Fara í innihald

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jóhanna Guðrún
Jóhanna Guðrún árið 2009
Fædd
Jóhanna Guðrún Jónsdóttir

16. október 1990 (1990-10-16) (33 ára)
Önnur nöfnYohanna
StörfSöngvari
Ár virk1999–í dag
Börn3
Tónlistarferill
UppruniHafnarfjörður, Ísland
Stefnur
HljóðfæriRödd
Útgefandi

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir (f. 16. október 1990 í Kaupmannahöfn, Danmörku), eða Yohanna eins og hún kallar sig utan Íslands, er íslensk söngkona. Hún var þekkt barnastjarna á Íslandi eftir að hafa gefið út fyrstu plötu sína árið 2000. Hún er þekktust utan Íslands fyrir að hafa náð öðru sæti með flutningi lagsins „Is It True?“, sem var framlag Íslands til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2009 sem haldin var í Moskvu.

Jóhanna Guðrún fæddist í Kaupmannahöfn í Danmörku þann 16. október 1990. Foreldrar hennar voru Jón Sverrir Sverrisson, rafmagnsfræðingur, og Margrét Steinþórsdóttir, hjúkrunarfræðingur.[1] Hún segist hafa byrjað að syngja áður en hún lærði að tala.[2] Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur þegar hún var tveggja ára gömul og bjó þar í sex ár en fluttist þá til Hafnarfjarðar. Jóhanna stefndi alltaf að því að verða söngkona frá því að hún var ungbarn. „Það kom aldrei neitt annað til greina hjá mér en að syngja og ég hafði alltaf mjög mikinn áhuga á því að syngja fyrir aðra. Alveg frá því að ég var pínulítil.“[3] Áhugi hennar á tónlist óx og þegar hún var átta ára gömul tók hún þátt í söngvakeppni ásamt 100 öðrum börnum. María Björk, söngkennarinn sem stóð fyrir keppninni, varð hrifin af Jóhönnu sem lenti í sjötta sæti og fannst hún vera mjög efnileg. María bauð Jóhönnu inngöngu í söngskólann sinn fyrir börn þar sem hún lærði grundvallaratriðin í flutningi á lögum.[4] Eftir að hafa tekið eitt námskeið í skólanum ákváðu þær María og Jóhanna að gefa út plötu.[5]

Jóhanna Guðrún áritar eintök af plötunni Ég sjálf

Árið 1999 hóf Jóhanna vinnu að fyrstu plötunni sinni Jóhanna Guðrún 9. Á plötunni voru íslenskar útgáfur erlendra laga, þar á meðal „Genie in a Bottle“ og „Torn“. Umboðsmaður og tónlistarkennari Jóhönnu, María Björk, sá um söng og upptökustjórn við gerð plötunnar en á henni voru ellefu lög. Lagið „Bíóstjarnan mín“ var gefið út sem smáskífa og komst í topp tíu á vinsældalista á Íslandi. Páll Rósinkranz söng einnig á móti Jóhönnu í íslenskri útgáfu lagsins „I'll Be There“ sem á íslensku hét „Mundu mig“. Platan kom út á tíu ára afmælisdegi Jóhönnu, þann 16. október 2000 og hlaut mikið lof gagnrýnenda. Um það bil hálfu ári seinna hafði fyrsta hljómplata hennar selst í yfir 10.000 eintökum.

Fljótlega sneri Jóhanna aftur í upptökuverin og fór að vinna að annarri plötu sinni Ég sjálf. Platan kom út árið 2001 og var ekki síður vinsæl en sú fyrri. Jóhanna var á þeim tíma ein vinsælasta barnastjarna Íslands og kom oft fram á skemmtunum. Hún höndlaði athyglina vel, enda fannst henni hún vera nokkuð eðlileg. „Ég þekkti lítið annað. Þetta var það sem ég vildi og stefndi að“. Jólin 2002 gaf hún svo út síðustu plötuna sína í sex ár, Jól með Jóhönnu. Á plötunni voru mörg fræg jólalög þar á meðal „Heims um ból“. Skólaganga hennar var ekki hefðbundin vegna tónlistarinnar en það urðu aldrei nein vandamál sem fylgdu frægðinni og aldrei var hún lögð í einelti, „Auðvitað er alltaf einhver aukaleg athygli og einhver slæm athygli sem fylgir þessu en ég náði alveg að útiloka hana“.[6]

Unglingsárin

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Jól með Jóhönnu kom út tók hún sér frí frá sviðsljósinu en það var sameiginleg ákvörðun Maríu og foreldra hennar. Þau ákváðu að hún gæti snúið aftur þegar hún væri tilbúin. Jóhanna eyddi mestöllum tíma sínum í upptökuverinu til þess að æfa og þróa söngrödd sína þó að hún væri ekki lengur að gefa út plötur. Hún notaði þennan tíma til þess að þróa sig og finna réttu stefnuna í tónlistinni.

