Sigurbjörg Þorláksdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigurbjörg Þorláksdóttir (fædd 5. september 1870, dáin 26. desember 1931) var kennari og ritstjóri sem lét til sín taka á vegum ýmissa samtaka íslenskra kvenna.

Æska og menntun[breyta | breyta frumkóða]

Sigurbjörg fæddist að Undirfelli í Vatnsdal. Hún stundaði kennaranám í Flensborgarskóla og sótti framhaldsmenntun í kennarafræðum erlendis. Að námi loknu réðst hún til starfa í Barnaskóla Reykjavíkur þar sem hún kenndi til æviloka. [1]

Félagsstörf og stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Sigurbjörg var mikil félagsmálakona og lét til sín taka á borgarafundum í Reykjavík. Hún var virkur þátttakandi í flestum helstu samtökum kvenna, svo sem Kvenréttindafélagsins og sat í fyrstu stjórn Lestrarfélags kvenna, sem stuðlaði með ýmsum hætti að menntun og menningu.[2]

Árið 1912 gekk Sigurbjörg til liðs við Hvítabandið og var þá þegar kjörin varaformaður þess. Átti hún eftir að gegna þeirri stöðu alla tíð. Á þeim vettvangi tók hún virkan þátt í baráttunni fyrir byggingu Landspítalans og safnaði fyrir Landspítalasjóðinn. Jafnframt varð hún aðalhvatkona þess að Hvítabandið reisti sitt eigið sjúkrahús í Reykjavík. Hún var óþreytandi til að benda á þörfina á stofnun slíkrar stofnunar. Framkvæmdir við sjúkrahúsið við Skólavörðustíg hófust nokkru áður en Sigurbjörg lést eftir langvarandi veikindi en það var tekið í notkun á árinu 1934.

Sigurbjörg var systir Jóns Þorlákssonar formanns Íhaldsflokksins og stóð hún nærri honum í skoðunum. Hún var á framboðslista flokksins í Reykjavík í Alþingiskosningunum 1927 en náði ekki kjöri. Sumarið 1928 varð hún ásamt Mörtu Einarsdóttur ritstjóri Brautarinnar, fyrsta vikublaðs íslenskra kvenna.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]


  1. Hvíta Bandið 50 ára 1895-1945, „Sigurbjörg Þorláksdóttir“
  2. https://timarit.is/page/4996321?iabr=on, Melkorka 2-3 tbl. 1962.