Kontraskæruliðar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kontraskæruliðar í suðausturhluta Níkaragva árið 1987.

Kontraskæruliðar eða einfaldlega kontrar voru vopnuð andspyrnuhreyfing sem börðust gegn ríkisstjórn sandínista í Níkaragva á níunda og tíunda áratugnum með stuðningi Bandaríkjanna. Stuðningur Bandaríkjanna við hreyfinguna var ein af orsökum Íran-Kontrahneykslisins á forsetatíð Ronalds Reagan.

Nafnið „kontra“ var stytting á la contrarrevolución, sem merkir „gagnbyltingin“.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Kontraskæruliðarnir voru stofnaðar með stuðningi einræðisstjórnar Jorge Rafael Videla í Argentínu (meðal annars vegna þess að argentínskar vinstrihreyfingar höfðu tekið þátt í borgarastríðinu í Níkaragva árið 1979 og í morðinu á forsetanum Somoza[1]) og bandarísku leyniþjónustunnar. Kontrarnir háðu skæruhernað og gerðu árásir á ríkisstofnanir sandínista í Níkaragva, sér í lagi í norðurhluta landsins þar sem þeir gátu flúið yfir landamærin til Hondúras í bækistöðvar sínar. Kontrarnir gerðu sér ekki miklar vonir um að steypa af stóli stjórn sandínistanna en vonuðust til þess að koma af stað samfélagsóeirðum með því að vinna skemmdarverk á efnahags- og velferðarverkefnum stjórnarinnar. Kontraskæruliðar réðust meðal annars á skóla og heilbrigðisstofnanir, eyðilögðu uppskeru bænda og brenndu niður verksmiðjur.[2]

Kontrahreyfingin varð til með samruna ýmissa andófshreyfinga eignarbænda og frumbyggja sem mótmæltu meðal annars samyrkjuvæðingu sandínistastjórnarinnar, vinahótum hennar við Sovétríkin og herskyldunni sem stjórnin kom á. Hreyfingarnar sameinuðust með stuðningi bandarísku leyniþjónustunnar í júní árið 1985 og töldu árið 1990 til sín um 13.800 til 22.400 meðlimi.[3]

Þann 26. mars 1983 réðust kontrarnir á þorpið Rancho Grande og drápu meðal annars franska lækninn Pierre Grosjean, sem hafði verið í Níkaragva í sex mánuði. Árið 1986 voru þrír Evrópumenn drepnir ásamt tveimur Níkaragvamönnum í áhlaupi kontraskæruliða.[4]

Í maí árið 1987 tóku kontraskæruliðarnir sér nafnið RN (Resistencia Nicaragüense eða Níkaragska andspyrnan).[5] Stjórninni stóð alltaf takmörkuð eiginleg ógn af skærum kontranna vegna spillingar og margvíslegra hernaðarmistaka hinna síðarnefndu.[6] Kontrarnir nutu auk þess aldrei mikils fylgis meðal íbúa Níkaragva. Í skoðanakönnun sem Inter-American Research Center tók árið 1988 sögðust 47 % landsmanna kenna kontrum um stríðsátökin í Níkaragva en aðeins 16 % kenndu sandínistum um.[7]

Þann 23. mars árið 1988 gerðu kontrar vopnahléssamning við ríkisstjórn Níkaragva. Með samningnum var grundvöllur lagður að afvopnun kontranna og viðurkenningu þeirra sem lögmæts og lýðræðislegs stjórnmálaafls. Ekki ríkti einhuga sátt með samninginn og viðurkenning hans leiddi til þess að kontrasveitir undir stjórn Enrique Bermúdez, gamals herforingja frá stjórnartíð Somoza, féllu saman í innanflokksdeilur. Hópar af liðsforingjum Bermudez, sem hann sakaði um vanhæfni og spillingu, gerðu uppreisn gegn honum og hondúríski herinn var kallaður til að binda enda á átökin á milli þeirra.[8] Um 30.000 manns létust í átökunum.

Þann 25. febrúar vann bandalag miðhægrimanna kosningar í Níkaragva og Violeta Chamorro varð nýr forseti landsins. Þar með var barátta kontranna á enda en þó urðu til nokkrar fámennar hreyfingar „endur-kontra“ á tíunda áratugnum.

