Fara í innihald

Mónakó

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Monaco)
Mónakó
Principauté de Monaco
Fáni Mónakó Skjaldarmerki Mónakó
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Deo Juvante (latína)
Með guðs hjálp
Þjóðsöngur:
Hymne Monégasque
Staðsetning Mónakó
Höfuðborg Mónakó
Opinbert tungumál franska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Fursti Albert 2.
Ríkisráðherra Didier Guillaume
Sjálfstæði
 • Grimaldi-fjölskyldan 1419 
 • Samningar Frakklands og Mónakó 1861 
 • Stjórnarskrá Mónakó 1911 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
194. sæti
2,02 km²
0
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
190. sæti
38.300
18.713/km²
VLF (KMJ) áætl. 2015
 • Samtals 7,672 millj. dala (168. sæti)
 • Á mann 115.700 dalir (3. sæti)
Gjaldmiðill evra (EUR)
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Þjóðarlén .mc
Landsnúmer +377

Mónakó, opinbert heiti Furstadæmið Mónakó (franska: Principauté de Monaco; mónakóska: Prinçipatu de Múnegu, oksítanska: Principat de Mónegue), er borgríki og annað minnsta ríki heims. Það er innan landamæra Frakklands með strandlengju að Miðjarðarhafi við frönsku rívíeruna, rétt vestan við ítalska héraðið Lígúríu. Íbúar eru tæplega 40 þúsund, en aðeins tæp 10 þúsund eru mónakóskir ríkisborgarar.[1] Mónakó er almennt álitið eitt ríkasta og dýrasta land heims.[2][3] Franska er opinbert tungumál í furstadæminu, en þar eru líka töluð mállýskan monégasque, sem er skyld lígúrísku. Flestir íbúar tala og skilja auk þess ítölsku og ensku.

Landið er aðeins 2,1 ferkílómetri og takmarkast við borgina Mónakó og ströndina framan við hana en varla er nokkurt óbyggt svæði innan landamæra ríkisins og þar er enginn landbúnaður stundaður. Land ríkisins hefur þó stækkað um allt að 20% á síðari árum vegna landfyllinga út í sjó. Strandlengja Mónakó er 3,83 km og er stysta strandlengja fullvalda ríkis í heimi.[4] Hæsti punktur Mónakó er mjór fjallvegur, Chemin des Révoires, í hlíðum Mont Agel sem er 161 metrar yfir sjávarmáli. Furstadæmið er um 15 km frá landamærum Frakklands og Ítalíu.[5] Fjölmennasta hverfi borgarinnar er Larvotto.

Í Mónakó er þingbundin konungsstjórn og þjóðhöfðingi landsins er furstinn Albert 2. af Mónakó sem hefur mikil völd. Forsætisráðherra Mónakó getur ýmist verið mónakóskur eða franskur ríkisborgari. Furstinn ráðfærir sig við ríkisstjórn Frakklands fyrir skipun hans. Dómsvaldið er að mestu skipað frönskum dómurum.[6] Grimaldi-ætt frá Genúu reyndi að leggja „klettinn“ undir sig fyrst árið 1297 en var hrakin þaðan skömmu síðar. Á 14. öld missti Genúa stjórn svæðisins til Konungsríkisins Aragóníu. Árið 1419 keypti Grimaldi-ættin klettinn af Aragóníu og hefur ríkt þar síðan.[7] Frakkland viðurkenndi fullveldi landsins formlega með samningi árið 1861. Mónakó varð fullgildur meðlimur Sameinuðu þjóðanna árið 1993. Frakkland fer með varnir landsins, en Mónakó rekur samt her með tveimur litlum herdeildum.

Efnahagslíf Mónakó tók kipp þegar fyrsta spilavítið var opnað þar á 19. öld ásamt því að landið fékk járnbrautartengingu við París.[8] Síðan þá hefur furstadæmið verið vinsæll ferðamannastaður fyrir ríkt fólk. Síðustu ár hefur landið orðið fjármálamiðstöð og vinsælt skattaskjól. Þar er enginn tekjuskattur og fyrirtækjaskattar eru lágir. Um 30% íbúa eru milljónamæringar[9] og fasteignaverð í Mónakó fór yfir 100.000 evrur á fermetra árið 2018.

