Fara í innihald

Harry S. Truman

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Harry S Truman)
Harry S. Truman
Forseti Bandaríkjanna
Í embætti
12. apríl 1945 – 20. janúar 1953
VaraforsetiEnginn (1945–1949)
Alben W. Barkley (1949–1953)
ForveriFranklin D. Roosevelt
EftirmaðurDwight D. Eisenhower
Varaforseti Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 1945 – 12. apríl 1945
ForsetiFranklin D. Roosevelt
ForveriHenry A. Wallace
EftirmaðurAlben W. Barkley
Öldungadeildarþingmaður fyrir Missouri
Í embætti
3. janúar 1935 – 17. janúar 1945
ForveriRoscoe C. Patterson
EftirmaðurFrank P. Briggs
Persónulegar upplýsingar
Fæddur8. maí 1884
Lamar, Missouri, Bandaríkjunum
Látinn26. desember 1972 (88 ára) Kansas City, Missouri, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiBess Wallace ​(g. 1919)
BörnMargaret
HáskóliSpalding's Commercial College
UMKC School of Law (lauk ekki námi)
StarfKaupmaður, stjórnmálamaður
Undirskrift

Harry S. Truman (8. maí 188426. desember 1972) var 33. forseti Bandaríkjanna og gegndi embætti frá 1945 til 1953. Truman tók við af Franklin D. Roosevelt eftir andlát hans. Truman tók við stjórnartaumunum á mjög viðkvæmum tímapunkti, undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann er þekktur fyrir að koma Marshalláætluninni af stað til þess að endurbyggja efnahag Vestur-Evrópu. Efnahagur Bandaríkjanna var sá öflugasti í heimi en efnahagir annarra heimsvelda voru í lamasessi eftir hildarleik stríðsátaka. Truman varð kunnur fyrir Truman-kennisetninguna í utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem hann setti fyrst fram í ræðu 12. mars 1947 en hún mælti fyrir um að Bandaríkin myndu beita sér fyrir því að takmarka útbreiðslu kommúnisma með ráðum og dáðum. Þessi tímapunktur er af sumum talinn marka upphaf kalda stríðsins. Í samræmi við kennisetninguna samþykkti Bandaríkjaþing að styrkja Grikkland og Tyrkland bæði efnahagslega og með hergögnum í þeirri von að kommúnistar kæmust ekki til valda. Þeim varð að ósk sinni þar eð bæði Grikkir og Tyrkir gerðust aðilar að Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO) árið 1952. NATO var einmitt stofnað í apríl 1949 og voru Bandaríkin og Ísland á meðal stofnaðila.

Harry S. Truman fæddist í bænum Lamar í Missouri. Foreldrar hans höfðu verið stuðningsmenn Suðurríkjasambandsins í þrælastríðinu og studdu því Demókrataflokkinn, sem dró á þessum tíma einkum taum hvítra Bandaríkjamanna í suðurríkjunum. Faðir Trumans var fátækur bóndi og hrossasali og Truman tók að sér ýmis störf til að vera fjölskyldu sinni innan handar, meðal annars sem tímavörður við járnbrautina í Santa Fe og skrifstofumaður í banka í Kansas City.[1]

Á unga aldri hafði Truman hug á að ganga í hernaðarskólann West Point en léleg sjón hans olli því að hann gat ekki hafið nám þar. Truman gekk þess í stað í þjóðvarðlið Missouri og gegndi herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni, þar sem náði stöðu stórskotaliðsforingja og tók þátt í mörgum bardögum. Eftir styrjöldina kvæntist Truman Bess Wallace, dóttur auðugs nágranna fjölskyldu hans frá Independence í Missouri. Truman rak í nokkur ár saumavörufyrirtæki ásamt félaga sínum úr stríðinu, Jim Pendergast, en reksturinn lognaðist út af árið 1922 og Truman stóð eftir stórskuldugur. Truman tókst að greiða allar skuldir sínar en var áfram fjárhagslega bágstaddur.[1]

