Fara í innihald

Rúmenía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá România)
Rúmenía
România
Fáni Rúmeníu Skjaldarmerki Rúmeníu
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Desteapta-te, Romane!
Staðsetning Rúmeníu
Höfuðborg Búkarest
Opinbert tungumál rúmenska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Klaus Iohannis
Forsætisráðherra Marcel Ciolacu
Sjálfstæði frá Tyrkjaveldi
 • Sjálfstæði 9. maí 1877 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
81. sæti
238.397 km²
3
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
61. sæti
19.317.984[1]
84,4/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 636,481 millj. dala (36. sæti)
 • Á mann 32.950 dalir (44. sæti)
VÞL (2019) 0.828 (49. sæti)
Gjaldmiðill Leu
Tímabelti UTC+2 (UTC+3 á sumrin)
Þjóðarlén .ro
Landsnúmer +40
Kort af Rúmeníu.

Rúmenía (rúmenska: România) er land í Suðaustur-Evrópu vestur af Svartahafi. Rúmenía á landamæri að Úkraínu og Moldóvu í norðaustri, Ungverjalandi og Serbíu í vestri og Búlgaríu í suðri. Í miðju landinu er Transilvaníusléttan, sem er afar frjósöm og fjallend. Rúmeníu er skipt upp í 41 sýslu eða judeţe.

Rúmenía er 238.391 ferkílómetrar og þar með tólfta stærsta land Evrópu. Í Rúmeníu búa tæpar 20 milljónir[1] (2011) (90% rúmenskumælandi, 7% ungverskumælandi og 3% eru sígaunar eða koma annars staðar frá). Tvær milljónir búa í höfuðborginni Búkarest, sem er fjölmennasta borgin, en helstu stórborgir Rúmeníu eru með svipaðan íbúafjölda og á öllu Íslandi: Galati (249 þúsund), Iasi (290 þúsund), Cluj-Napoca (324 þúsund), Timisoara (319 þúsund), Craiova (269 þúsund), Constanta (283 þúsund) og Brasov (253 þúsund) (2011).

Opinbert tungumál landsins er rúmenska. Verg þjóðarframleiðsla ársins 2004 var rúmir 73 milljarðar Bandaríkjadala og hafði þá vaxið að raungildi um 8,3% frá árinu áður. Helstu áskoranir efnahagslífsins árið 2005 litu þannig út að verðbólgan var 8,6% og atvinnuleysið 5,9%.

Veðurfar í Rúmeníu er í stíl við legu landsins á miðju meginlandinu. Kaldasti mánuðurinn er janúar þar sem meðalhiti er milli mínus sjö og mínus einnar gráðu á celsíus en júlí er heitastur og er sjaldgæft að hitinn fari niður fyrir sextán gráður í þeim mánuði heldur en hann frekar nær 34 gráðunum.

Saga Rúmeníu er löng og ná heimildir því sem næst aftur til fyrstu aldar e.Kr. Árið 106 náðu Rómverjar yfirráðum yfir Dakíu og ríktu þar allt fram til 271 þegar Germanar náðu þar völdum. Næstu stóru breytingar verða svo ekki fyrr en árið 900 þegar Transylvanía varð yfirráðasvæði Ungverja og aftur á 15. öld þegar furstadæmin Moldavía og Vallakía beygðu sig undir tyrknesk yfirráð og greiddu þeim skatta. En það eru einmitt þessi tvö furstadæmi sem sameinuðust um 1860 undir nafninu Rúmenía og fengu alþjóðlega viðurkenningu sem sjálfsstætt ríki á Berlínarfundinum 1878.

Saga nútímaríkisins Rúmeníu nær semsagt aftur til fyrrnefndrar sameiningar. Þremur árum eftir að Rúmenía fékk sjálfstæði varð hún að konungsríki. Hið nýja konungsríki náði þó ekki til allra svæða þar sem Rúmenar bjuggu. Þannig bjuggu þrjár milljónir rúmenskumælandi fólks í Transylvaníu sem var undir ungverskri stjórn, tvær milljónir bjuggu í Bessarabíu sem var undir stjórn Rússa og lítill hópur bjó í Dobrúdja í Búlgaríu. Markmið hins nýja konungsríkis var að sameina alla Rúmena í eitt ríki (Stór-Rúmenía). Þetta markmið náðist við lok heimsstyrjaldarinnar fyrri þegar bandamenn skilgreindu Rúmeníu ásamt hluta Transylvaníu, Bessarabíu, Norður-Búkóvínu og suðurhluta Dobrúdja sem andsovéskt svæði. Við þetta tvöfaldaðist Rúmenía að stærð en náði hvorki að aðlaga nýju íbúana að ríkinu né byggja upp efnahag nýju svæðanna í samræmi við efnahag landsins.