Mónakó er ekki formlega hluti af Evrópusambandinu en á aðild að vissum þáttum þess, eins og álagningu tolla og landamæravörslu. Mónakó notar evruna sem gjaldmiðil, en notaði áður mónakóska franka sem voru bundnir frönskum franka til 1. janúar 2002. Mónakó gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 2004 og er meðlimur í La Francophonie. Monaco Grand Prix er árlegt Formúlu 1-kappakstursmót sem haldið er á götum Mónakó og Monte Carlo-rallíið sem er haldið í frönsku Ölpunum heitir eftir akstursíþróttafélagi Mónakó. Knattspyrnufélag Mónakó, AS Monaco, keppir í frönsku fyrstu deildinni Ligue 1 og hefur nokkrum sinnum orðið franskur meistari. Við Mónakó er eitt af fyrstu verndarsvæðunum á sjó[10] og þar eru Sjávardýrasafn Mónakó og rannsóknarstofur Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar í umhverfisvísindum.[11]

Mónakó dregur nafn sitt af gríska orðinu μόνοικος monoikos „eitt hús“. Þetta var það sem Lígúrar kölluðu gríska nýlendu sem var stofnuð þar á 6. öld f.Kr. Samkvæmt fornri arfsögn fór Herakles þarna um og hrakti eldri guði landsins á brott. Í kjölfarið var honum reist hof sem þá var eina hofið á svæðinu. Af því er nafnið „eitt hús“ dregið.[12][13]

Mónakó dregur nafn sitt af grískri nýlendu sem Lígúrar nefndu Monoikos, sem merkir „eitt hús“ á grísku.[14][15] Landið varð hluti af Heilaga rómverska ríkinu sem lét Genúa það eftir. Grimaldi-ættin sem hafði verið hrakin frá Genúa, gerði tilkall til landsins í hundrað ár þar til henni tókst að kaupa það. Lýðveldið Genúa leyfði fjölskyldunni að halda Mónakó og Frakkland og Spánn létu þennan eignarhlut í friði öldum saman. Frakkland innlimaði Mónakó í frönsku byltingunni, en eftir ósigur Napóleons féll landið undir konungsríkið Sardiníu.

Þegar Sardinía varð að Ítalíu á 19. öld lenti Mónakó á áhrifasvæði Frakka sem leyfðu því að halda sjálfstæði sínu. Öxulveldin lögðu Mónakó undir sig í síðari heimsstyrjöld og um stutt skeið var stjórn þess flutt til Ítalíu og síðan Þriðja ríkisins. Hernámið stóð aðeins stutt, en varð þó til þess að Gyðingar og franskir andspyrnumenn sem dvöldu þar voru fluttir þaðan og teknir af lífi. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur Mónakó verið sjálfstætt ríki, en er að hluta þátttakandi í Evrópusambandinu.

Koma Grimaldi-fjölskyldunnar

[breyta | breyta frumkóða]
Rainier 1. var fyrsti sjálfstæði furstinn yfir Mónakó.

Hinrik 6. keisari veitti Genúa Mónakó sem lén árið 1191 og landið varð nýlenda þaðan árið 1215.[16][17] Mónakó komst fyrst undir stjórn Grimaldi-fjölskyldunnar árið 1297 þegar Francesco Grimaldi, sem var kallaður „Malizia“ og má þýða sem „hinn illi“ eða „hinn kæni“, og menn hans náðu að leggja virkið á Mónakókletti undir sig, dulbúnir sem fransiskumunkar („munkur“ er monaco á ítölsku, þótt það sé í raun tilviljun).[18]

Nokkrum árum síðar var Francesco hrakinn þaðan af her frá Genúa og átökin um „klettinn“ héldu áfram næstu áratugi.[19] Grimaldi-fjölskyldan var frá Genúa og átökin snerust meðal annars um ættarerjur í borginni. Seint á 14. öld missti Genúa Mónakó til Aragóníu vegna átaka um Korsíku.[20] Aragónía varð síðan hluti af Spáni og önnur lönd féllu undir yfirráð annarra konungsríkja.[20]

1400–1800

[breyta | breyta frumkóða]
Mónakó sem hluti Genúa árið 1494.

Árið 1419 keypti Grimaldi-fjölskyldan Mónakó af konungi Aragóníu og varð við það formlegur eigandi Mónakókletts. Árið 1612 tók Honoríus 2. að titla sig „fursta af Mónakó“.[21] Á 4. áratug 17. aldar óskaði hann eftir aðstoð Frakka gegn spænskum her og fékk móttöku við hirð Loðvíks 14. sem „duc et pair étranger“.[22] Varð furstadæmið, ásamt héruðunum Menton og Roquebrune, sem tilheyrt höfðu því síðan á 14. öld, þá franskt verndarsvæði.

Furstarnir af Mónakó urðu eftir þetta undirmenn frönsku krúnunnar sem sjálfstæðir þjóðhöfðingjar með minni frönsk lén, eins og hertogadæmið Valentinois sem Grimaldi-fjölskyldan gerir enn tilkall til. Furstarnir bjuggu lengst af í París og giftust inn í franskar og ítalskar aðalsfjölskyldur. Furstadæmið var áfram til allt fram að frönsku byltingunni.[23]

Kort sem sýnir innlimun í Frakkland 1860.