Frændi Jims, Tom Pendergast, var áhrifamaður í Demókrataflokknum í Missouri og eftir að rekstur fyrirtækisins misheppnaðist kom hann Truman til hjálpar og sá til þess að hann yrði kjörinn dómari í Jackson County. Truman hafði enga lögfræðilega þekkingu en þar sem störf sveitadómara fólust aðallega í eftirliti með opinberum framkvæmdum þótti hann engu að síður standa sig vel í starfinu. Truman gegndi dómaraembættinu í tvö ár og komst á þeim tíma til metorða innan flokksklíku Pendergasts í Missouri. Árið 1925 tapaði Truman hins vegar endurkjöri í embættið.[1]

Ferill á öldungadeild Bandaríkjaþings

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1934 náði Truman, með stuðningi Pendergasts, útnefningu Demókrata fyrir kosningar á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Missouri. Hann vann síðan öruggan sigur í þingkosningunni með um 265.000 atkvæða forskot á keppinaut sinn og tók sæti á öldungadeildinni í janúar 1935. Á fyrsta kjörtímabili sínu þótti Truman ekki aðsópsmikill þingmaður en hann studdi bæði efnahagsstefnu Franklins D. Roosevelt Bandaríkjaforseta og hagsmuni flokksklíku Pendergasts. Vinátta Trumans við Pendergast olli honum erfiðleikum á stjórnmálaferli hans þar sem Pendergast var viðriðinn spillingarmál og var árið 1939 varpað í fangelsi fyrir skattsvik. Truman hélt engu að síður tryggð við velgjörðamann sinn allt þar til Pendergast lést í janúar 1945.[1]

Truman var endurkjörinn á öldungadeildina með naumindum árið 1940. Þegar Truman hóf annað kjörtímabil sitt þótti ljóst að Bandaríkjamenn myndu brátt hefja þátttöku í seinni heimsstyrjöldinni og hugur margra landsmanna var við stríðsundirbúning ríkisins. Á árunum 1941 til 1944 varð Truman formaður sérstakrar þingnefndar sem falið var að rannsaka meðferð varnarmálaráðuneytisins á fjármunum og búnaði á stríðstímanum. Sem formaður Truman-nefndarinnar svokölluðu tókst honum að semja um skilvirkari nýtingu fjármagns til hernaðarmála og spara ríkinu þannig veruleg útgjöld án þess að það bitnaði á stríðsrekstrinum. Truman varð þjóðkunnur með frammistöðu sinni í formennsku nefndarinnar.[2]

Þegar ljóst varð árið 1944 að Franklin D. Roosevelt hygðist bjóða sig fram til fjórða kjörtímabils í forsetaembætti var Truman fljótt nefndur meðal hugsanlegra varaforsetaefna í framboði hans. Alkunna var að Roosevelt var heilsuveill og margir treystu ekki sitjandi varaforsetanum Henry A. Wallace til að leiða þjóðina á lokaköflum styrjaldarinnar ef til þess kæmi að forsetinn létist í embætti þar sem Wallace þótti óþarflega hallur undir Sovétríkin.[2] Truman studdi í fyrstu tilraunir til að útnefna Sam Rayburn eða James F. Byrnes sem varaforsetaefni Demókrata en þar sem áhrifamenn flokksins komust ekki að samkomulagi um útnefningu þeirra varð Truman sjálfur að endingu fyrir valinu, enda gátu allir armar flokksins sætt sig við hann.[1]

Roosvelt var endurkjörinn forseti Bandaríkjanna í kosningum árið 1944 og var Truman þá kjörinn varaforseti í framboði hans. Truman tók við embætti varaforseta í janúar 1945 en gegndi því aðeins í tæpa fjóra mánuði því þann 12. apríl lést Roosevelt og Truman tók því við sem forseti landsins.[3] Það kom því í hlut Trumans að leiða Bandaríkin á síðustu mánuðum seinni heimsstyrjaldarinnar.[1]

Forseti Bandaríkjanna (1945–1953)

[breyta | breyta frumkóða]
Truman með Winston Churchill og Jósef Stalín í hallargarði Cecilienhof-kastala á Potsdamráðstefnunni árið 1945.

