Douglas MacArthur
Douglas MacArthur | |
---|---|
Fæddur | 26. janúar 1880 |
Dáinn | 5. apríl 1964 (84 ára) Washington, D.C., Bandaríkjunum |
Störf | Hermaður |
Maki | Louise Cromwell Brooks (g. 1922; skilin 1929); Jean Faircloth (g. 1937) |
Börn | Arthur MacArthur IV |
Foreldrar | Arthur MacArthur yngri & Mary Pinkney Hardy MacArthur |
Undirskrift | |
Douglas MacArthur (26. janúar 1880 – 5. apríl 1964) var bandarískur fimmstjörnuhershöfðingi og marskálkur Filippseyjahersins. Hann var herráðsformaður Bandaríkjahers á fjórða áratugnum og lék lykilhlutverk á Kyrrahafsvígstöðvunum í seinni heimsstyrjöldinni. Hann var sæmdur heiðursorðu (Medal of Honor) fyrir þjónustu sína í Filippseyjaherförinni, og urðu þeir faðir hans, Arthur MacArthur yngri, þá fyrstu feðgarnir sem báðir höfðu verið sæmdir orðunni.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]MacArthur fæddist inn í herfjölskyldu í bandaríska vestrinu og útskrifaðist með sóma úr hernaðarskóla Vestur-Texas og úr bandaríska hernaðarháskólanum West Point árið 1903, með hæstu einkunn í sínum bekk. Þegar Bandaríkin hertóku Veracruz árið 1914 fór MacArthur fyrir könnunarleiðangri og fékk fyrir það tilnefningu til heiðursorðunnar. Árið 1917 var hann hækkaður úr majórstign í ofurstatign og varð yfirforingi 42. fótgöngudeildarinnar. Í bardögum á vesturvígstöðvunum í fyrri heimsstyrjöldinni var hann gerður fylkishershöfðingi og aftur tilnefndur til heiðursorðunnar.
Frá 1919 til 1922 var MacArthur yfirmaður í bandaríska hernaðarháskólanum West Point, þar sem hann fór fyrir fjölda umbóta. Næsta verkefni hans var á Filippseyjum, þar sem hann tók árið 1924 þátt í því að kveða niður uppreisn filippeyskra herskáta. Árið 1925 varð MacArthur yngsti majór-hershöfðingi Bandaríkjahersins. Hann var árið 1928 forseti bandarísku Ólympíunefndarinnar á Sumarólympíuleikunum í Amsterdam. Árið 1930 varð hann herráðsformaður Bandaríkjahers og gegndi þeirri stöðu til 1937, en þá dró hann sig úr hernum og varð hernaðarráðgjafi ríkisstjórnar Filippseyja.
MacArthur var kallaður til herstarfa á ný árið 1941 og gerður foringi austurlandahers Bandaríkjanna í stríðinu við japanska keisaradæmið. Í fyrstu var stríðið reiðarslag fyrir Bandaríkjamenn: Herflugvélum landsins var gereytt þann 8. desember 1941 og Japanir gerðu í kjölfarið innrás í Filippseyjar. Herlið MacArthur neyddust fljótt til að hörfa til Bataan, þar sem þau þraukuðu fram í maí 1942. Í mars 1942 tókst MacArthur og fjölskyldu hans að flýja til Ástralíu, þar sem MacArthur varð yfirherforingi Suðvestur-Kyrrahafsvígstöðvanna. Þegar MacArthur kom til Ástralíu hélt hann fræga ræðu fyrir Filippseyinga og lofaði þeim: „Ég mun snúa aftur.“ Honum tókst að uppfylla það loforð eftir tveggja ára átök á Kyrrahafi. MacArthur var sæmdur heiðursorðunni fyrir vörn sína á Filippseyjum. Hann samþykkti uppgjöf Japans þann 2. september 1945 um borð í herskipinu USS Missouri í Tókýóflóa og fór fyrir hernámi Bandaríkjamanna í Japan frá 1945 til 1951. Á þeim tíma réð hann í reynd yfir Japan og stóð fyrir stórtækum efnahags-, stjórnmála- og samfélagsbreytingum.
MacArthur stýrði her Sameinuðu þjóðanna í Kóreustríðinu, sem braust út árið 1950. Í Kóreustríðinu lenti MacArthur í ágreiningi við Harry S. Truman Bandaríkjaforseta. MacArthur talaði máli Repúblikana, sem vildu reka stríðið af meiri hörku og gáfu skyn að stjórn Trumans hefði sofnað á verðinum með því að leyfa kommúnistum að komast til valda í Kína við lok kínversku borgarastyrjaldarinnar. Eftir að kommúnistastjórn Kína greip inn í styrjöldina vildi MacArthur þiggja hernaðaraðstoð kínverskra þjóðernissinna og gera kjarnorkuárásir á vígi kínverskra kommúnista meðfram landamærum Mansjúríu.[1] Truman óttaðist að með slíkum aðgerðum myndi ný heimsstyrjöld brjótast út og því heimilaði hann þær ekki. Þegar MacArthur fór að gagnrýna Truman opinberlega endaði Truman á því að reka MacArthur fyrir óhlýðni og fyrir að sýna forsetaembættinu vanvirðingu.[2]
MacArthur varð seinna forstjóri ritvélaframleiðslunnar Remington Rand.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Douglas MacArthur“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. september 2017.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Úti í löndum: MacArthur – Vikan, 30. Tölublað (06.08.1953), Blaðsíða 12.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Þorsteinn Thorarensen (17. apríl 1964). „Hinn stríðsglaði hershöfðingi“. Vísir. bls. 9.
- ↑ „Harry Truman: Óundirbúinn forseti“. Dagblaðið Vísir. 30. mars 1985. bls. 56-57.