Árið 1793 lagði franski byltingarherinn Mónakó undir sig og til 1814 var landið hernumið af Frökkum, líkt og megnið af meginlandi Evrópu á þeim tíma.[22][24] Furstadæmið var endurreist árið 1815 sem verndarríki konungsríkisins Sardiníu á Vínarþinginu.[24] Þeirri stöðu hélt Mónakó til 1860 þegar herir Sardiníu hurfu þaðan í samræmi við skilmála Tórínósáttmálans og Nice-sýsla sem umkringir landið (auk Savoja) gekk til Frakklands.[25] Eftir það varð Mónakó franskt verndarríki að nýju.

Fyrir þennan tíma var órói í Menton og Roquebrune þar sem bæjarbúar voru þreyttir á mikilli skattlagningu Grimaldi-fjölskyldunnar. Þeir lýstu yfir sjálfstæði og vonuðust til þess að Sardinía myndi innlima bæina. Frakkland mótmælti, en átökin héldu áfram þar til Karl 3. af Mónakó gaf eftir tilkall sitt til bæjanna tveggja, sem voru 95% af landi furstadæmisins.[26] Frakkland tók þá við stjórn þeirra og greiddi Grimaldi-fjölskyldunni 4.100.000 franka fyrir.[27] Þessi flutningur og fullveldi Mónakó voru fullgilt með samningi Frakka og Mónakó árið 1861. Árið 1869 hætti furstadæmið að innheimta tekjuskatt af íbúuum þar sem tekjurnar af spilavíti fjölskyldunnar, sem var opnað 1863, nægðu henni.[28] Við þetta varð Mónakó bæði leikvöllur fyrir auðmenn og skattaskjól.[29]

Borgarstjóri Mónakó tilkynnir endalok einveldis furstafjölskyldunnar árið 1910.

Furstarnir af Mónakó voru einvaldar fram að byltingunni í Mónakó 1910 sem leiddi til þess að stjórnarskrá Mónakó var samþykkt 1911.[30] Nýja stjórnarskráin dró þó lítið úr völdum Grimaldi-fjölskyldunnar og Albert 1. af Mónakó felldi hana úr gildi í fyrri heimsstyrjöld.

Í júlí 1918 var nýr samningur við Frakka undirritaður um takmarkaða vernd Frakka. Samningurinn varð hluti af Versalasamningunum 1919 og fól í sér að alþjóðasamskipti Mónakó yrðu í samræmi við hagsmuni Frakklands. Hann leysti líka erfðadeilur í Mónakó.

Brúðkaup Ranieri 3. af Mónakó og leikkonunnar Grace Kelly.

Árið 1943 gerði ítalski herinn innrás í Mónakó og kom þar á fasistastjórn.[31] Þegar Mussolini var steypt af stóli 1943 hernam þýski herinn Mónakó og Ítalíu og hóf að flytja Gyðinga þaðan. Ballettdansarinn Réne Blum sem stofnaði óperuballettinn í Monte Carlo var handtekinn í París og fluttur til Auschwitz þar sem hann var myrtur.[32] Félagi Blums, Raoul Gunsbourg, forstjóri Óperunnar í Monte-Carlo, flúði til Sviss með aðstoð frönsku andspyrnunnar.[33] Í ágúst 1944 tóku Þjóðverjar andspyrnuleiðtogana René Borghini, Joseph-Henri Lajoux og Esther Poggio af lífi.

Rainier 3. tók við völdum þegar faðir hans, Loðvík 2. af Mónakó lést 1949 og ríkti til 2005. Þann 19. apríl 1956 giftist Rainier bandarísku leikkonunni Grace Kelly. Brúðkaupið vakti mikla athygli fjölmiðla og furstadæmið varð þekkt um allan heim.[34]

Með breytingu á stjórnarskránni 1962 var dauðarefsing afnumin, konur fengu kosningarétt og hæstiréttur Mónakó var stofnaður til að tryggja borgaraleg réttindi. Árið 1963 kom upp kreppa þegar Charles de Gaulle setti hafnbann á Mónakó vegna þess að ríkið var þá vinsælt skattaskjól franskra auðmanna. Kvikmyndin Grace of Monaco frá 2014 byggist lauslega á þessum atburðum.[35] Árið 1993 varð Mónakó aðili að Sameinuðu þjóðunum með fullan kosningarétt.[25][36]

Árið 2002 var nýr samningur gerður milli Frakklands og Mónakó sem kvað á um að ef enginn erfingi að titlum Grimaldi-fjölskyldunnar kæmi fram yrði furstadæmið samt sjálfstætt ríki, en ekki hluti af Frakklandi. Albert prins var þá hálffimmtugur, ókvæntur og átti ekki skilgetin börn. Varnir Mónakó eru þó enn í höndum Frakka.[37][38]

Albert fursti og Charlene furstynja, ásamt Hermanni Bühlbecker og Karli Lagerfeld.