Frá ellefu ára aldri þangað til að hún var fimmtán ára gömul ferðaðist Jóhanna mikið til New York og Los Angeles á fundi til þess að æfa sig og undirbúa framtíðina. Henni gafst tækifæri til þess að vinna með mörgum þekktum listamönnum og öðru hæfileikaríku fólki. Hún gerði heila plötu með Lee Horrocks, lagahöfundi, og Rick Wade sem var stór stjörnuútgefandi í Bandaríkjunum á þeim tíma. Platan var aldrei gefin út. Jóhanna gerði samning við Sony þar sem Tommy Mottola var upptökustjóri en hann vildi bíða með að gefa út plötu þangað til að hann hefði sjálfur stofnað sitt eigið útgáfufyritæki. Mottola vildi bíða þar til hún yrði átján ára svo að röddin hennar gæti þróast meira en Jóhönnu fannst það vera of langur tími. Hún rifti samningnum en hélt samt sem áður áfram að vinna með Wade.

Endurkoma í sviðsljósið

[breyta | breyta frumkóða]

Butterflies and Elvis

[breyta | breyta frumkóða]

Í lok ársins 2008 gaf Jóhanna út sína fyrstu plötu í sex ár, Butterflies and Elvis. Hún starfaði þá undir nafninu Yohanna og hafði skrifað flest lögin á plötunni ásamt Lee Horrocks sem framleiddi einnig plötuna ásamt Maríu Björk. Hún valdi sviðsnafnið Yohanna af því að hún var orðin þreytt á því að heyra Bandaríkjamenn kalla sig „djóhana“. Platan var að mestu tekin upp í Los Angeles. Jóhanna kallaði þessa plötu fyrstu „fullorðins“ plötuna sína enda hafði hún eytt mörgum árum í undirbúning. Platan var gefin út í mörgum Evrópuríkjum þar á meðal Danmörku, Noregi, Finnlandi, og Svíþjóð þar sem hún lenti í tuttugasta sæti á vinsældalistanum.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva

[breyta | breyta frumkóða]

Stuttu eftir að Butterflies and Elvis var gefin út, hafði Óskar Páll Sveinsson samband við Jóhönnu og bað hana um að syngja lagið „Is It True?“ í Söngvakeppni sjónvarpsins. Jóhanna flutti lagið í fyrstu undankeppni Söngvakeppni sjónvarpsins 2009 þann 10. janúar og var það annað tveggja laga sem komust áfram það kvöld. Úrslitin fóru fram þann 14. febrúar og var Jóhanna síðust af átta flytjendum með lag sitt. Yfir 69.000 atkvæði voru greidd í atkvæðagreiðslunni og lag Jóhönnu var kosið 19.076 sinnum og bar hún sigur úr brýtum með næstum því tíu þúsund fleiri atkvæði heldur en lagið sem var í öðru sæti, „Undir Regnbogann“, með Ingó. Jóhanna gaf út takmarkaða útgáfu af Butterflies and Elvis eftir að hafa unnið keppnina þar sem að „Is It True?“ var bætt við plötuna. Lagið var gefið út sem smáskífa og komst inn á topp tíu á vinsældalistum á Íslandi og í Finnlandi, Grikklandi, Noregi, Svíþjóð, og Sviss.

Jóhanna fór í kynningarferð til bæði Bretlands og Hollands til þess að auglýsa lagið áður en hún ferðaðist til Moskvu. Hún flutti „Is It True?“ í UK Eurovision Preview veislunni í London þann 17. apríl og daginn eftir á Eurovision Promo tónleikunum í Amsterdam.[7][8]

Einni viku seinna lagði Jóhanna af stað til Moskvu og æfingar hófust fyrir undankeppnina. Andrew Lloyd Webber sem samdi breska lagið taldi Ísland vera aðalkeppinaut sinn í keppninni. Íslandi var spáð velgengni í keppninni og var spáð sjötta sæti í aðalkeppninni af mörgum, en aðrir giskuðu á allt frá átjanda til fyrsta sætis.