Aðferðir[breyta | breyta frumkóða]

Edgar Chamorro, gamall kontraforingi, bar vitni fyrir Alþjóðadómstólnum í ákæru Níkaragva gegn Bandaríkjunum árið 1985 og lýsti því hvernig hreyfingin hefði beitt stríðsglæpum markvisst sem hluta af hernaðaráætlun sinni:

„Mikilvægur hluti af störfum mínum sem samskiptafulltrúi sneri að því að bæta ímynd FDN (Fuerza Democrática Nicaragüense, mikilvægustu hernaðarhreyfingar kontra). Það var mikil áskorun því að það var alvanalegt fyrir samtökin að drepa fanga og almenna borgara sem lágu undir grun um að vinna með sandínistum. Þegar ég ræddi við liðsforingja FDN í búðum okkar við hondúrísku landamærin heyrði ég oft athugasemdir eins og „Ég skar hann á háls“. Bandaríska leyniþjónustan reyndi ekki að draga úr svona aðferðum. Þvert á móti gagnrýndi hún mig harkalega þegar ég viðurkenndi fyrir fjölmiðlum að FDN rændi oft og tæki af lífi landbúnaðarverkamenn og almenna borgara. Okkur var sagt að eina leiðin til að sigra sandínistana væri að drepa, ræna, nauðga og pynta.“[9]

Duane Clarridge, tengiliður leyniþjónustunnar við kontrana, viðurkenndi fyrir rannsóknarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings árið 1984 að kontrarnir tækju reglulega af lífi „almenna borgara og embættismenn sandínista úti á landsbyggðinni, forstöðumenn samyrkjubúa, hjúkrunarfræðinga, lækna og dómara“.[10][11]

Í skýrslu sem birt var árið 1987 sakaði Mannréttindavaktin kontra um að standa fyrir fjöldamorðum á bændum, morðum á embættismönnum og góðgerðarstarfsmönnum og um fjölda nauðgana.

Erlendur stuðningur við kontra[breyta | breyta frumkóða]

Kontrar í Níkaragva árið 1987.

Í fyrstu var það herforingjastjórn Argentínu sem studdi og þjálfaði kontraskæruliðana. Argentínskar sérsveitir, svo sem öryggissveitin Batallón de Inteligencia 601, þjálfuðu kontrana, meðal annars í herstöðvum í Lepaterique-héraði í Hondúras.[12] Stuðningur Argentínumanna við kontraskæruliða var hluti af Charly-aðgerðinni (s. Operación Charly) svokölluðu, sem hershöfðinginn Carlos Alberto Martínez stýrði fyrir argentínsku leyniþjónustuna SIDE á stjórnartíð Jorge Rafael Videla ásamt hershöfðingjunum Viola og Valín.[13]

Einræðisstjórn hershöfðingjans Luis García Meza Tejada í Bólivíu stóð fyrir útflutningi á kókaíni til Mið-Ameríku með hjálp argentínsku leyniþjónustunnar. Á móti fjármögnuðu bólivísku eiturlyfjasmyglararnir skæruliðahreyfingar á svæðinu, sérstaklega kontraskæruliðana.[14]

Í lok október árið 1980 heimilaði Jimmy Carter Bandaríkjaforseti bandarísku leyniþjónustunni (CIA) að hefja leynilegar stuðningsaðgerðir við kontra, meðal annars með milljón dollara fjárframlagi. CIA-liðar hófu samstarf við Batallón de Inteligencia 601, sem komu sér upp bækistöðum í Flórída.[13] Á miðjum níunda áratugnum funduðu fyrrum varaformaður CIA, Vernon Walters, og kontraforinginn Francisco Aguirre ásamt argentínsku hershöfðingjunum Viola, Davico og Valín til að stýra hernaðaraðgerðum kontraskæruliða í Mið-Ameríku.[13] Þann 23. nóvember 1981 heimilaði Ronald Reagan Bandaríkjaforseti William Casey, formanni CIA, að styðja og safna liði fyrir kontrana. Fjárframlag Bandaríkjanna til verkefnisins í upphafi nam 19 milljónum Bandaríkjadollara.