Þann 31. mars 2005 varð Rainier 3. of veikur til að sinna skyldum sínum og lét einkasyni sínum og erfingja, Albert, völdin eftir.[39] Hann lést sex dögum síðar eftir 56 ára valdatíð. Albert 2. af Mónakó tók við sem fursti af Mónakó og var krýndur 12. júlí 2005.[40] Sérstök móttaka erlendra þjóðhöfðingja var svo haldin 18. nóvember 2005 í furstahöllinni í Monaco-Ville.[41] Þann 27. ágúst baðst Albert afsökunar á hlut Mónakó í síðari heimsstyrjöld í brottflutningi 90 gyðinga og andspyrnuleiðtoga, en aðeins 9 þeirra lifðu af.[42] Albert giftist suðurafrísku sundkonunni Charlene Wittstock árið 2011. Furstahjónin eignuðust tvíburasystkinin Gabríellu og Jakob árið 2014.

Árið 2015 samþykkti Mónakó gerð landfyllinga sem áttu að uppfylla þörf fyrir húsnæði og lítið grænt svæði.[43] Ætlunin er að landfyllingin verði um sex hektarar að stærð þar sem verða íbúðir, garðar, verslanir og skrifstofur.[44]

Þann 29. febrúar 2020 var tilkynnt um fyrsta tilvik COVID-19-smits í Mónakó.[45][46] Þann 3. september 2020 var fyrsti gervihnöttur Mónakó sendur út í geim frá Frönsku Gvæjana með Vega-eldflaug.[47] Gervihnötturinn var smíðaður af Orbital Solutions í Mónakó.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Gervihnattarmynd af Mónakó frá 2013 þar sem landamærin að Frakklandi eru lituð gul.

Mónakó er sjálfstætt borgríki sem skiptist í tvö verndarsvæði og sjö hverfi. Það stendur á frönsku rívíerunni í Vestur-Evrópu og á landamæri að franska héraðinu Alpes-Maritimes á þrjá vegu, en strönd að Miðjarðarhafi á eina. Miðja Mónakó er um 16 km frá Ítalíu og aðeins 13 km norðaustan við borgina Nice.[36]

Mónakó er aðeins 2,1 km² að stærð, eða 208 hektarar, og íbúar eru 38.400.[48] Mónakó er þannig annað minnsta og þéttbýlasta land heims.[36] Landamærin að Frakklandi eru 5,47 km á lengd,[48] strandlengjan er 3,83 km og landhelgin nær 22,2 km út í sjó. Breidd landsins er milli 1700 og 349 metrar.[49][50]

Hæsti punkturinn í Mónakó er við innganginn að íbúðablokkinni Patio Palace í Chemin des Révoires frá götunni D6007 (Moyenne Corniche) í 164,4 metra hæð.[51] Neðsti punktur landsins er við Miðjarðarhafið.[52]

Saint-Jean-á er lengsta vatnsfallið í Mónakó, um 0,19 km að lengd, og Fontvieille-vatn er stærsta stöðuvatnið, um 0,5 hektarar að stærð.[53] Fjölmennasta hverfi Mónakó er Larvotto.[54]

Eftir nýlega stækkun Herkúleshafnar[55] stækkaði land Mónakó í 2,08 km².[54] Síðan þá hefur verið samþykkt að stækka land við Fontvieille um 0,08 km² með landfyllingum.[56][57][58][55][59] Að auki er verið að bæta 6 hekturum við í nýja hverfinu Le Portier.[60] Það eru tvær hafnir í Mónakó, Herkúleshöfn, og Fontvieille-höfn.[61] Alveg við landamærin vestan megin er franska höfnin Cap d'Ail.[61] Eina náttúruauðlindin sem Mónakó býr yfir eru fiskimið.[62] Þar sem nær allt landsvæðið er þéttbýlt er enginn landbúnaður stundaður í Mónakó.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]
Albert 2. fursti af Mónakó.

Frá 1911 hefur Mónakó verið með þingbundna konungsstjórn þar sem Mónakófursti er þjóðhöfðingi.[63] Framkvæmdavaldið er í höndum forsætisráðherra sem er stjórnarleiðtogi og forseti ríkisstjórnar með fimm aðra ráðherra.[64] Til 2002 var forsætisráðherrann alltaf franskur ríkisborgari sem furstinn skipaði samkvæmt tillögum ríkisstjórnar Frakklands. Frá stjórnarskrárbreytingu árið 2002 getur forsætisráðherrann verið ýmist Frakki eða Mónakóbúi.[16] Þann 1. september 2020 skipaði Albert 2. franska ríkisborgarann Pierre Dartout í embættið.[65]

