Fara í innihald

Ullur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af Ulli á skíðum og með boga í íslensku handriti frá 18. öld.

Ullur (gotneska: *Wulþuz) er guð í norrænni og germanskri goðafræði sem tengdur er við bogfimi og skíðamennsku. Hann virðist hafa verið mikilvægt goðmagn í heiðnum trúarbrögðum á ármiðöldum en lítið er fjallað um hann í rituðum heimildum. Hann virðist að mestu hafa fallið í gleymsku áður en Snorri Sturluson og aðrir höfundar fóru að rita goðsagnirnar niður á tólftu og þrettándu öld.

Í Gylfaginningu, sem skrifuð er á þrettándu öld, er Ullur sagður sonur Sifjar og stjúpsonur Þórs. Snorri skrifar þar um Ull:

Ullur heitir einn, sonur Sifjar, stúpsonur Þórs. Hann er bogmaður svo góður og skíðfær svo að enginn má við hann keppast. Hann er fagur álitum og hefur hermanns atgervi. Á hann er og gott að heita í einvígi.[1]

Í Skáldskaparmálum telur Snorri nokkrar kenningar fyrir Ull. Þar stendur: „Hvernig skal kenna Ull? Svá, at kalla hann son Sifjar, stjúp Þórs, öndurás, bogaás, veiðiás, skjaldarás.“[2]

Í Grímnismálum í Sæmundareddu má finna fleiri vísanir í Ull. Þar kemur fram að Ullur búi á stað sem ber nafnið Ýdalir. Nafnið virðist vísa í ývið, sem var gjarnan notaður til að smíða veiðiboga. Því virðist nafnið á bústað Ullar vísa til stöðu hans sem bogaguðs.[3]

Fjölmörg örnefni í Svíþjóð og Noregi vísa til Ullar. Meðal staða sem bera nafn Ullar má nefna sveitarfélagið Ullensaker (Ullinsakrar) í fylkinu Akurshúsi í Noregi. Frá árinu 1979 hefur mynd af Ulli prýtt skjaldarmerki sveitarfélagsins.[4]

Í Skjálfandafljóti er Ullarfoss í Kinn í Suður-Þingeyjarsýslu. Honum gaf nafn Gnúpa-Bárður, landnámsmaður í Bárðardal. Annar Ullarfoss, minna þekktur, er í Svartá, sem rennur í Skjálfandafljót í Bárðardal.

Félagsheimilið Ýdalir er í Aðaldal.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Snorri Sturluson. „Gylfaginning“. Snerpa. Sótt 30. janúar 2019.
  2. „Skáldskaparmál“. Heimskringla.no. Sótt 30. janúar 2019.
  3. „Grímnismál“. Snerpa. Sótt 30. janúar 2019.
  4. „Nye kommunevåbener i Norden“ (norska). Norske Kommunevåpen. 1990. Sótt 30. janúar 2019.