Þetta breyttist aftur 1940 þegar Sovétríkin yfirtóku stærstan hluta þessa svæðis og Þýskaland tók til sín Transylvaníu. Friðarsamningurinn 1947 þýddi fyrir Rúmeníu að norðurhluti Transylvaníu varð aftur hluti ríkisins en Bessarabía og Norður-Búkóvína voru undir sovéskum yfirráðum (í dag eru þessi héruð hlutar annars vegar Moldóvu og hins vegar Úkraínu).

Þekktastur leiðtoga Rúmeníu eftir síðari heimsstyrjöldina er vafalaust Nicolae Ceausescu enda stjórnaði hann landinu harðri hendi frá 1965 til 1989. Það var semsagt ekki fyrr en við fall kommúnismans í Austur-Evrópu sem hann missti völdin. Í framhaldi af blóðugri uppreisn var hann tekinn af lífi ásamt konu sinni 25. desember sama ár.

Rúmenía varð aðili að ESB þann 1. janúar 2007 en þó voru sett ákveðin höft og skilyrði varðandi inngöngu landsins.

Í lok ársins 2006 tóku ný trúarbragðalög gildi í Rúmeníu sem leystu af hólmi lög frá 1948. Þar sem Vottar Jehóva hafa nú einnig fengið viðurkenningu sem trúfélag hefur viðurkenndum trúfélögum nú fjölgað í átján í Rúmeníu. Í nýju lögunum kemur fram að engin ein trúarbrögð í landinu séu ríkistrúarbrögð og að öll viðurkennd trúfélög séu jöfn frammi fyrir lögum landsins.

Landafræði

[breyta | breyta frumkóða]

Rúmenía er stærsta landið í Suðaustur-Evrópu. Stór hluti af landamærum landsins við Serbíu og Búlgaríu er myndaður af Dóná. Áin mætir ánni Prut, sem myndar landamæri við Moldóvu og rennur svo út í Svartahaf við Dónárósa sem eru best varðveittu stóru árósarnir í Evrópu og mikilvægur viðkomustaður margra tegunda farfugla á leið til og frá Norður-Evrópu.

Í miðju landinu eru Karpatafjöll sem skilja Transylvaníu frá Vallakíu og Moldavíu. Hæsta fjall Rúmeníu er Moldoveanu-tindur (2544 m) í suðurhluta landsins.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnarskrá Rúmeníu byggist á stjórnarskrá fimmta franska lýðveldisins og var samþykkt með þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1991. Stjórnarfar í Rúmeníu byggist á fjölflokkakerfi og aðskilnaði þriggja greina ríkisvaldsins. Forseti og forsætisráðherra deila með sér framkvæmdavaldinu. Forsetinn er kosinn í almennum kosningum og getur mest setið tvö fimm ára kjörtímabil.

Þingið skiptist í fulltrúadeild með 346 þingsætum og öldungadeild með 140 sætum. Allir þingmenn eru kjörnir til fjögurra ára samkvæmt hlutfallskosningu. Rúmenska dómskerfið er undir miklum áhrifum frá franska dómskerfinu. Æðsti dómstóllinn er stjórnlagadómstóll sem kveður upp úr um samræmi laga við stjórnarskrána.

Í tengslum við inngönguna í ESB hefur landið ráðist í ýmsar umbætur, þar á meðal réttarfarsumbætur, og reynt að koma böndum á spillingu. Engu að síður er Rúmeníu og Búlgaríu lýst sem tveimur spilltustu löndum sambandsins.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 „Populaţia rezidentă la 1 Ianuarie 2020“ (PDF). Insse.ro (rúmenska). Hagstofa Rúmeníu. Sótt 28. ágúst 2021.