Samkvæmt stjórnarskrá Mónakó frá 1962 deilir furstinn neitunarvaldi sínu með þjóðarráði sem situr í einni deild.[66] Í þjóðarráðinu sitja 24 þingmenn sem eru kosnir til 5 ára í senn. 16 þeirra eru kosnir með meirihlutakosningu og 8 með hlutfallskosningu.[67] Öll löggjöf krefst samþykkis þjóðarráðsins, þar sem meirihluti þingmanna er úr íhaldsflokknum Samkoma & málefni sem hefur 20 þingsæti.[67] Mónakósambandið er með þrjú sæti[67] og Endurreisnarflokkurinn er með eitt sæti. Sveitarstjórn Mónakó fer með málefni borgarinnar.[68] Þar sitja 14 kjörnir borgarráðsfulltrúar og borgarstjóri.[69] Georges Marsan hefur verið borgarstjóri frá 2003. Ólíkt þjóðarráðinu eru meðlimir borgarráðsins kosnir til fjögurra ára[70] og tilheyra engum flokkum. Samt myndast oft stjórnarandstaða innan borgarráðsins.[68][71]

Furstinn skipar dómara í Mónakó. Lykilstöður eru í höndum franskra dómara samkvæmt tillögum frá Frakklandi. Þrír rannsóknardómarar starfa í Mónakó.[72]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Hverfi Mónakó.

Mónakó er aðeins eitt sveitarfélag, sveitarfélagið Mónakó, sem nær yfir allt furstadæmið. Áður fyrr skiptist það í þrjú sveitarfélög, Monaco-Ville, Monte Carlo og La Condamine, en þau voru sameinuð í eitt árið 1917.

Árið 1966 var ákveðið að skipta furstadæminu í verndarsvæði („þar sem vernda ber núverandi staðaranda“) og hverfi. Fjöldi og afmörkun hverfanna hefur breyst nokkrum sinnum, síðast árið 2013. Nýtt hverfi, Le Portier, er í byggingu á 6 hektara landfyllingu í sjó.

Hverfi Stærð
(ha)
Aths.
Verndarsvæði
Monaco-Ville 20 Gamla borgin
Ravin de Sainte-Dévote 2 Gil við Sainte-Dévote-kapelluna
Hverfi
La Condamine 30 Hafnarsvæði í norðvestri
Fontvielle 33 Á landfyllingu
Larvotto 22 Strandsvæði í austri
Jardin Exotique 24 Sameinuð fyrrum hverfin La Colle og Les Révoires
Les Moneghetti 12 Íbúðahverfi í miðvesturhlutanum
Monte-Carlo 44 Spilavíti og hótelhverfi ásamt íbúðahverfum
La Rousse 18 Norðausturhlutinn

Spilavítið, Monte Carlo Casino, var stofnað 1856 til að ráða bót á efnahagsvanda sem skapaðist þegar Grimaldiættinn tapaði meginhluta lenda sinna, og byggingu hússins lauk 1863. Það skilaði fljótt miklum hagnaði og árið 1869 var hætt að leggja tekjuskatt á íbúa Mónakó því tekjur af spilavítinu dugðu. Allar götur síðan hefur Mónakó verið vinsælt skattaskjól og spilavítið hefur lengst af verið aðaltekjulind furstafjölskyldunnar og ríkisins þótt ferðamannaiðnaðurinn verði stöðugt mikilvægari.

Þetta veldur því að húsnæðisverð er afar hátt í furstadæminu og hvergi eru hlutfallslega fleiri auðmenn. Mikill hluti þeirra sem starfa í Mónakó býr hins vegar utan landamæra furstadæmisins og um 48.000 manns koma þangað daglega til starfa frá Frakklandi og Ítalíu og fara heim á kvöldin.

Tvær hafnir eru í Mónakó og mikill fjöldi af lystisnekkjum og bátum hefur þar bækistöðvar sínar, auk þess sem fjöldi stórra skemmtiferðaskipa kemur þar við.

Íbúafjöldi í Mónakó var 38.400 árið 2015 og Sameinuðu þjóðirnar áætluðu hann vera 39.511 í júlí árið 2021.[73][74] Mónakó er óvenjulegt land að því leyti að innfæddir Mónakóbúar eru í minnihluta í eigin landi. Stærsti hópur íbúa eru Frakkar (28,4%), en þar á eftir koma Mónakóbúar (21,6%), Ítalar (18,7%), Bretar (7,5%), Belgar (2,8%), Þjóðverjar (2,5%), Svisslendingar (2,5%) og Bandaríkjamenn (1,2%).[75]

Mónakóbúar, hvort sem þeir eru innfæddir eða hafa gerst ríkisborgarar síðar, eru nefndir Monégasques á frönsku. Mónakó er það land þar sem lífslíkur eru hvað mestar, eða næstum 90 ár.[76][77]

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Mónakókappaksturinn hefur verið haldinn frá árinu 1929 og er hluti Formúlu 1-keppninnar. Brautin þykir ein sú erfiðasta í keppninni en hún einkennist af þröngum götum og kröppum beygjum.

