Cecilienhof
52°25′09″N 13°04′15″A / 52.41917°N 13.07083°A
Cecilienhof er kastali í þýsku borginni Potsdam. Hann er yngsti kastali keisaraættarinnar í Þýskalandi og var reistur í enskum sveitastíl. Hann er þekktastur fyrir að hýsa Potsdam-ráðstefnuna. Í húsinu gaf Harry S. Truman fyrirmæli í síma um að varpa kjarnorkusprengju á Hiroshima.
Saga Cecilienhof
[breyta | breyta frumkóða]Það var Vilhjálmur II, síðasti keisari Þýskalands, sem lét reisa kastalann 1914-1917 í þeim tilgangi að krónprinsinn gæti átt þar athvarf. Kastalinn var óvenjulegur í laginu, enda reistur að mestu úr eikarviði í enskum sveitastíl (Tudorstíl). Á þakinu eru 55 skorsteinar, allir mismunandi. Heimstyrjöldin fyrri tafði fyrir um framkvæmdir. Kastalinn var þó vígður 1917, aðeins ári áður en heimstyrjöldinni lauk. Þetta reyndist vera síðasti kastali sem Hohenzollern-ættin (konungs- og keisaraættin í Prússlandi og Þýskalandi) lét reisa. Krónprinsinn Vilhjálmur og eiginkona hans, Cecilía, fluttu inn í kastalann, sem nefndur var eftir henni. Parið bjó aðeins í ár í kastalanum.
Árið 1918 töpuðu Þjóðverjar stríðinu. Keisarinn sagði af sér og fjölskyldan fór í útlegð til Hollands. Stjórn Weimar-lýðveldisins skilaði hins vegar Vilhjálmi og Cecilíu kastalanum 1926 og bjuggu þau þar allt til 1945. Þá hertóku Sovétmenn Potsdam og ráku þau burt.
Í júlí og ágúst 1945 var Potsdam-ráðstefnan haldin í þessum kastala. Sovétmenn tóku húsgögn og annað og fluttu það í annað hús, en fluttu önnur húsgögn inn. Gömlu húsgögnin brunnu hins vegar í húsbruna og eyðilögðust þau öll. Potsdam-ráðstefnan var fundur Winston Churchill, Jósefs Stalíns og Harry S. Trumans og fylgdarlið þeirra, en á henni ræddu þeir um framtíðarskipan Þýskalands og annarra landa, s.s. Póllands. Meðan á ráðstefnunni stóð tapaði flokkur Churchills í kosningum heima fyrir og nýr forsætisráðherra Bretlands, Clement Attlee, tók við sæti Churchills á ráðstefnunni. Það var einnig í þessu húsi sem Truman gaf fyrirmæli í síma um að varpa kjarnorkusprengju á Hiroshima.
Eftir að ráðstefnunni lauk var kastalinn og garðurinn opnaður fyrir almenning. Árið 1960 var hótel opnað í vesturálmunni. 1990 var kastalinn settur á heimsminjaskrá UNESCO. Kastalinn hefur nokkrum sinnum verið notaður fyrir sérstaka viðburði eftir það. Árið 2004 kom Elísabet 2. Bretadrottning í heimsókn til Þýskalands og gisti í þessu húsi. Árið 2007 hittust utanríkisráðherrar G8-ríkjanna í þessu húsi.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Cecilienhof“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.