Árið 1986 skutu sandínistar niður flugvél á vegum CIA með varning sem ætlaður var kontrunum.[15]

Árið 1984 ákváðu stjórnvöld Níkaragva að leita réttar síns gagnvart Bandaríkjunum við Alþjóðadómstólinn. Árið 1986 dæmdi Alþjóðadómstóllinn gegn Bandaríkjunum og komst að þeirri niðurstöðu að Bandaríkjastjórn hefði gerst brotleg gagnvart alþjóðalögum með stuðningi sínum við kontraskæruliða. Alþjóðadómstóllinn samþykkti einnig kröfu sandínista um að Bandaríkin skyldu greiða Níkaragva skaðabætur fyrir skemmdarverk sem kontraskæruliðar hefðu unnið.[16] Bandaríkjamenn höfnuðu niðurstöðu dómstólsins og töldu sig ekki bundna af henni þar sem dómstóllinn hefði ekki lögsögu í málinu.[17]

Formlegum stuðningi Bandaríkjastjórnar við kontraskæruliða lauk vegna þrýstings frá bandaríska þinginu en stjórn Reagans hélt áfram að styðja kontrana á bak við tjöldin. Leynilegur stuðningur Bandaríkjastjórnar við kontrana var fjármagnaður með vopnasölu til Írans. Þetta varð kveikjan að Íran-kontrahneykslinu, sem reyndist stjórn Reagans erfitt. Kontrar tóku einnig við ísraelskum vopnasendingum með milligöngu einræðisstjórnar Efraín Ríos Montt í Gvatemala.[18]

Fíkniefnasala[breyta | breyta frumkóða]

Á níunda áratugnum lágu kontrar undir grun um að afla sér fjár með sölu á kókaíni. Utanríkismálanefnd Bandaríkjaþings birti þann 13. apríl 1989 skýrslu um kontraskæruliðana og eiturlyfjasölu. Niðurstaða skýrslunnar var að „æðstu valdhafar Bandaríkjanna [hefðu ekki verið] mótfallnir þeirri hugmynd að eiturlyfjasala væri þjóðráð við fjárhagsörðugleikum kontranna.“[19] Í skýrslunni var staðfest að starfsmenn bandaríska utanríkisráðuneytisins hefðu gerst aðilar að eiturlyfjasölunni til að styðja kontrana og að kontrar hefðu vitað að fjárhagsaðstoðin sem þeir tóku við væri byggð á fíkniefnasölu.[20]

Í skýrslunni kom fram að utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefði greitt eiturlyfjasölum fjárframlög sem Bandaríkjaþing hafði heimilað undir því yfirskyni að um líknarhjálp til kontra væri að ræða. Í sumum tilfellum hefðu eiturlyfjasalarnir þegar verið ákærðir af bandarískum alríkisstofnunum fyrir fíkniefnabrot og í öðrum tilvikum hefðu þeir sætt rannsóknum þegar þeir tóku við greiðslunum.[21][22]

Ásakanir á hendur utanríkisráðuneytinu um aðild að fíkniefnabraski voru aftur lagðar fram árið 1996 eftir að blaðamaðurinn Gary Webb birti niðurstöður úr rannsóknum sínum á málinu í tímaritinu San Jose Mercury News[23] og síðar í bókinni Dark Alliance, þar sem hann greindi frá því að kontrar hefðu selt krakk á götum Los Angeles til að fjármagna vopnakaup sín.

Í grein The Wall Street Journal frá 29. janúar 1997 var fjallað um eiturlyfjasölu tengda kontrum í bænum Mena í Arkansas:

„Mitt í hringiðu getgáta sem settar hafa verið fram um Mena má finna nokkrar óumdeildar staðreyndir: Einn af bestu fíkniefnauppljóstrurum í sögu Bandaríkjanna, smyglarinn Barry Seal, gerði út fraktflug sín frá Mena. Á hátindi ferils síns flutti hann allt að 453 kíló af kókaíni á mánuði og mat eignir sínar upp á rúmlega 50 milljónir Bandaríkjadala. Eftir að hann gerðist uppljóstrari fyrir fíkniefnaeftirlitið vann hann að minnsta kosti eitt skipti með CIA, í aðgerð sem beindist gegn sandínistum. Hann var skotinn til bana af kólumbískum leigumorðingjum í Baton Rouge í Louisiana árið 1986; átta mánuðum síðar var ein af flugvélum hans – með flugmann frá Arkansas við stýrið – skotin niður yfir Níkaragva með farm af varningi fyrir kontraskæruliða.“[24]

