Fara í innihald

Transylvanía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort af Rúmeníu. Transylvanía er lituð gul

Transylvanía (eða Sjöborgaland) (ungverska: Erdély; rúmenska: Transilvania eða Ardeal; þýska: Siebenbürgen eða Überwald (über Walt); latína Transsilvania eða Transsylvania; Saxneska Siweberjen; tyrkneska Erdelistan) er landsvæði í norðvestur- og miðhluta Rúmeníu, sem í gegnum tíðina hefur tilheyrt Ungverjalandi og verið hluti af veldi Habsborgara. Til 1711 var Transylvanía sjálfstætt furstadæmi.

Landafræði

[breyta | breyta frumkóða]

Svæðið sem í dag nefnist Transylvanía er rúmenskt hérað sem skiptist í sextán sýslur og nær yfir 103.600 km² svæði í mið- og norðvesturhluta Rúmeníu. Transylvanía er þannig meira en helmingur Rúmeníu. Sýslurnar eru Alba, Arad, Bihor, Bistrita-Nasaud, Brasov, Caras-Severin, Cluj, Covasna, Harghita, Hunedoara, Maramures, Mures, Salaj, Satu Mare, Sibiu og Timis.

Af Transylvaníuhásléttunni renna árnar Mures, Somes, Cris og Olt auk annarra þveráa Dónár. Cluj-Napoca er stærsta borgin, en aðrir stórir þéttbýliskjarnar eru Timisoara, Brasov, Oradea, Arad, Sibiu, Targu Mures, Baia Mare og Satu Mare.

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]

Í Transylvaníu er að finna mikið af náttúrulegum jarðefnum, svo sem brúnkolum, járni, blýi, mangani, gulli, kopar, náttúrugasi, salti og brennisteini. Stáliðnaður, efnaiðnaður og vefnaðarframleiðsla eru áberandi, en landbúnaður; búfjárrækt, jarðrækt, vínframleiðsla og ávaxtarækt eru líka mikilvægar atvinnugreinar. Timbur er líka mikilvæg auðlind.

Transylvanía stendur undir 35% af vergri landsframleiðslu Rúmeníu og landsframleiðsla á mann er þar um 11.500 dollarar sem er 10% yfir landsmeðaltali.

Samkvæmt manntali frá 2023 búa um 6,5 milljón í Transylvaníu þar sem mikill meirihluti er Rúmenar að uppruna. Að auki býr þar stórt þjóðarbrot af ungverskum uppruna (18%) og sígaunar auk fólks af þýskum uppruna.

Erdely á ungversku þýðir „handan skógar“, sem á latnesku er ultra silvam. Fyrst er minnst á Transylvaníu í latnesku skjali frá 1075 sem ultra silvam („handan skógar“) sem síðar breyttist í trans silvam sem þýðir það sama. Rúmenska heitið er bara aðlögun af ungverska (fyrst er minnst í skjali frá 1432). Þýska nafnið Siebenbürgen merkir Sjöborgaland eftir borgum Transylvaníusaxa í héraðinu.