Þriðjudaginn 12. maí átti fyrri undankeppnin sér stað og Jóhanna flutti lagið sitt tólfta af átján. Jóhanna var í fyrsta sæti í undankeppninni með 174 stig og var aðeins 2 stigum á undan Tyrklandi sem var í öðru sæti. Öll lönd fyrir utan Ísland höfðu greitt Jóhönnu atkvæði.[9]

Þann 16. maí var aðalkeppnin haldin og var Jóhanna sjöunda í röðinni af 25 flytjendum, á eftir flytendum Portúgals og á undan flytjanda Grikklands. Þegar atkvæðagreiðsla hófst raðaði Jóhanna inn stigum frá upphafi. Þó að keppandi Noregs, Alexander Rybak, hafi verið langt á undan öðrum keppendum, var mikil keppni um annað sætið, aðallega á milli Ísland og Aserbaísjans. Ísland endaði að lokum í öðru sæti með 218 stig.[10]

Frá átta ára aldri hefur Jóhanna glímt við liðagigt. Hún er einnig með sjálfsofnæmi sem er talið vera tilkomið vegna gigtarinnar. Það kemur fram í lithimnubólgu í auga og varð fyrst vart árið 2008. Á þeim tíma stundaði Jóhanna söngnám í Danmörku þegar hún tók eftir því að annað auga hennar varð rautt og svo grátt. Hún var blind á því um tíma af því að augað bólgnaði svo mikið og olli það miklum sársauka. Eftir að hafa farið þrisvar sinnum á spítala í Danmörku, þar sem hún var greind með frjókornaofnæmi, fékk hún vinkonu sína til þess að hjálpa sér við að senda móður sinni, sem er hjúkrunarfræðingur, myndir í tölvupósti. Móðir hennar taldi það útilokað að þetta væri frjókornaofnæmi og sendi hana til Íslands með fyrsta flugi. Hún lögð inn á spítala við heimkomu þar sem hún var í tíu daga. Óvíst var hvort að hún fengi sjónina á auganu aftur en sterar voru settir í augað á hálftíma fresti allan sólarhringinn. Bólgur hafa oft blossað upp í auganu síðan en hún hefur þó haldið sjóninni á auganu.

Útgefið efni

[breyta | breyta frumkóða]

Breiðskífur

[breyta | breyta frumkóða]
Útgáfuár Plötuheiti Ísland Svíþjóð
2000 Jóhanna Guðrún 9 10.000
2001 Ég sjálf 7.000
2002 Jól með Jóhönnu
2008 Butterflies and Elvis 10.000
2020 Jól með Jóhönnu
  1. Starfsmaður Fréttablaðsins (8. maí 2009), http://epaper.visir.is/media/200905080000/pdf_online/3_2.pdf Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine, Fréttablaðið
  2. Jóhanna Guðrún Jónsdóttir (2. nóvember 2009), http://www.myspace.com/yohannamusic/blog[óvirkur tengill], MySpace
  3. Ásgeir Jónsson (17. febrúar 2009), http://www.dv.is/brennidepill/2009/2/17/eg-er-ordin-fullordin/ Geymt 21 febrúar 2009 í Wayback Machine, DV
  4. http://www.yohannamusic.com/en/bio Geymt 20 maí 2011 í Wayback Machine, Yohanna Music, 21. júní 2011
  5. Hjördís Rut Sigurjónsdóttir (32. árgangur, 2009) Nýtt Líf
  6. Ásgeir Jónsson (17. febrúar 2009), http://www.dv.is/brennidepill/2009/2/17/eg-er-ordin-fullordin/ Geymt 21 febrúar 2009 í Wayback Machine, DV
  7. Viniker, Barry (24. apríl 2011). http://www.esctoday.com/news/read/13580 Geymt 29 nóvember 2011 í Wayback Machine. ESCToday
  8. Romkes, René (17. apríl 2009). http://www.esctoday.com/news/read/13545 Geymt 22 mars 2009 í Wayback Machine. ESCToday
  9. Starfsmaður Eurovision.Tv (Maí 2009), http://www.eurovision.tv/page/history/by-year/contest?event=1480, Eurovision Song Contest.tv
  10. ESC Today, http://www.esctoday.com/news/read/13531