Erkibiskup

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Erkibiskup (úr grísku orðunum αρχή, arkhe, „uppspretta“, „uppruni“ eða „vald“, og επισκοπος, episkopos, „eftirlitsmaður“, „formaður“) er embættistitill í kaþólsku kirkjunni, biskupakirkjunni og nokkrum mótmælendakirkjum.

Kaþólska kirkjan[breyta | breyta frumkóða]

Í rómversk-kaþólsku kirkjunni er erkibiskup fremstur biskupa í umdæmi sínu, Provincia ecclesiastica, en undirmaður kardínála og páfa.

Erkibiskupsembættið var stofnað á fyrsta kirkjuþinginu í Nicaea árið 325. Ástæðan var að sóknir voru orðnar margar og ýmis biskupsdæmi orðin mjög stór. Voru erkibiskuparnir upphaflega biskupar í höfuðborgum héraða í Rómaveldi. Erkibiskupinn er primus inter pares (fremstur meðal jafninga) og hefur ekki lögsögu né formlegt vald yfir hinum biskupunum. Á miðöldum höfðu erkibiskuparnir þó í raun mikil völd. Í rétttrúnaðarkirkjunum er samsvarandi titill metrópólít.

Biskupakirkjan[breyta | breyta frumkóða]

Yfir hverri sjálfstæðri kirkju í Heimssambandi biskupakirkna er erkibiskup og í mörgum þeirra stærri fleiri en einn. Hlutverk þeirra og valdsvið er öllu meira en í kaþólskum sið. Erkibiskupinn í Kantaraborg (Canterbury) í Englandi er æðsti yfirmaður biskupakirkjunnar á heimsvísu.

Lútherskar kirkjur[breyta | breyta frumkóða]

Við siðaskiptin var embætti erkibiskups lagt niður í flestöllum mótmælendasöfnuðum. Sænska þjóðkirkjan hélt þó áfram að nefna æðsta yfirmann kirkjunnar erkibiskup og þegar sjálfstæð evangelísk-lúthersk kirkja var stofnuð í Finnlandi 1809 var yfirmaður hennar einnig nefndur erkibiskup. Sama gildir um evangelísk-lúthersku kirkjurnar í Eistlandi og Lettlandi. Í öllum þessum kirkjum er erkibiskup talsmaður og leiðtogi inn á við og út á við og vígir meðal annars nýja biskupa.

Norðurlönd fyrir siðaskipti[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta erkibiskupsdæmið á Norðurlöndum var stofnað 1104 í Lundi (sem þá var í Danmörku) og náði það yfir öll Norðurlönd. Árið 1153 var stofnað erkibiskupsdæmi i Niðarósi sem náði yfir Noreg, Ísland, Grænland, Færeyjar, Mön, Hjaltland og Orkneyjar. Árið 1164 var stofnað erkibiskupsdæmi í Uppsölum sem náði yfir þáverandi Svíþjóð (sem náði þá að mestu yfir núverandi Finnland en ekki Skán). Fyrir 1104 tilheyrðu Norðurlönd erkibiskupsdæminu í Hamborg-Bremen.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Aðalheimild: Enzyklopädie der Religionen, Verlag GmbH, Karlsfeld beim München, 2005