Eiríkur Hauksson

Eiríkur Hauksson, kallaður Eric Hawk alþjóðlega, (f. 4. júlí 1959) er íslenskur tónlistarmaður búsettur í Noregi frá 1988. Hann hefur m.a. verið meðlimur í hljómsveitunum Start, Drýsill og Artch en starfar nú sjálfstætt.
Árið 1985 urðu tvö lög sem Eiríkur söng, Gaggó Vest og Gull, eftir Gunnar Þórðarson mjög vinsæl og er hann helst þekktur á Íslandi fyrir þau lög ásamt þátttöku sinni í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1986 þar sem hann söng lagið Gleðibankinn. Árið 1985 tók hann einnig þátt í laginu Hjálpum þeim til styrktar hungursneyðar í Afríku. (sambærilegt Live Aid í Bretlandi)
Eiríkur tók aftur þátt í Söngvakeppninni 1991 fyrir hönd Noregs með lagið Mrs. Thompson en þar söng hann með hljómsveitinni Just4Fun.
Eiríkur söng sem gestasöngvari á plötu sænsku melódísku dauðarokksveitarinnar Gardenian árið 1999. Árið 2005 túraði Eiríkur með Ken Hensley úr Uriah Heep um Evrópu. Hann var söngvari norska progrokkbandsins Magic Pie árið 2007.
Þann 17. febrúar 2007 var hann valinn til að flytja lagið Valentine Lost (Ég les í lófa þínum á íslensku) fyrir hönd Íslands í söngvakeppninni 2007 sem var haldin 12. maí í Helsinki í Finnlandi, en komst ekki upp úr undankeppninni.