Lê Đức Thọ

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Le Duc Tho)
Lê Đức Thọ
Formaður skipulagsnefndar Kommúnistaflokks Víetnams
Í embætti
1976–1980
Í embætti
1956–1973
Persónulegar upplýsingar
Fæddur14. október 1911
Nam Định, franska Indókína
Látinn13. október 1990 (78 ára) Hanoí, Víetnam
ÞjóðerniVíetnamskur
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Víetnams

Lê Đức Thọ (14. október 1911 – 13. október 1990), fæddur undir nafninu Phan Đình Khải, var víetnamskur byltingarmaður, hershöfðingi, ríkiserindreki og stjórnmálamaður.[1] Hann var sæmdur friðarverðlaunum Nóbels árið 1973 ásamt Henry Kissinger en neitaði að taka við verðlaununum.

Lê Đức Thọ tók þátt í stofnun indókínverska kommúnistaflokksins árið 1930. Frönsk nýlenduyfirvöld fangelsuðu hann frá 1930 til 1936 og aftur frá 1939 til 1944. Eftir að honum var sleppt árið 1945 hjálpaði hann við að stýra baráttu víetnömsku sjálfstæðishreyfingarinnar Viet-Minh gegn Frökkum þar til friðarsáttmálar voru undirritaðir í Genf árið 1954. Árið 1948 var Lê Đức Thọ í Suður-Víetnam sem leiðtogi skipulagsdeildar kommúnistaflokks Kotsjinkína. Hann gekk til liðs við miðstjórn víetnamska Verkamannaflokksins, sem síðar varð Kommúnistaflokkur Víetnams, árið 1955. Thọ stýrði uppreisn Víet-Kong gegn ríkisstjórn Suður-Víetnams frá árinu 1956 og studdi árið 1963 flokkshreinsanir innan Kommúnistaflokksins.[2]

Frá 1978 til 1982 var Lê Đức Thọ útnefndur sem helsti ráðgjafi kambódísku andófshreyfingarinnar FUNSK og síðar hins nýja Alþýðulýðveldis Kampútseu. Helsta markmið Lê Đức Thọ var að sjá til þess að þjóðernishyggja Kmera yrði hagsmunum Víetnama ekki yfirsterkari í stjórn Kambódíu eftir að Rauðu kmerunum var steypt af stóli.[3]

Lê Đức Thọ var fastameðlimur í ritararáði miðstjórnar Kommúnistaflokksins frá 1982 til 1986 og varð síðar ráðgjafi miðstjórnar flokksins.

Friðarsáttmálinn í París[breyta | breyta frumkóða]

Bandaríkin hófu virka þátttöku í Víetnamstríðinu snemma á sjöunda áratugnum. Friðarviðræður voru haldnar, bæði leynilega og opinberlega, í nokkrum lotum frá 1969 til 1973. Opinberlega fór Xuân Thuỷ fyrir samninganefnd Norður-Víetnama en Thọ og bandaríski þjóðaröryggisráðgjafinn Henry Kissinger áttu frá febrúar 1970 í leynilegum samningaviðræðum sem leiddu til þess að samið var um vopnahlé með Parísarsáttmálanum þann 23. janúar 1973. Friðarsáttmálinn fól í sér að stríðsföngum yrði sleppt innan 80 daga, að sérstök alþjóðanefnd hefði eftirlit með vopnahlénu, að frjálsar og lýðræðislegar kosningar yrðu haldnar í Suður-Víetnam, að Bandaríkjamenn héldu áfram hjálparstarfi í Suður-Víetnam og að norður-víetnamskir hermenn yrðu áfram staðsettir í Suður-Víetnam.

Lê Đức Thọ ásamt öðrum norður-víetnömskum hernaðarleiðtogum að skipuleggja lokaáhlaupið á Suður-Víetnam árið 1975.

Almennt er litið svo á að vopnahléð hafi tekið gildi þann 23. janúar en friðarviðræðurnar héldu áfram eins og nauðsynlegt var. Bandarískar hersveitir voru kallaðar heim þann 29. mars en sprengjuárásum var haldið áfram á Norður-Víetnam. Vegna ásakana beggja hliða um brot á vopnahlésskilmálunum hittust Kissinger og Thọ aftir í París í maí og júní árið 1973 til að koma sáttmálanum í framkvæmd. Þann 13. júní 1973 undirrituðu Bandaríkin og Norður-Víetnam yfirlýsingu þar sem bæði ríkin hétu fullum stuðningi við framkvæmd Parísarsáttmálans.

Friðarverðlaun Nóbels[breyta | breyta frumkóða]

Thọ og Henry Kissinger voru sæmdir friðarverðlaunum Nóbels árið 1973 fyrir störf þeirra í samningu friðarsáttmálans í París.[4] Thọ neitaði hins vegar að veita verðlaununum viðtöku með þeirri röksemd að friði hefði enn ekki verið náð og að hvorki Bandaríkin né Suður-Víetnam hefðu uppfyllt skilmála sáttmálans:

En síðan Parísarsamningurinn var undirritaður hafa Bandaríkin og stjórnin í Saígon haldið áfram að brjóta gegn ýmsum lykilákvæðum samkomulagsins. Stjórnin í Saígon hefur, með stuðningi og hvatningu Bandaríkjanna, haldið áfram stríðsrekstri sínum. Eiginlegum friði hefur í raun ekki verið náð í Suður-Víetnam. Undir þessum kringumstæðum get ég ómögulega þegið friðarverðlaun Nóbels fyrir árið 1973 sem nefndin hefur sæmt mig. Þegar Parísarsáttmálinn um Víetnam er virtur, vopnin hafa hljóðnað og raunverulegur friður ríkir í Suður-Víetnam get ég íhugað að veita verðlaununum viðtöku.[5]

Vopnahléð entist ekki til lengdar og Víetnamstríðinu lauk ekki fyrr en Saígon var hertekin árið 1975 og Norður-Víetnam innlimaði Suður-Víetnam.

Dauði[breyta | breyta frumkóða]

Lê Đức Thọ lést úr krabbameini í Hanoí þann 13. október árið 1990, kvöldið fyrir 79. afmælisdaginn sinn.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Bruce M. Lockhart, William J. Duiker Historical Dictionary of Vietnam 2006 entry p.202 Lê Đức Thọ
  2. Thu-Hương Nguyễn-Võ The Ironies of Freedom: Sex, Culture, and Neoliberal Governance in Vietnam Seattle : University of Washington Press, c2008. ISBN 0295988509 (pbk. : alk. paper). ISBN 978-0-295-98865-8. 2008– Page 73 "This resolution unleashed a terror campaign against the "revisionist antiparty clique." Lê Đức Thọ, head of the Party Central Organization Committee, announced to party cadres: "The theoretical front to counter contemporary revisionism we ..."
  3. Margaret Slocomb, The People's Republic of Kampuchea, 1979–1989: The revolution after Pol Pot ISBN 978-974-9575-34-5
  4. „The Nobel Peace Prize 1973“. Nobel Foundation. Sótt 31. desember 2006.
  5. Lewis, Flora (24. október 1973). „Tho Rejects Nobel Prize, Citing Vietnam Situation“. The New York Times. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. janúar 2011. Sótt 30. júní 2013.
  6. Lê Đức Thọ at www.biography.com Geymt 17 apríl 2019 í Wayback Machine Retrieved July 5, 2017.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]