Sómalía
Sambandslýðveldið Sómalía | |
Jamhuuriyadda Federaalka Soomaaliya جمهورية الصومال الفدرالية | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Qolobaa Calankeed | |
Höfuðborg | Mógadisjú |
Opinbert tungumál | sómalska, arabíska |
Stjórnarfar | Sambandslýðveldi
|
Forseti | Hassan Sheikh Mohamud |
Forsætisráðherra | Mohamed Hussein Roble |
Sjálfstæði | |
• frá Bretlandi og Ítalíu | 1. júlí, 1960 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
43. sæti 637.657 km² 1,6 |
Mannfjöldi • Samtals (2020) • Þéttleiki byggðar |
72. sæti 15.893.219 16,12/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2019 |
• Samtals | 13,324 millj. dala (153. sæti) |
• Á mann | 888 dalir (225. sæti) |
VÞL (2019) | 0.361 |
Gjaldmiðill | sómalskur skildingur |
Tímabelti | UTC+3 |
Þjóðarlén | .so |
Landsnúmer | +252 |
Sómalía (sómalska: Soomaaliya; arabíska: الصومال, aṣ-Ṣūmāl) er land í Austur-Afríku með landamæri að Djíbútí, Eþíópíu og Kenía og strandlengju við Adenflóa í norðri og Indlandshafi í austri. Sómalía er við Horn Afríku og á lengstu strandlengju allra ríkja á meginlandi Afríku. Landslag í Sómalíu einkennist af sléttum og hásléttum þar sem er heitt árið um kring, árstíðabundnir monsúnvindar blása og úrkoma er óregluleg.
Um fimmtán milljónir manna búa í landinu. Þar af eru 85% Sómalir sem flestir búa í norðurhlutanum. Minnihlutahópar, eins og Bantúmenn, búa aðallega í suðurhlutanum. Eftir áratugalanga borgarastyrjöld búa líka margir Sómalir utan Sómalíu víða um heim. Opinber tungumál Sómalíu eru sómalska og arabíska sem bæði eru afróasísk mál, þótt annað sé kúsískt mál og hitt semískt. Flestir íbúar landsins eru súnnímúslimar.
Sómalía hefur verið mikilvæg miðstöð verslunar í þessum heimshluta frá því í fornöld og þar er talið líklegast að landið Púnt, sem er þekkt úr fornegypskum heimildum, hafi verið. Nokkur öflug soldánsdæmi komu þar upp á miðöldum og á nýöld, eins og Soldánsdæmið Mógadisjú, Soldánsdæmið Ajuran, Soldánsdæmið Warsangali og Soldánsdæmið Geledi. Tvö síðastnefndu soldánsdæmin urðu Breska Sómalíland og Ítalska Sómalíland þegar Evrópuveldin lögðu þau undir sig í kapphlaupinu um Afríku undir lok 19. aldar. Dervisjaríki Múhameðs Abdúlla Hassans stóðst ásælni Breta inni í landi þar til hinum síðarnefndu tókst að sigra þá með loftárásum árið 1920. Ítalir lögðu Soldánsdæmið Majeerteen og Soldánsdæmið Hobyo undir sig eftir nokkur átök 1924 og 1926. Bretar lögðu svo nýlendur Ítala undir sig árið 1941, í síðari heimsstyrjöld. Eftir stríðið varð Norður-Sómalía breskt verndarsvæði en Sameinuðu þjóðirnar stýrðu Suður-Sómalíu með umsjón Ítala. Árið 1960 sameinuðust þessi tvö lönd í eitt sjálfstætt ríki, Sómalíu.
Árið 1969 rændi herforinginn Siad Barre völdum í landinu og stofnaði Alþýðulýðveldið Sómalíu. Þegar andspyrnuhópar hröktu hann frá völdum árið 1991 braust Sómalska borgarastyrjöldin út. Á þeim tíma tóku sum héruð, eins og Sómalíland, Púntland og Galmudug, upp eigin stjórn og landsmenn tóku upp óformlegt hagkerfi sem byggðist á kvikfé, peningasendingum og farsímakerfum. Eftir aldamótin voru gerðar nokkrar tilraunir til að skapa sambandsríki og árið 2004 hóf Tímabundna sambandsstjórnin að koma á fót ríkisstofnunum eins og seðlabanka og her. Árið 2006 náði þessi stjórn að leggja undir sig átakahéruð í sunnanverðu landinu með aðstoð eþíópíska hersins. Ný stjórnarskrá var samþykkt árið 2012 og sama ár tók Sambandsstjórn Sómalíu við völdum.
Landfræði
[breyta | breyta frumkóða]Sómalía á landamæri að Eþíópíu í vestri og Kenía í suðvestri; og strönd að Adenflóa í norðri, Sómalíuhafi og Guardafui-sundi í austri. Landið er um 640 þúsund km2 að stærð og einkennist af hásléttum, sléttum og hálendissvæðum.[1] Strönd Sómalíu er um 3.300 km að lengd, sú lengsta af öllum löndum meginlands Afríku.[2] Lögun landsins hefur verið lýst sem „talan sjö á hlið“.[3]
Nyrst í landinu liggja Ogofjöll mislangt frá strönd Adenflóa. Loftslag er heitt árið um kring með árstíðabundnum monsúnvindum og óreglulegri úrkomu.[4] Jarðfræði landsins bendir til þess að þar sé að finna verðmæt jarðefni. Handan við Sómalíuhaf eru Seychelles-eyjar og handan við Guardafui-sund er eyjan Socotra.
Stjórnmál
[breyta | breyta frumkóða]Stjórnsýslueiningar
[breyta | breyta frumkóða]Sómalía skiptist formlega í átján héruð (gobollada) sem aftur skiptast í umdæmi. Héruðin eru:
1 Jubbada Hoose 2 Jubbada Dhexe 3 Gedo 4 Bay 5 Bakool 6 Shabeellaha Hoose 7 Banaadir 8 Shabeellaha Dhexe 9 Hiiraan |
10 Galguduud 11 Mudug 12 Nugaal 13 Bari 14 Sool 15 Sanaag 16 Togdheer 17 Woqooyi Galbeed 18 Awdal |
Norðurhluti landsins skiptist de facto á milli sjálfstjórnarfylkisins Púntlands og Sómalílands sem lýst hefur yfir stofnun sjálfstæðs ríkis sem ekkert annað ríki viðurkennir. Auk þessara svæða mynda sjálfstjórnarfylkin Galmudug í miðju landinu og Júbaland í suðri sambandsríkið Sómalíu.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Somalia“. World Factbook. Central Intelligence Agency. 14. maí 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. júlí 2016. Sótt 31. maí 2009.
- ↑ „Coastline“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. júlí 2017. Sótt 3. ágúst 2013.
- ↑ Ganzglass, Martin R. "The Somali Refugees-Africa's Open Wound Refuses to Heal." Hum. Rts. 8 (1979): 28.
- ↑ „Somalia – Climate“. countrystudies.us. 14. maí 2009.