Truman hafði aldrei verið í innsta hring Roosevelts, jafnvel ekki á meðan hann var varaforseti í stjórn hans. Hann var því illa undirbúinn til þess að gerast forseti Bandaríkjanna með svo skyndilegum hætti. Honum hafði verið leyft að fylgjast með samningum sem gerðir voru á Jaltaráðstefnunni um lok styrjaldarinnar í Evrópu en honum var alls ókunnugt um Manhattan-verkefnið og þróun kjarnorkusprengjunnar á stjórnartíð Roosevelts. Eftir embættistöku sína tilkynnti Truman að öllum ráðherrum úr stjórn Roosevelts yrði boðið að halda stöðu sinni og að stofnþing Sameinuðu þjóðanna yrði haldið samkvæmt áætlun í San Francisco.[1] Truman var kunngert um kjarnorkusprengjuna um tveimur vikum eftir að hann varð forseti og Henry L. Stimson varnarmálaráðherra lagði þá áherslu á að fyrri stjórn hefði þegar tekið ákvörðun um að beita henni við lok styrjaldarinnar.[4]

Þjóðverjar gáfust skilyrðislaust upp fyrir bandamönnum þann 7. maí og í júlí hélt Truman til fundar við Jósef Stalín, Winston Churchill og Clement Attlee á Potsdamráðstefnunni á hernámssvæðinu í Þýskalandi. Á meðan á ráðstefnunni stóð veitti Truman samþykki sitt í símskeyti fyrir því að kjarnorkuvopnum yrði beitt gegn Japönum til að binda enda á styrjöldina í Asíu. Þann 9. og 14. ágúst var kjarnorkusprengjum varpað á borgirnar Hírósíma og Nagasaki og Japanir féllust á skilyrðislausa uppgjöf þann 14. ágúst.[4]

Árið 1946 studdi Truman þingsályktunartillögu Briens McMahon þess efnis að stofnuð skyldi borgaraleg kjarnorkustofnun sem hefði vald yfir kjarnorkuvopnum og kjarnorku í hernaðar- og efnahagsskyni. Truman beitti sér síðar gegn þingsályktunartillögu sem átti að fela Bandaríkjaher yfirumsjón með kjarnorkuáætlun landsins og var sú tillaga að endingu felld.[5]

Repúblikanaflokkurinn náði meirihlutum á báðum deildum Bandaríkjaþings í miðkjörtímabilskosningum ársins 1946 og Truman naut því lítils þingstuðnings fyrir stefnumálum sínum. Andstaða gegn ríkisafskiptum hafði aukist á stríðsárunum og því kynntu Repúblikanar til sögunnar svokölluð Taft–Hartley-lög sem andsvar gegn frjálslyndum stefnumálum Roosevelt-stjórnarinnar. Lögin skertu verulega áhrif verkalýðshreyfinga og heimiluðu forsetanum að banna verkföll sem gengju gegn þjóðarhagsmunum í 60 daga. Truman beitti neitunarvaldi forsetans gegn lagasetningunni en þar sem tveir þriðju hlutar þingsins samþykktu að hnekkja synjun forsetans tóku lögin engu að síður gildi.[1]

Truman var með frægt skilti með letrinu „The Buck Stops Here“ á skrifborði sínu. Með því var átt við að hér yrði ábyrgðin öxluð.
Sigurreifur Truman heldur á eintaki The Chicago Tribune með ósönnu fyrirsögninni „Dewey sigrar Truman“ á forsíðunni. Sigur Trumans gegn Dewey í forsetakosningunum 1948 er talin ein óvæntasta kosninganiðurstaða í sögu Bandaríkjanna.

