber, bændurnir þurfa því að koma oft að sama runnanum yfir uppskerutímann til þess að tína fullþroskuðu berin. [9][1]

Vinnsluaðferðir[breyta | breyta frumkóða]

Þurrvinnsla[breyta | breyta frumkóða]

Við þurrvinnslu eru fullþroskuð ber fyrst flokkuð frá greinum, laufi, steinum og óþroskuðum berjum sem hafa læðst með við tínsluna. Berin eru svo lögð til þerris í sólinni, þeim er snúið reglulega svo að þau þorni jafnt og til þess að fyrirbyggja mygluvöxt, það getur tekið allt að fjórum vikum að þurrka berin. Rakastig berjanna er um 60% fyrir þurrkun, en undir 12.5% eftir hana. Kaffiberin eru geymd í sílóum þar til þau eru send í millu þar sem aldinkjötið er flysjað utan af baununum í þartilgerðum vélum. Baunirnar eru þá tilbúnar til þess að pakka þeim í sekki og flytja þær út. [11]

Blautvinnsla[breyta | breyta frumkóða]

Við verkun á þvegnu kaffi eru fullþroskuð ber flokkuð frá öðrum með því að setja þau í vatn. Fullþroskuðu berin sökkva til botns en óþroskuð og ofþroskuð ber, ásamt greinum og laufum fljóta á yfirborðinu. [12] Fullþroskuðu berin eru sett í vél sem fjarlægir aldinkjötið utan af baununum, eftir verður þó þunn slikja af aldinkjöti utan um baunirnar. Til þess að losa þessa slikju utan af baununum eru þær settar í tanka fulla af vatni þar sem slikjan gerjast og brotnar niður. Baunirnar eru svo skolaðar í hreinu vatni og lagðar til þerris. Pergamentið er fjarlægt utan af baununum í vélum og þeim er pakkað. [11][13]

Uppruni og saga kaffidrykkju[breyta | breyta frumkóða]

Hálendi Afríku eru náttúruleg heimkynni kaffirunnans.[14] Talið er að kaffineysla sé uprunnin þar sem nú í dag er Eþíópía og að ræktun kaffis hafi jafnvel verið hafinn á níundu öld.[15] Kaffi barst svo til Jemen frá Eþíópíu og fyrstu skriflegu heimildirnar um kaffineyslu eru frá fimmtándu öldinni í Yemen, þar sem kaffi var orðið hluti trúarathafna súfista. Þaðan breyddist kaffineysla út um hinn íslamska heim með súfismanum, fyrst til Egyptalands og svo um öll Mið-Austurlönd.[16]

Innan heimsveldis Ottómana var kaffidrykkja fyrst bönnuð af trúarlegum ástæðum, rétt eins og áfengi. Kaffi var hins vegar gríðarlega vinsælt þar og mikið notað til þess að halda vöku við langan bænalestur og lögunum var því breytt. Kaffihefðin barst frá Ottómönum til Ítalíu og náði að vörum páfa árið 1600, þegar prestar báðu Klemens 8. um að banna þennan drykk sem þeim þótti djöfullegur. Páfanum þótti hins vegar kaffið smakkast vel og sagan segir að hann hafi ákveðið að snúa á Satan með því að blessa kaffið og hafa þar með drykkin af honum.[17] Hinn nýblessaði drykkur náði fljótt vinsældum á Ítalíu og í kjölfarið á því breyddist kaffineysla út um Evrópu. Kaffihús urðu fljótt samkomustaðir þar sem skrafað var um pólitík, dægurmál og annað. Kaffihúsamenningin var fljót að skjóta rótum sínum um Evrópu eftir að fyrsta kaffihúsið á ítalíu var opnað árið 1645, en þrjátíu árum síðar voru kaffihús á Englandi orðin 3000 talsins.[18] Kaffi varð vinsælla en te í Bandaríkjunum eftir teboðið í Boston árið 1671 þegar borgarbúar mótmæltu háum sköttum á tei með því að henda þremur skipsförmunum af því í sjóinn.

Arabar höfðu fremst af verið einir um kaffirækt, en hina nýja eftirspurn beggja vegna Atlandshafsinns gerði kaffi að verðmætri verslunarvöru fyrir nýlenduveldin. Hollendingar komust yfir græðlinga á seinni hluta sautjándu aldar og hófu ræktun á eyjunni Jövu í Indónesíu og á Malbar á Indlandi.[19] Það var svo 1714 að borgarstjóri Amsterdam gaf Frakkakonungi Loðvík 14. kaffiplöntu í vináttuheimsókn þess síðarnefnda. Liðsforingi úr franska sjóhernum að nafni Gabriel de Clieu komst yfir græðlinga af þeirri plöntu sem hann fór með til eyjarinnar Maritinique í Karabíska hafinu. Ræktunin þar gekk vonum framar og er allt kaffi í Vestur-Indíum, Brasilíu og Kólumbíu komið af kaffiplöntunum í Martinique. [20] Fyrsti kaffibúgarður Brasilíu var svo stofnaður árið 1727 og landið varð fljótt helsta kaffiræktunar land heimsins og er það enn. Innan við öld síðar var kaffi orðið hversdagsdrykkur, í stað þess að vera forréttindi aðalsinns, og nú í dag er kaffi drukkið af milljónum manns um allan heim.[19]