Knattspyrnufélagið AS Monaco FC keppir í frönsku fyrstu deildinni og er í hópi sigursælli liða hennar. Félagið hefur átta sinnum orðið deildarmeistari í Frakklandi, fimm sinnum bikarmeistari og leikið til úrslita í Evrópukeppnum. Mónakó er ásamt Vatíkaninu eina fullvalda ríkið í Evrópu sem ekki er aðili að UEFA og getur því ekki teflt fram formlegu landsliði.

Mónakómaraþonið er árviss viðburður og mun vera maraþonhlaupið sem fer um þrjú lönd: Frakkland, Mónakó og Ítalíu.

Höfuðstöðvar Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins eru í Mónakó.

Mónakó sendi fyrst íþróttafólk til keppni á Ólympíuleikunum í Antwerpen 1920. Í Ríó 2016 tók íþróttafólk frá Mónakó þátt í sínum 20. sumarleikum og í Pyeongchang 2018 í sínum 10. vetrarleikum. Mónakó hefur enn ekki komist á verðlaunapall, sem gerir landið að þeirri þátttökuþjóð sem oftast hefur verið með án þess að vinna til verðlauna. Kunnasti keppandi Mónakó á öllum þessum leikum er vafalítið Albert 2. sem keppti á fimm leikum í röð í sleðabruni.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Demography / Population and employment / IMSEE - Monaco IMSEE“. www.monacostatistics.mc. Afrit af uppruna á 30. október 2020. Sótt 25. september 2020.
  2. „The 1.25-mile waterfront stretch in Monaco that used to be the world's most expensive street looks no different from the rest of the city“. Business Insider. Sótt 21. júlí 2022.
  3. „Monaco Is The Most Expensive Place To Buy Property In The World“. Afrit af uppruna á 29. maí 2022. Sótt 21. júlí 2022.
  4. „Monaco Statistics / IMSEE — Monaco IMSEE“ (franska). Imsee.mc. Afrit af uppruna á 4. mars 2016. Sótt 3. ágúst 2016.
  5. „Ventimiglia - Principato di Monaco“. www.distanza.org. Afrit af uppruna á 6. maí 2019. Sótt 8. apríl 2020.
  6. "Communiqué de la Direction des Services Judiciaires" Geymt 17 febrúar 2022 í Wayback Machine, Government of Monaco (in French), 26 June 2019.
  7. Edwards, Anne (1992). The Grimaldis of Monaco: The Centuries of Scandal – The Years of Grace. William Morrow. ISBN 978-0-688-08837-8.
  8. „Monte Carlo: The Birth of a Legend“. SBM Group. Afrit af uppruna á 3. desember 2013. Sótt 23. ágúst 2013.
  9. Beck, Katie. „The country running out of space for its millionaires“. www.bbc.com. Afrit af uppruna á 9. nóvember 2020. Sótt 25. september 2020.
  10. „Monaco's Prince Albert II: Oceans are a 'family heritage,' with little time to save them“. Los Angeles Times. 13. febrúar 2020. Afrit af uppruna á 25. september 2020. Sótt 26. september 2020.
  11. „Ocean Acidification International Coordination Centre (OA-ICC)“ (PDF). United Nations. Afrit (PDF) af uppruna á 11. apríl 2021. Sótt 26. september 2020.
  12. Strabo, Geography, Gaul, 4.6.3 at LacusCurtious [óvirkur tengill]
  13. „μόνοικος“. Afritað af uppruna á 29. júní 2011. Sótt 29. júní 2011., Henry George Liddell, Robert Scott, A Greek-English Lexicon, on Perseus Digital Library
  14. „μόνος“. Afritað af uppruna á 29. júní 2011. Sótt 29. júní 2011., Henry George Liddell, Robert Scott, A Greek-English Lexicon, on Perseus Digital Library
  15. „οἶκος“. Afritað af uppruna á 29. júní 2011. Sótt 29. júní 2011., Henry George Liddell, Robert Scott, A Greek-English Lexicon, on Perseus Digital Library
  16. 16,0 16,1 „Monaco“. State.gov. 16. nóvember 2011. Afrit af uppruna á 14. ágúst 2021. Sótt 28. maí 2012.
  17. „Monaco Life“. Monaco Life. 26. júlí 2011. Afrit af uppruna á 8. maí 2012. Sótt 28. maí 2012.
  18. „Monaco history“. Visitmonaco.com. Afrit af uppruna á 29. apríl 2018. Sótt 28. maí 2012.
  19. „Histoire de Monaco, famille Grimaldi | Monte-Carlo SBM“. Fr.montecarlosbm.com. Afrit af uppruna á 9. júní 2012. Sótt 28. maí 2012.
  20. 20,0 20,1 „The Mediterranean Empire of the Crown of Aragon“. explorethemed.com. Afrit af uppruna á 4. desember 2016. Sótt 8. ágúst 2015.
  21. „Monaco – The Principality of Monaco“. Monaco.me. Afrit af uppruna á 21. júlí 2020. Sótt 28. maí 2012.
  22. 22,0 22,1 „The History Of Monaco“. Monacoangebote.de. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. janúar 2013. Sótt 28. maí 2012.
