Fara í innihald

Jón Þorláksson (stjórnmálamaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jón Þorláksson
Forsætisráðherra Íslands
Í embætti
8. júlí 1926 – 28. ágúst 1927
ÞjóðhöfðingiKristján 10.
ForveriMagnús Guðmundsson (starfandi)
EftirmaðurTryggvi Þórhallsson
Borgarstjóri Reykjavíkur
Í embætti
30. desember 1932 – 20. mars 1935
ForveriKnud Zimsen
EftirmaðurPétur Halldórsson
Alþingismaður
frá til  kjördæmi    þingflokkur
1921 1921  Reykjavík  Heimastjórnarflokkurinn
1921 1922  Reykjavík  Utanflokkabandalagið
1922 1923  Reykjavík  Sparnaðarbandalagið
1923 1924  Reykjavík  Borgaraflokkurinn
1924 1926  Reykjavík  Íhaldsflokkurinn
1926 1929  Landskjör  Íhaldsflokkurinn
1929 1934  Landskjör  Sjálfstæðisflokkurinn
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. mars 1877
Vesturhópshólum, Íslandi
Látinn20. mars 1935 (58 ára)
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn (1924–1929)
Sjálfstæðisflokkurinn (1929–1935)
MakiIngibjörg Claessen (g. 1904)
BörnAnna Margrét, Elín Kristín
ForeldrarÞorlákur Þorláksson og Margrét Jónsdóttir
HáskóliVerkfræðiháskólinn í Kaupmannahöfn
StarfVerkfræðingur, kaupmaður, stjórnmálamaður
Æviágrip á vef Alþingis

Jón Þorláksson (3. mars 187720. mars 1935) var landsverkfræðingur, kaupmaður í Reykjavík, seinni formaður Íhaldsflokksins, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, fjármálaráðherra, forsætisráðherra og borgarstjóri í Reykjavík.

Verkfræðingurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Jón Þorláksson fæddist á Vesturhópshólum í Vestur-Húnavatnssýslu, sonur Þorláks Þorlákssonar bónda þar og konu hans, Margrétar Jónsdóttur. Hann var í móðurætt skyldur Einari Benediktssyni og Sigurði Nordal, en systir Jóns var kvenréttindakonan Sigurbjörg Þorláksdóttir. Jón tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1897 með hæstu einkunn, sem þá hafði verið gefin, og verkfræðipróf frá Verkfræðiháskólanum í Kaupmannahöfn (Polytekniskt Læreanstalt, síðar Danmarks Tekniske Højskole) 1903. Jón gerðist landsverkfræðingur 1905 og mikill áhugamaður um verklegar framfarir. Setti hann ýmist sjálfur fram eða studdi af alefli hugmyndir um vatnsveitu, rafveitu og hitaveitu í Reykjavík og sá um vegarlagningu og brúarsmíði um land allt. Einnig beitti hann sér fyrir því, að steinsteypa væri notuð til húsagerðar. Jón var lengst af bæjarfulltrúi í Reykjavík á tímabilinu 1906-1922, skólastjóri Iðnskólans 1904-1911 og kaupmaður í Reykjavík frá 1917, er hann sagði embætti landsverkfræðings lausu.

Stjórnmálamaðurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Jón Þorláksson var einn nánasti og eindregnasti stuðningsmaður Hannesar Hafstein á heimastjórnarárunum (1904-1918). Hann settist á þing fyrir Reykvíkinga 1921. Varð í febrúar 1924 til undir forystu hans þingmannaflokkur, sem taldi brýnt að kippa fjármálum ríkisins í lag. Jón fékk því ráðið, að hann tók upp nafnið Íhaldsflokkurinn, enda taldi Jón brýnasta verkefnið þá eftir fjármálaóreiðu undangenginna ára að halda opinberum álögum og útgjöldum í skefjum. Jón reyndi þá að mynda stjórn, en tókst ekki, því að nokkrir þingmenn utan Íhaldsflokksins neituðu honum um stuðning. Flokksbróðir hans, Jón Magnússon, myndaði þá stjórn, en Jón Þorláksson varð fjármálaráðherra. Tók hann við forsætisráðherraembætti 1926, skömmu eftir skyndilegt fráfall Jóns Magnússonar, en sagði af sér eftir ósigur Íhaldsflokksins í þingkosningunum 1927. Jón varð leiðtogi stjórnarandstöðunnar, eftir að framsóknarmenn mynduðu stjórn 1927, og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins 1929. Hann varð borgarstjóri í Reykjavík 1933 og hóf þá undirbúning Sogsvirkjunar og hitaveitu og beitti sér fyrir smábátaútgerð einkaaðila. Af heilsufarsástæðum sagði Jón af sér formennsku í Sjálfstæðisflokknum 2. október 1934 og lést hálfu ári síðar.

Frjálshyggjumaðurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Skömmu eftir að Jón Þorláksson stofnaði Íhaldsflokkinn, skilgreindi hann stjórnmálastefnu sína í ritgerð í Eimreiðinni (1926). Hann skipti stjórnmálahugmyndum í íhaldssamar og umrótsgjarnar annars vegar og frjálslyndar og stjórnlyndar hins vegar. Stundum hlytu frjálslyndir menn að styðja miklar breytingar og væru þá um leið umrótsgjarnir, en stundum þyrftu þeir að halda í það, sem vel hefði reynst. Nú væri einmitt verkefnið að halda í frjálslyndar hugmyndir 19. aldar, sem sósíalistar ógnuðu. Þess vegna væru hann og aðrir fylgismenn Íhaldsflokksins í senn frjálslyndir og íhaldssamir. Ýmsir andstæðingar íhaldsmanna væru hins vegar stjórnlyndir umrótssinnar, og hafði Jón þá eflaust í huga Jónas Jónsson frá Hriflu og Ólaf Friðriksson, sem mæltu fyrir auknum ríkisafskiptum. Jón hélt erindi á landsfundi Íhaldsflokksins vorið 1929, sem hann kallaði „Milli fátæktar og bjargálna“. Þar sagði hann, að frjáls samkeppni væri ekki áflog, hrindingar eða ryskingar, heldur keppni manna að því að fullnægja þörfum annarra með því að leggja sjálfa sig sem best fram. Þannig tækist að beina mönnum, þegar þeir væru aðeins að vinna fyrir sjálfa sig, að því að vinna fyrir aðra. Setti Jón þar skýrt fram helstu rök frjálshyggjumanna eins og Adams Smiths fyrir frjálsum markaði.

Einstaklingurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Jón Þorláksson þótti þurr á manninn og ekki allra, en enginn efaðist um hvassar gáfur hans og heilsteypta lund. Hann var virtur fremur en vinsæll. Árni Pálsson prófessor, bekkjabróðir hans og vinur, komst svo að orði, að Jón Þorláksson hefði allra lifandi manna mest vit á dauðum hlutum. Jón gat þó verið orðheppinn og afgreitt flókin mál á einfaldan hátt í stuttum setningum. Frægt er til dæmis, þegar hann skar úr deilum manna um, hvenær bylting gæti talist lögleg, með orðunum: „Bylting er lögleg, þegar hún lukkast.“ Jón var með afbrigðum samviskusamur, eins og sást best á því, að hann gerði mikla rannsókn á peningamálasögu Íslands, skömmu eftir að hann tók að sér stöðu fjármálaráðherra vorið 1924, og gaf út bók um efnið, Lággengið, og er hún annað íslenska hagfræðiritið. Jón var kvæntur Ingibjörgu Claessen, og áttu þau hjón tvær kjördætur, Önnu og Elínu. Gunnar Thoroddsen var systursonur Ingibjargar og handgenginn Jóni, sem hafði líka miklar mætur á þeim Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni, sem báðir áttu eftir að verða formenn Sjálfstæðísflokksins eins og hann. Með valdatöku Davíðs Oddssonar, sem varð formaður Sjálfstæðisflokksins 1991 og forsætisráðherra, má segja, að horfið hafi verið aftur til þeirra hugmynda, sem Jón Þorláksson setti fram, en höfðu látið undan síga, ekki síst í Heimskreppunni og Heimsstyrjöldinni seinni.

Tilvitnanir

[breyta | breyta frumkóða]
  • „Verklegar framfarir lands og lýðs voru efni og uppistaða allra ættjarðarhugsjóna minna á þessum árum.“ („Frá fyrstu stjórnarárum Hannesar Hafsteins,“ Óðinn 1923.)
  • „Hugsjónir Íhaldsflokksins um þjóðskipulagið eru í öllum verulegum atriðum hinar sömu og hugsjónir þeirrar frjálslyndu stefnu, sem hann er beint framhald af. Aðalhugsjónin er sú, að þjóðfélagið verði samsafn sem flestra sjálfstæðra og frjálsra einstaklinga, sem hver fyrir sig geti haft sem óbundnastar hendur til þess að efla farsæld síns heimilis og þar með alls þjóðfélagsins öðrum að skaðlausu. („Íhaldsstefnan,“ Eimreiðin 1926.)
  • „Tilgangi efnahagsstarfseminnar, að sjá fyrir fullnægingu mannlegra gæða, verður ekki eins vel fullnægt með neinu öðru móti og því, að sjálfsbjargarhvötin fái óhindruð að knýja hvern einn til að vinna sem best fyrir aðra.“ („Milli fátæktar og bjargálna,“ erindi á landsfundi Íhaldsflokksins 1929.)

Helstu heimildir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Jón Þorláksson: Ræður og ritgerðir. Reykjavík 1985.
  • Hannes H. Gissurarson: Jón Þorláksson forsætisráðherra. Reykjavík 1992.


Fyrirrennari:
Knud Zimsen
Borgarstjóri Reykjavíkur
(30. desember 193220. mars 1935)
Eftirmaður:
Pétur Halldórsson
Fyrirrennari:
Jón Magnússon / Magnús Guðmundsson starfandi
Forsætisráðherra
(8. júlí 192628. ágúst 1927)
Eftirmaður:
Tryggvi Þórhallsson
Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Formaður Sjálfstæðisflokksins
(29. maí 19292. október 1934)
Eftirmaður:
Ólafur Thors