Vinsælir kaffidrykkir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 [1] Geymt 13 maí 2011 í Wayback Machine, Ukers, William H. All About Coffee. New York, The Tea and Coffee Trade Journal Company, 1922. Web Books Puplishing.
 2. [2] Geymt 15 maí 2011 í Wayback Machine, Davis, Aaron P., and Franck Rakotonasolo. "Two New Species of Coffea L. (Rubiaceae) from Northern Madagascar." Adansonia 3rd ser. 23.2 (2001): 337-45. Adansonia. Muséum National D'Histoire Naturelle. Web. 1 Nov. 2010.
 3. 3,0 3,1 [3] Geymt 24 mars 2009 í Wayback Machine"Botanical Aspects." International Coffee Organization. Web. 01 Nov. 2010.
 4. [4]"Coffee Plant: Arabica and Robusta - CoffeeResearch.org." Coffee - CoffeeResearch.org. Ed. Michael Griffin. Web. 01 Nov. 2010.
 5. [5] Geymt 2 október 2013 í Wayback Machine"International Coffee Organization - Field Processing." International Coffee Organization - News From The Executive Director. Web. 01 Nov. 2010.
 6. [6] Geymt 8 ágúst 2011 í Wayback MachineDavis, Kenneth. "The Tanzanian Peaberry Mystery." Virtual Coffee - The Hottest Online Coffee Zine! Web. 31 Oct. 2010.
 7. [7] Geymt 21 nóvember 2010 í Wayback Machine,"Where the Coffee Is Grown" Coffee Beans. Web. 01 Nov. 2010.
 8. [8] Geymt 6 júlí 2010 í Wayback Machine,"Ecology." International Coffee Organization - News From The Executive Director. Web. 01 Nov. 2010.
 9. 9,0 9,1 9,2 [9],"Coffee Environment: Climate Conditions for Growing Coffee Beans." Coffee - CoffeeResearch.org. Web. 01 Nov. 2010.
 10. [10],Robinson, Richard. "Coffee, Botany of." Biology. 2002. Encyclopedia.com. 31 Oct. 2010
 11. 11,0 11,1 [11] Geymt 2 október 2013 í Wayback Machine, "Field Processing." International Coffee Organization. Web. 01 Nov. 2010.
 12. [12],"Coffee Processing." CoffeeResearch.org. Ed. Michael Griffin. Web. 01 Nov. 2010.
 13. [13], Coffee Wet Mill Process. Prod. Zion Pictures. Narr. Edwin Martinez Jr. YouTube. Sisters Coffee Company, 26 Feb. 2010. Web. 01 Nov. 2010.
 14. Weinberg, Bennett Alan; Bealer, Bonnie K (2001). The world of caffeine : the science and culture of the world's most popular drug. New York: Routledge. ISBN 0-415-92722-6. <http://books.google.com/?id=Qyz5CnOaH9oC&pg=PA3&dq=coffee+goat+ethiopia+Kaldi>.
 15. "Ethiopian Coffee." Selamta. Volume 13, Number 2. Apr.-June 1996. Ethiopian Airlines. Web. 16 Jan. 2011. <http://www.selamta.net/Ethiopian[óvirkur tengill] Coffee.htm>.
 16. "The Mystical Coffee of the Sufi Dervishes." Lavazza. Lavazza. Web. 16 Jan. 2011. <http://www.lavazza.com/corporate/en/coffeculture/legends/article_0006.html Geymt 13 maí 2011 í Wayback Machine>.
 17. Meyers, Hannah. „„Suave Molecules of Mocha“ - Coffee, Chemistry, And Civilization.“ New Partisan. New Partisan - A Journal of Politics, Culture and the Arts, 3 July 2005. Web. 16 Jan. 2011. <http://www.newpartisan.com/home/suave-molecules-of-mocha-coffee-chemistry-and-civilization.html Geymt 9 mars 2005 í Wayback Machine>
 18. Rooney, Sean. „Clement VIII: The Pope Who Popularized Coffee in Europe.“ Associated Content from Yahoo! Yahoo! Inc., 5 Feb. 2008. Web. 16 Jan. 2011. <https://archive.today/20130628111620/www.associatedcontent.com/article/574455/clement_viii_the_pope_who_popularized.html?cat=37>.
 19. 19,0 19,1 "The History Of Coffee." National Coffee Association. National Coffee Association of U.S.A., Inc. Web. 16 Jan. 2011. <http://www.ncausa.org/i4a/pages/index.cfm?pageid=68>.
 20. "Legends of Coffee #1 – Captain Gabriel De Clieu." Galla Coffee Blog - Brewing Coffee at Home. Galla Coffee, 31 Oct. 2010. Web. 16 Jan. 2011. <http://www.gallacoffeeblog.co.uk/legends-coffee-1-captain-gabriel-de-clieu/ Geymt 14 febrúar 2011 í Wayback Machine>.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]