Árið 1998 birti Frederick Hitz, aðaleftirlitsmaður CIA, skýrslu í tveimur bindum þar sem hann renndi stoðum undir ásakanir Webbs, lýsti fíkniefnasölu kontranna og hvernig starfsemi þeirra hefði notið verndar á forsetatíðum Reagans og Bush.[25][26]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Nicolas Albrecht (30. desember 1998). „Le commandant Zéro revendique la paternité de l'exécution de Somoza en 1980“ (franska). L'Humanité. Sótt 3. október 2019.
 2. „Création des Contras au Nicaragua“ (franska). Sótt 3. október 2019.
 3. Raphaëlle Bail (desember 2001). „Contras » et « compas », une même amertume“. Le Monde diplomatique. Sótt 3. október 2019.
 4. „Une petite guerre, si meurtrière pourtant“ (franska). Volcans. Sótt 3. október 2019.
 5. „Fiche sur le Nicaragua“. Quid. Sótt 3. október 2019.
 6. Jill Smolowe. „Nicaragua Is It Curtains?“ (enska). Time. Sótt 3. október 2019.
 7. Marvin Ortega. „Revista Envío - Sandinistas Surviving In a Percentage Game“ (enska). Envío. Sótt 3. október 2019.
 8. https://www.clio.fr/CHRONOLOGIE/pdf/pdf_chronologie_lamerique_centrale.pdf
 9. „War Against the Poor: Low-Intensity Conflict and Christian Faith“ (enska). Sótt 3. október 2019.
 10. "CIA-assisted 'contras' murdered Sandinistas, official reportedly says" Knight-Ridder, 20. október 1984
 11. „Arizona Republic from Phoenix, Arizona on October 20, 1984 · Page 22“ (enska). Newspapers.com. 20. október 1984. Sótt 3. október 2019.
 12. Darío Bermúdez (25. september 2005). „Capítulos desconocidos de los mercenarios chilenos en Honduras camino de Iraq“ (spænska). La Nación. Sótt 3. október 2019.
 13. 13,0 13,1 13,2 María Seoane (24. mars 2006). „Los secretos de la guerra sucia continental de la dictadura“ (spænska). Clarín. Sótt 3. október 2019.
 14. Maurice Lemoine (2015). Les enfants cachés du général Pinochet. Précis de coups d’Etat modernes et autres tentatives de déstabilisation. Don Quichotte. bls. 126–127.
 15. „El Gobierno de Nicaragua libera a Eugene Hasenfus“ (spænska). EL PAÍS. 18. desember 1986. Sótt 3. október 2019.
 16. „Bandaríkjastjórn braut alþjóðalög“. Þjóðviljinn. 28. júní 1986. Sótt 3. október 2019.
 17. „Aðstoð Bandaríkjamanna við contra-skæruliða fordæmd“. Morgunblaðið. 28. júní 1986. Sótt 3. október 2019.
 18. „Entre le Guatemala et Israël, une histoire ancienne et pleine de sang“ (franska). Medelu. 1. janúar 2018. Sótt 3. október 2019.
 19. „The Oliver North file: His diaries, e-mail, and memos on the Kerry report, Contras and drugs“. National Security Archive. 26. febrúar 2004. Sótt 3. október 2019.
 20. Jeffrey St. Clair; Alexander Cockburn (1998). Whiteout: the CIA, Drugs and the Press. Verso. ISBN 978-1859842584.
 21. „Selections from the Senate Committee Report on Drugs, Law Enforcement and Foreign Policy chaired by Senator John F. Kerry“ (enska). 21. febrúar 2005. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. febrúar 2005. Sótt 3. október 2019.
 22. Subcommittee on Terrorism, Narcotics, and International Communications and International Economic Policy, Trade, Oceans, and Environment of the Committee on Foreign Relations, United States Senate (1989). Drugs, law enforcement, and foreign policy : A report. Washington: GPO.
 23. Gary Webb (1996). „The Dark Alliance“ (enska). San Jose Mercury News. Sótt 3. október 2019.
 24. Micah Morrison (29. janúar 1997). „Mysterious Mena : CIA Discloses, Leach Disposes“ (enska). Wall Street Journal. Sótt 2019 2019.
 25. Frederick P. Hitz (16. mars 1998). „Prepared Statement of Frederick P. Hitz inspector General, Central Intelligence Agency Before The House Committee On Intelligence subject — Investigation Of allegations of Connections Between CIA and the Contras In Drug Trafficking to the United States“. Federal News Service. Sótt 22. apríl 2006.
 26. Pincus, Walter (17. mars 1998). „Inspector: CIA Kept Ties With Alleged Traffickers“. The Washington Post: A12.