  23. „Monaco: History“. .monaco.mc. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. júní 2012. Sótt 28. maí 2012.
  24. 24,0 24,1 „Important dates – Monaco Monte-Carlo“. Monte-carlo.mc. Afrit af uppruna á 1. maí 2012. Sótt 28. maí 2012.
  25. 25,0 25,1 „24 X 7“. Infoplease.com. Afrit af uppruna á 19. janúar 2012. Sótt 28. maí 2012.
  26. „History of the Principality of Monaco – Access Properties Monaco – Real-estate Agency Monaco“. Access Properties Monaco. Afrit af uppruna á 9. ágúst 2012. Sótt 28. maí 2012.
  27. „History of Monaco“. Monacodc.org. Afrit af uppruna á 24. apríl 2012. Sótt 28. maí 2012.
  28. „Histoire de la Principauté – Monaco – Mairie de Monaco – Ma ville au quotidien – Site officiel de la Mairie de Monaco“. Monaco-mairie.mc. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. júní 2012. Sótt 28. maí 2012.
  29. „MONACO“. Tlfq.ulaval.ca. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. júní 2012. Sótt 28. maí 2012.
  30. „Monaco timeline“. BBC News. 28. mars 2012. Afrit af uppruna á 27. maí 2012. Sótt 28. maí 2012.
  31. „Monaco History, History of Monaco – Allo' Expat Monaco - World War II“. Monaco.alloexpat.com. Afrit af uppruna á 27. maí 2012. Sótt 28. maí 2012.
  32. Abramovici P. Un rocher bien occupé : Monaco pendant la guerre 1939–1945 Editions Seuil, Paris 2001, ISBN 2-02-037211-8
  33. „Monaco histoire“. Tmeheust.free.fr. Afrit af uppruna á 18. maí 2011. Sótt 28. maí 2012.
  34. „Monaco – Principality of Monaco – Principauté de Monaco – French Riviera Travel and Tourism“. Nationsonline.org. Afrit af uppruna á 18. maí 2012. Sótt 28. maí 2012.
  35. „Monaco royals will not be at Cannes 'Grace of Monaco' premiere – Page Six“. Page Six. 2. apríl 2014. Afrit af uppruna á 7. apríl 2014. Sótt 2. apríl 2014.
  36. 36,0 36,1 36,2 „CIA – The World Factbook“. Cia.gov. Afrit af uppruna á 30. desember 2021. Sótt 22. mars 2012.
  37. „History of Monaco. Monaco chronology“. Europe-cities.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. janúar 2013. Sótt 28. maí 2012.
  38. „Monaco Military 2012, CIA World Factbook“. Theodora.com. Afrit af uppruna á 10. maí 2012. Sótt 28. maí 2012.
  39. „Monaco Royal Family“. Yourmonaco.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. júní 2012. Sótt 28. maí 2012.
  40. „Biography – Prince's Palace of Monaco“. Palais.mc. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. nóvember 2013. Sótt 28. maí 2012.
  41. „History of Monaco, Grimaldi family“. Monte-Carlo SBM. Afrit af uppruna á 12. apríl 2012. Sótt 28. maí 2012.
  42. Williams, Carol J. (27. ágúst 2015). „More than seven decades later, Monaco apologises for deporting Jews“. Los Angeles Times. Afrit af uppruna á 30. ágúst 2015. Sótt 31. ágúst 2015.
  43. „Monaco land reclamation project gets green light“. rivieratimes.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. september 2015. Sótt 8. ágúst 2015.
  44. Colin Randall (23. maí 2013). „Monaco €1 billion reclamation plan for luxury homes district“. thenational.ae. Afrit af uppruna á 25. september 2016. Sótt 8. ágúst 2015.
  45. Gouvernement Monaco [@GvtMonaco] (28. febrúar 2020). „[#Coronavirus] Les autorités sanitaires de la Principauté ont été informées qu'une personne prise en charge dans la matinée et conduite au Centre Hospitalier Princesse Grace était positive au COVID 19.Son état de santé n'inspire pas d'inquiétude“ (X) – gegnum X.
  46. Bulant, Jeanne (29. febrúar 2020). „Coronavirus: un premier cas de contamination détecté à Monaco et transféré au CHU de Nice“. BFMTV (franska). Agence France-Presse. Sótt 29. febrúar 2020.
  47. Bongiovanni, Francesco M. (5. september 2020). „Historical launch on Sept. 2nd, 2020: The first satellite from Monaco is now orbiting the earth“. Orbital Solutions. Afrit af uppruna á 24. október 2020. Sótt 13. október 2020.
  48. 48,0 48,1 Monaco, Government of. "monaco statistics pocket" / Publications / IMSEE - Monaco IMSEE“. Monacostatistics.mc. Afrit af uppruna á 4. mars 2016. Sótt 30. mars 2017.
  49. „Geography and Map of Monaco“. mapofeurope.com. Afrit af uppruna á 11. september 2014. Sótt 11. september 2014.
