Sparnaðarbandalagið
Sparnaðarbandalagið var íslenskur stjórnmálaflokkur sem starfaði á Alþingi frá 1922 til 1923. Eins og nafnið gefur til kynna aðhylltist flokkurinn aðhaldssemi í ríkisfjármálum og var áfangi á þeirri leið að mynda sameiginlegan flokk borgaralegra hægriafla í stjórnmálum.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Eiginleg flokkastjórnmál voru skammt á veg komin í þingkosningum á öðrum áratug tuttugustu aldar. Þingmenn voru langflestir kosnir í einmenningskjördæmum og buðu fram í eigin nafni. Flokkar mynduðust svo á þinginu eftir að það kom saman.
Eftir Alþingiskosningarnar 1919 var myndað á þinginu svokallað Utanflokkabandalag og starfaði það frá 1920 til 1921. Sparnaðarbandalagið var myndað á árinu 1922 og leysti Utanflokkabandalagið af hólmi. Í því voru einkum þingmenn sem áður höfðu starfað í Heimastjórnarflokki en einnig úr Sjálfstæðisflokknum og fleiri flokkum.
Sparnaðarbandalagið var stærsti þingflokkurinn 1922 og veitti ríkisstjórn Sigurðar Eggerz sem studd var af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki harða stjórnarandstöðu. Forystumenn Sparnaðarbandalagsins, þeir Jón Magnússon og Jón Þorláksson töldu stjórnina alltof eyðslusama og vildu draga verulega úr ríkisútgjöldum og opinberum umsvifum. Þeir höfðu jafnframt áhyggjur af uppgangi stéttastjórnmála, þar sem Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkur voru komnir til sögunnar. Aðalmálgagn flokksins var Morgunblaðið og var hann því oft nefndur Morgunblaðsliðið af pólitískum andstæðingum sínum.
Jón Magnússon leiddi framboðslista í landskjöri árið 1922 sem studdur var af Sparnaðarbandalaginu en er oft kenndur við Heimastjórnarflokkinn, sem þá hafði í raun lognast út af. Fyrir Alþingiskosningarnar 1923 stóð Sparnaðarbandalagið að framboði Borgaraflokksins sem var kosningabandalag hægrimanna.
Tilvísanir og heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Einar Laxness (1998, 2.útg.). Íslandssaga a-ö. Vaka-Helgafell. ISBN 9979-2-0295-5.