Henri La Fontaine
Henri La Fontaine | |
---|---|
Fæddur | 22. apríl 1854 |
Dáinn | 14. mars 1943 (88 ára) |
Þjóðerni | Belgískur |
Menntun | Fríháskólinn í Brussel |
Störf | Lögfræðingur |
Flokkur | Verkamannaflokkurinn |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (1913) |
Henri-Marie La Fontaine (22. apríl 1854 – 14. mars 1943[1]) var belgískur lögfræðingur, stjórnmálamaður, femínisti og friðarsinni. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1913 fyrir störf sín með Alþjóðafriðarskrifstofunni og önnur framlög sín til skipulagningar evrópsku friðarhreyfingarinnar.[2]
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Henri La Fontaine fæddist í Brussel og kom úr millistéttarfjölskyldu. Hann hlaut framhaldsmenntun í skólanum Athénée de Bruxelles og útskrifaðist síðar með doktorspróf í lögfræði frá Fríháskólanum í Brussel.[3] Árið 1877 hóf La Fontaine feril sem lögfræðingur við belgískan áfrýjunardómstól og gegndi starfsnámi hjá Jules Bara (1835-1900), Auguste Orts (1814-1880) og loks hjá Edmond Picard (1836-1924). La Fontaine starfaði sem ritari Picards og vann með honum að belgíska dómasafnritinu Pandectes belges.
Sem lögfræðingur kynntist La Fontaine Paul Otlet og fékk með honum brennandi áhuga á bókfræði. Kynni þeirra leiddu til þess að La Fontaine gaf árið 1891 út ritgerðina Essai de bibliographie de la paix. Árið 1895 stofnuðu þeir saman Alþjóðlegu bókfræðiskrifstofuna (fr. Office international de bibliographie), sem síðar varð kölluð Mundaneum. Með stofnuninni átti La Fontaine þátt í að þróa alþjóðlega tugflokkunarkerfið UDC.
Henri La Fontaine vann náið með belgíska Verkamannaflokknum frá stofnun hans árið 1885 og gerðist formlega meðlimur í flokknum árið 1894. Stuttu síðar varð La Fontaine einn af fyrstu fulltrúum sósíalista á efri deild belgíska þingsins. Hann gekk fyrst á þing sem þingmaður kjördæmisins Hainaut til ársins 1898 og sat síðan á þingi fyrir Liège frá 1900 til 1932 og fyrir Brabant frá 1935 til 1936. La Fontaine var varaforseti efri þingdeildarinnar frá 1907 til 1932. Hann var þar ötull talsmaður almenningsmenntunar, kvenréttinda og friðarmála.
Árið 1889 tók La Fontaine, sem sérfræðingur í alþjóðarétti og alþjóðastjórnmálum, þátt í stofnun belgískra sáttargerða- og friðarsamtaka. Samtökin skipulögðu alþjóðlega friðarráðstefnu í Antwerpen árið 1894 og tóku þátt í stofnun Alþjóðafriðarskrifstofunnar, en La Fontaine var forseti hennar frá 1907 til 1943.
La Fontaine var meðlimur í Alþjóðaþingmannasambandinu, sem hann leit á sem vísi að alheimsþingi. Hann var mjög virkur innan sambandsins og sótti allar ráðstefnur þess. Með störfum sínum í þágu friðar varð La Fontaine einn af helstu andlitum evrópsku friðarhreyfingarinnar og árið 1913 var hann sæmdur friðarverðlaunum Nóbels.
La Fontaine var all ævi áhugasamur um friðarstörf. Í fyrri heimsstyrjöldinni flúði hann í útlegð til Bandaríkjanna og birti þar árið 1916 The great solution : magnisissima charta.[4] Í því verki færði hann rök fyrir hugmyndinni að Þjóðabandalagi og milliríkjasamstarfi. Árið 1919 var hann fulltrúi í sendinefnd Belga á friðarrástefnunni í París og síðan á þingi Þjóðabandalagsins. Hann tók þátt í að skipuleggja sam-afrískt ríkjaþing árið 1921.[5]
La Fontaine var vígður inn í frönsku Frímúrararegluna í stúku hennar í Brussel, Les Amis philanthropes. Hann varð síðar stórmeistari stúkunnar og stóð fyrir stofnun einnar fyrstu tvíkynja Frímúrarareglunnar, Droit Humain, í Belgíu.
La Fontaine lést í Brussel þann 14. maí árið 1943. Hann er grafinn í brusselska kirkjugarðinum í Evere. Árið 2011 var sett á fót Henri La Fontaine-stofnunin, sem berst fyrir almennri menntun, alþjóðarétti og lýðræði.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „The Nobel Peace Prize 1913“. NobelPrize.org (bandarísk enska). Sótt 17. apríl 2020.
- ↑ „The Nobel Peace Prize 1913 - Presentation Speech“. www.nobelprize.org. Sótt 17. apríl 2020.
- ↑ Nadine Bernard (1995). „HENRI LA FONTAINE (1854-1943) OU LA PAIX PAR LE DROIT“ (PDF). REVUE BELGE DE DROIT INTERNATIONAL (franska) (1): 343–356. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 27. júní 2020. Sótt 18. apríl 2020.
- ↑ Cette publication est disponible en ligne sur Internet Archive
- ↑ Amzat Boukari-Yabara (2014). Une histoire du panafricanisme. bls. 73.
- ↑ „Fondation Henri La Fontaine“. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. september 2019. Sótt 18. apríl 2020.
Ítarefni
[breyta | breyta frumkóða]- Abrams (Irwin), « Henri La Fontaine », in : The Nobel Peace Prize and the Laureates : An illustrated biographical history, 1901-1987, Boston: G. K. Hall & Co., 1989, bls. 76-78.
- Abs (Robert), « Fontaine (Henri-Marie La) », in : Biographie nationale, tome XXXVIII, Bruxelles, Académie royale des sciences, des lettres et des beaux-arts de Belgique, 1973, col. 213-221.[1]
- Baugniet (Jean), « Deux pionniers de la coopération internationale et de la paix universelle : Henri La Fontaine et Paul Otlet », in : Synthèses, nr. 288, júní 1970, bls. 44-48.
- Bernard (Nadine), « Henri La Fontaine (1854-1943) ou la paix par le droit », in : Revue belge de droit international, nr. 1, 1995, Bruxelles, bls. 343-356.
- Hasquin (Hervé) et alii, Henri La Fontaine. Tracé(s) d’une vie. Un prix Nobel de la Paix (1854-1943), Mons, Éditions Mundaneum, 2002, 120 pages.
- Lubelski-Bernard (Nadine), « La Fontaine, Henri Marie », in : Harold Josephson dir., Biographical dictionary of modern peace leaders, Wesport-Londres, 1985, bls. 538-539.
- Lubelski-Bernard (Nadine), « Vie et œuvre de Henri La Fontaine : 22. apríl 1854 – 14. maí 1943 », in : Transnational Associations/Associations transnationales, nr. 4, 1993, Bruxelles : Union des associations internationales, bls. 186-189.
- Vande Vijver (Gwenaël), L’action politique d’Henri La Fontaine, mémoire présenté sous la direction de Jean Puissant en vue de l’obtention du grade de licencié en histoire contemporaine, Université libre de Bruxelles, Faculté de philosophie et lettres, 2001-2002.
- Denis Lefebvre, Henri La Fontaine franc-maçon, Éditions de la Fondation Henri La Fontaine, 2019.