  50. „Monaco's Areas / Monaco Official Site“. Visitmonaco.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. janúar 2013. Sótt 12. mars 2013.
  51. Highest point at ground level (Access to Patio Palace on D6007) „Monaco Statistics pocket – Edition 2014“ (PDF). Monaco Statistics – Principality of Monaco. Afrit (PDF) af uppruna á 17. desember 2014. Sótt 30. mars 2015.
  52. „Highest and lowest points in countries islands oceans of the world“. Worldatlas.com. Afrit af uppruna á 24. ágúst 2011. Sótt 6. september 2012.
  53. „Monaco“. Google Maps. Sótt 6. september 2012.
  54. 54,0 54,1 „Plan General De La Principaute De Monaco“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 28. maí 2012. Sótt 28. maí 2012.
  55. 55,0 55,1 Robert BOUHNIK (19. október 2010). „Home > Files and Reports > Public works > 2002 Archives — Extension of "La Condamine Port"(Gb)“. Cloud.gouv.mc. Sótt 22. mars 2012.[óvirkur tengill][óvirkur tengill]
  56. Samuel, Henry (28. desember 2009). „Monaco to build into the sea to create more space“. The Daily Telegraph. London. Afrit af uppruna á 10. júlí 2018. Sótt 22. mars 2012.
  57. Robert Bouhnik (19. október 2010). „Home > Files and Reports > Public works(Gb)“. Cloud.gouv.mc. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. desember 2012. Sótt 22. mars 2012.
  58. „Royal Opinions – Social, Political, & Economical Affairs of Monaco“. Royalopinions.proboards.com. Afrit af uppruna á 27. nóvember 2012. Sótt 22. mars 2012.
  59. „Monaco remet sur le tapis le projet d'extension en mer“. Econostrum.info. Afrit af uppruna á 6. mars 2012. Sótt 22. mars 2012.
  60. "Monaco va s'étendre de 6 hectares sur la mer entre l'anse du Portier et le Grimaldi Forum" (article, infos and map)“. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. apríl 2013. Sótt 19. september 2022.
  61. 61,0 61,1 „Presentation“. Ports-monaco.com. 1. janúar 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. júní 2012. Sótt 22. mars 2012.
  62. Archived at Ghostarchive: „Prince Albert of Monaco interview on fishing issues“. YouTube. 30. júní 2011. Sótt 22. mars 2012.
  63. „Monaco“. State.gov. 16. nóvember 2011. Afrit af uppruna á 14. ágúst 2021. Sótt 22. mars 2012.
  64. „Politics“. Monaco-IQ. Afrit af uppruna á 6. apríl 2012. Sótt 28. maí 2012.
  65. „History « Consulate General of Monaco“. Monaco-Consulate.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. júní 2012. Sótt 28. maí 2012.
  66. „Monaco: Government“. GlobalEdge.msu.edu. 4. október 2004. Afrit af uppruna á 10. júlí 2012. Sótt 28. maí 2012.
  67. 67,0 67,1 67,2 „Monaco“. Freedom House. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. nóvember 2012. Sótt 28. maí 2012.
  68. 68,0 68,1 „Deux listes pour une mairie“. Monaco Hebdo. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. maí 2013. Sótt 15. apríl 2013.
  69. Mairie de Monaco. „Les élus“. La Mairie de Monaco. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. maí 2013. Sótt 15. apríl 2013.
  70. „Le Conseil Communal – Mairie de Monaco“. La Mairie de Monaco. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. janúar 2013. Sótt 15. apríl 2013.
  71. „Élections communales à Monaco: vingt-quatre candidats en lice“. nicematin.com. Afrit af uppruna á 6. júní 2013. Sótt 15. apríl 2013.
  72. La justice à Monaco Geymt 2 desember 2021 í Wayback Machine: "Les deux chefs de la cour d’appel, le premier président et le procureur général, sont des magistrats français."
  73. „Monaco Statistics office“. Monacostatistics.mc. Afrit af uppruna á 4. mars 2016. Sótt 3. ágúst 2017.
  74. „Monaco Population 2021 (Demographics, Maps, Graphs)“. Afrit af uppruna á 19. október 2021. Sótt 22. október 2021.
  75. „General Population Census 2008: Population Recensee et Population Estimee“ (PDF) (franska). Government of the Principality of Monaco. 2008. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 14. júní 2011. Sótt 7. október 2011.
  76. „CIA World Factbook, Monaco“. Cia.gov. Afrit af uppruna á 30. desember 2021. Sótt 28. maí 2012.
  77. „International Rankings of Monaco - 2018“. Theodora.com. Afrit af uppruna á 4. júlí 2018. Sótt 4. júlí 2018.