Ári eftir kosningaósigurinn 1946 kynnti Truman til sögunnar áætlanir Bandaríkjanna um aðstoð við erlend ríki. Annar hluti áætlunarinnar kallaðist Truman-kenningin, sem gekk út á að Bandaríkin yrðu að koma í veg fyrir að kommúnismi breiddist til Tyrklands og Grikklands. Hinn hlutinn kallaðist Marshallaðstoðin, í höfuðið á George Marshall utanríkisráðherra, og fólst í fjárframlögum til Evrópuríkja til að stuðla að enduruppbyggingu Evrópu eftir eyðileggingu styrjaldarinnar. Með þessum aðgerðum Bandaríkjastjórnar þótti felast viðurkenning á að Bandaríkin ættu nú í „köldu stríði“ við Sovétríkin, sem voru farin að seilast til áhrifa víðs vegar um Evrópu.[4]

Truman var vinveittur mannréttindabaráttu bandarískra blökkumanna og hlynntur afléttingu á kynþáttaaðskilnaði í suðurríkjum Bandaríkjanna. Sem forseti lét Truman nema úr gildi lög um kosningaskatta og önnur lög sem skertu atvinnu- og stjórnmálaréttindi blökkumanna. Stuðningur hans við réttindi blökkumanna reitti íhaldsvæng Demókrata í suðurríkjunum, svokallaða Dixie-krata, verulega til reiði og olli því að dixiekratar með Strom Thurmond í broddi fylkingar klufu sig úr Demókrataflokknum og buðu Thurmond sjálfstætt fram í forsetakosningum ársins 1948 til þess að tryggja ósigur Trumans.[1]

Helsti andstæðingur Trumans í forsetakosningunum 1948 var Thomas E. Dewey, fylkisstjóri New York úr Repúblikanaflokknum. Vegna klofnings meðal Demókrata, spennu í utanríkismálum og persónulegra óvinsælda Trumans var almennt búist við því að Truman myndi tapa endurkjöri og að Dewey yrði næsti forseti Bandaríkjanna. Vegna sigurvissu sinnar rak Dewey máttlitla kosningabaráttu þar sem aðaláherslan var einfaldlega lögð á að koma Demókrötum frá völdum. Truman fór aftur á móti í langt kosningaferðalag um öll Bandaríkin þar sem forsetinn flutti fjölda kosningaræða fyrir þúsundum kjósenda og gagnrýndi Repúblikana fyrir aðgerðaleysi og einangrunarhyggju. Þar sem skoðanakannanir og almenningsálit bentu eindregið til ósigurs Trumans kom það öllum í opna skjöldu í kosningunum þann 2. nóvember 1948 þegar Truman vann endurkjör með um tveggja milljóna atkvæða forskoti á Dewey. Í aðdraganda kosninganna höfðu sigurlíkur Trumans verið taldar svo litlar að dagblaðið The Chicago Tribune var þegar búið að prenta útgáfu með forsíðufyrirsögninni „Dewey sigrar Truman“ (e. Dewey Defeats Truman) áður en lokatölurnar lágu fyrir.[6] Sigur Trumans var einn óvæntasti kosningasigur bandarískrar stjórnmálasögu og ranga forsíðufyrirsögnin (sem komst í hendur Trumans við mikla kátínu hans) er talin táknræn fyrir skeikulleika skoðanakannana.

Kóreustríðið

[breyta | breyta frumkóða]

