Sigurbjörg Þorláksdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Sigurbjörg Þorláksdóttir (fædd 5. september 1870, dáin 26. desember 1931) var kennari og ritstjóri sem lét til sín taka á vegum ýmissa samtaka íslenskra kvenna.

Æska og menntun[breyta | breyta frumkóða]

Sigurbjörg fæddist að Undirfelli í Vatnsdal. Hún stundaði kennaranám í Flensborgarskóla og sótti framhaldsmenntun í kennarafræðum erlendis. Að námi loknu réðst hún til starfa í Barnaskóla Reykjavíkur þar sem hún kenndi til æviloka. [1]

Félagsstörf og stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Sigurbjörg var mikil félagsmálakona og lét til sín taka á borgarafundum í Reykjavík. Hún var virkur þátttakandi í flestum helstu samtökum kvenna, svo sem Kvenréttindafélagsins og sat í fyrstu stjórn Lestrarfélags kvenna, sem stuðlaði með ýmsum hætti að menntun og menningu.[2]

Árið 1912 gekk Sigurbjörg til liðs við Hvítabandið og var þá þegar kjörin varaformaður þess. Átti hún eftir að gegna þeirri stöðu alla tíð. Á þeim vettvangi tók hún virkan þátt í baráttunni fyrir byggingu Landspítalans og safnaði fyrir Landspítalasjóðinn. Jafnframt varð hún aðalhvatkona þess að Hvítabandið reisti sitt eigið sjúkrahús í Reykjavík. Hún var óþreytandi til að benda á þörfina á stofnun slíkrar stofnunar. Framkvæmdir við sjúkrahúsið við Skólavörðustíg hófust nokkru áður en Sigurbjörg lést eftir langvarandi veikindi en það var tekið í notkun á árinu 1934.

Sigurbjörg var systir Jóns Þorlákssonar formanns Íhaldsflokksins og stóð hún nærri honum í skoðunum. Hún var á framboðslista flokksins í Reykjavík í Alþingiskosningunum 1927 en náði ekki kjöri. Sumarið 1928 varð hún ásamt Mörtu Einarsdóttur ritstjóri Brautarinnar, fyrsta vikublaðs íslenskra kvenna.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]


  1. Hvíta Bandið 50 ára 1895-1945, „Sigurbjörg Þorláksdóttir“
  2. https://timarit.is/page/4996321?iabr=on, Melkorka 2-3 tbl. 1962.