Konungsríkið Aragónía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki konungsríkisins Aragóníu.

Konungsríkið Aragónía var sjálfstætt ríki á Pýreneaskaga á miðöldum og náði yfir nokkurn veginn sama svæði og sjálfstjórnarhéraðið Aragon á Spáni gerir nú.

Aragónía var upphaflega frankneskt lén umhverfis borgina Jaca. Á fyrri hluta 8. aldar varð það lénsríki konungsríkisins Pamplóna (seinna Navarra) en greifaættin sem réði því dó út árið 922 og Navarrakonungar yfirtóku það.

Þegar Sancho 3., konungur Navarra, dó árið 1035 var ríki hans skipt milli sona hans. Óskilgetni sonurinn Ramíro fékk Aragóníu en átti þó að vera settur undir García bróður sinn, sem fékk Navarra og Baskaland. Gonzalo bróðir þeirra fékk greifadæmin Sobrarbe og Ribargorza en þegar hann var drepinn eignaðist Ramíro lönd hans, sameinaði Aragóníu og tókst að öðlast sjálfstæði í reynd frá García. Flestir kölluðu hann konung en sjálfur titlaði hann sig ævinlega Ramíro, son Sanchos konungs.

Hver sem staða Aragóníu var meðan Ramíro lifði varð ríkið ótvírætt sjálfstætt konungsríki eftir dauða hans. Sonur hans náði Navarra undir sig og voru afkomendur hans konungar beggja ríkjanna í rúm fimmtíu ár en þá varð Navarra sjálfstætt að nýju. Aragónía stækkaði líka smátt og smátt til suðurs með því að vinna lönd af Márum. Höfuðstaðurinn færðist frá Jaca suður til Huesca 1096 og síðan til Zaragoza 1118.

Eftir að Petrónilla, drottning Aragóníu, gekk að eiga Ramon Berenguer 4., greifa af Barcelona, árið 1150 varð Ríkjasambandið Aragónía til og náði það ekki aðeins yfir konungsríkið Aragóníu, heldur einnig Katalóníu og seinna Majorka og nálægar eyjar, Valensíu, Sikiley, Napólí og Sardiníu. Þetta samband var þó fremur laust í reipunum og stækkaði og skrapp saman á víxl. Þjóðhöfðinginn, konungur Aragóníu, var í raun það eina sem ríkjasambandið átti sameiginlegt.

Ríkjasambandið leystist upp eftir að Ferdínand 2., konungur Aragóníu, giftist Ísabellu 1., drottningu Kastilíu, árið 1469 og ríkin sameinuðust en það var undanfari sameiningar Spánar undir einum þjóðhöfðingja. Eftir það hélt Aragónía þó vissu sjálfstæði allt til 1707.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimild[breyta | breyta frumkóða]