Á seinna kjörtímabili Trumans hófst Kóreustríðið þegar kommúnísk stjórn Norður-Kóreu réðst inn í Suður-Kóreu þann 25. júní 1950. Almenningur í Bandaríkjunum var þegar uggandi yfir útbreiðslu kommúnisma þar sem kommúnistar höfðu nýlega rænt völdum í Tékkóslóvakíu, Sovétmenn höfðu einangrað Berlín og her þjóðernissinna hafði tapað gegn kommúnistum í kínversku borgarastyrjöldinni. Truman var fljótur að senda bandaríska hermenn til Kóreu til að sporna við framrás kommúnista til suðurs með samþykki Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Í Kóreustríðinu lenti Truman í ágreiningi við herforingjann Douglas MacArthur, sem stýrði aðgerðum Bandaríkjahers á Kóreuskaga. MacArthur talaði máli Repúblikana, sem vildu reka stríðið af meiri hörku og gáfu skyn að stjórn Trumans hefði sofnað á verðinum með því að leyfa kommúnistum að komast til valda í Kína. Eftir að kommúnistastjórn Kína greip inn í styrjöldina vildi MacArthur þiggja hernaðaraðstoð kínverskra þjóðernissinna og gera kjarnorkuárásir á vígi kínverskra kommúnista meðfram landamærum Mansjúríu.[7] Truman óttaðist að með slíkum aðgerðum myndi ný heimsstyrjöld brjótast út og því heimilaði hann þær ekki. Þegar MacArthur fór að gagnrýna Truman opinberlega endaði Truman á því að reka MacArthur fyrir óhlýðni og fyrir að sýna forsetaembættinu vanvirðingu.[4] Brottrekstur MacArthurs varð Truman til mikilla óvinsælda á sínum tíma en ákvörðunin hefur í seinni tíð verið hærra skrifuð og jafnvel talið að Truman hafi komið í veg fyrir að Kórustríðið hryndi af stað þriðju heimsstyrjöldinni.

Að lokinni forsetatíð

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1951 samþykkti Bandaríkjaþing viðauka við stjórnarskrána sem meinaði forsetanum að sitja lengur í embætti en tvö kjörtímabil. Þessi stjórnarskrárbreyting náði þó ekki til sitjandi forseta og því hefði Truman getað boðið sig fram til þriðja kjörtímabils í kosningunum 1952.[3] Truman ákvað hins vegar að bjóða sig ekki fram aftur og studdi þess í stað Adlai Stevenson sem frambjóðanda Demókrataflokksins.[8]

Eftir að forsetatíð Trumans lauk flutti hann ásamt konu sinni til æskuslóða þeirra í Independence í Missouri. Truman lét lítið fyrir sér fara á eftirlaunaárum sínum en vann að ritstörfum og tjáði sig stundum um málefni líðandi stjórnar í blaðagreinum.[8]

Truman var einkar óvinsæll forseti þegar hann lét af embætti og var á þeim tíma gjarnan talinn með verstu forsetum Bandaríkjanna. Orðstír hans hefur batnað verulega í seinni tíð og nú telja margir fræðimenn hann gjarnan með bestu forsetum landsins vegna heiðarleika hans, staðfastrar en varkárrar utanríkisstefnu og stuðnings hans við réttindi bandarískra blökkumanna.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 1,8 „Truman var skeleggur og hugrakkur forseti“. Morgunblaðið. 28. desember 1972. bls. 14-15.
  2. 2,0 2,1 Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Hafnarfjörður: Urður bókafélag. bls. 309. ISBN 978-9935-9194-5-8.
  3. 3,0 3,1 Dagur Þorleifsson (1. mars 1973). „Hálsbindasalinn sem varð heimsskelfir“. Vikan. bls. 8-10; 47-49.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 „Harry Truman: Óundirbúinn forseti“. Dagblaðið Vísir. 30. mars 1985. bls. 56-57.
  5. Valur Ingimundarson (20. nóvember 2000). „Hverjir aðrir en Bandaríkjaforseti höfðu vald yfir kjarnorkuvopnum Bandaríkjanna á fyrri hluta kalda stríðsins?“. Vísindavefurinn. Sótt 25. apríl 2024.
  6. Bandaríkjaforsetar. 2016. bls. 318.
  7. Þorsteinn Thorarensen (17. apríl 1964). „Hinn stríðsglaði hershöfðingi“. Vísir. bls. 9.
  8. 8,0 8,1 Bandaríkjaforsetar. 2016. bls. 319.


Fyrirrennari:
Franklin D. Roosevelt
Forseti Bandaríkjanna
(1945 – 1953)
Eftirmaður:
Dwight D. Eisenhower
Fyrirrennari:
Henry A. Wallace
Varaforseti Bandaríkjanna
(1945 – 1945)
Eftirmaður:
Alben W. Barkley