Fara í innihald

Transylvanía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort af Rúmeníu. Transylvanía er lituð gul

Transylvanía (eða Sjöborgaland) (ungverska: Erdély; rúmenska: Transilvania eða Ardeal; þýska: Siebenbürgen eða Überwald (über Walt); latína Transsilvania eða Transsylvania; Saxneska Siweberjen; tyrkneska Erdelistan) er landsvæði í norðvestur- og miðhluta Rúmeníu, sem í gegnum tíðina hefur tilheyrt Ungverjalandi og verið hluti af veldi Habsborgara. Til 1711 var Transylvanía sjálfstætt furstadæmi.

Landafræði

[breyta | breyta frumkóða]

Svæðið sem í dag nefnist Transylvanía er rúmenskt hérað sem skiptist í sextán sýslur og nær yfir 103.600 km² svæði í mið- og norðvesturhluta Rúmeníu. Transylvanía er þannig meira en helmingur Rúmeníu. Sýslurnar eru Alba, Arad, Bihor, Bistrita-Nasaud, Brasov, Caras-Severin, Cluj, Covasna, Harghita, Hunedoara, Maramures, Mures, Salaj, Satu Mare, Sibiu og Timis.

Af Transylvaníuhásléttunni renna árnar Mures, Somes, Cris og Olt auk annarra þveráa Dónár. Cluj-Napoca (318.027 íbúar) er stærsta borgin, en aðrir stórir þéttbýliskjarnar eru Timisoara (317.651 íbúar), Brasov (283.901 íbúar), Oradea (206.527 íbúar), Arad (172.824 íbúar), Sibiu (155.045 íbúar), Targu Mures (149.577 íbúar), Baia Mare (137.976 íbúar) og Satu Mare (115.630 íbúar).

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]

Í Transylvaníu er að finna mikið af náttúrulegum jarðefnum, svo sem brúnkolum, járni, blýi, mangani, gulli, kopar, náttúrugasi, salti og brennisteini. Stáliðnaður, efnaiðnaður og vefnaðarframleiðsla eru áberandi, en landbúnaður; búfjárrækt, jarðrækt, vínframleiðsla og ávaxtarækt eru líka mikilvægar atvinnugreinar. Timbur er líka mikilvæg auðlind.

Transylvanía stendur undir 35% af vergri landsframleiðslu Rúmeníu og landsframleiðsla á mann er þar um 11.500 dollarar sem er 10% yfir landsmeðaltali.

Samkvæmt manntali frá 2002 búa 7.221.733 manns í Transylvaníu þar sem mikill meirihluti er Rúmenar að uppruna. Að auki búa þar stór þjóðarbrot af ungverskum uppruna (1.415.718 íbúar) og sígaunar auk fólks af þýskum uppruna.

Erdely á ungversku þýðir „handan skógar“, sem á latnesku er ultra silvam. Fyrst er minnst á Transylvaníu í latnesku skjali frá 1075 sem ultra silvam („handan skógar“) sem síðar breyttist í trans silvam sem þýðir það sama. Rúmenska heitið er bara aðlögun af ungverska (fyrst er minnst í skjali frá 1432). Þýska nafnið Siebenbürgen merkir Sjöborgaland eftir borgum Transylvaníusaxa í héraðinu.