Þjassi
Þjassi eða Þjazi er jötunn í norrænni goðafræði. Hann hindrar Hæni, Loka og Óðin í að elda sér uxa og nær að véla Loka til að hjálpa sér við að ræna Iðunni og gulleplum eilífrar æsku.[1] Kemst það upp og er Loki látinn bjarga henni aftur. Lýkur þeirri sögu með því að Skaði dóttir Þjassa kemur og ætlar að hefna föður síns, en æsir sannfæra hana um skaðabætur og í föðurgjöld átti Skaði að fá eiginmann úr röðum goða og ætlaði að fá Baldurs, og hitt að goðin áttu að fá hana til að hlægja. Þar sem hún gat aðeins valið eftir fótum varð henni að velja Njörð ("Þenna kýs ek. Fátt mun ljótt á Baldri."), en til hláturs gerði Loki að hann batt hreðjar sér við skegg geitar og toguðust þau á með háum skrækjum. Að auki gerði Óðinn henni það til yfirbótar að kasta augum Þjassa á himinninn og gerði af tvær stjörnur.
Faðir Þjassa er sagður Ölvaldi og bræður Þjassa eru Iði og Gangur, og skiftu þeir með sér arfi eftir Ölvalda með því að taka munnfylli af gulli hans.[2] Heimili Þjassa er nefnt Þrymheimur.[3]
Í Hárbarðsljóðum er það Þór sem hreykir sér af drápi Þjassa,[4] en í Lokasennu segist Loki hafa verið fremstur í drápi Þjassa.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Skáldskaparmál, erindi 2 og 3“. www.heimskringla.no. Sótt 11. desember 2023.
- ↑ „Skáldskaparmál, erindi 4“. www.heimskringla.no. Sótt 11. desember 2023.
- ↑ „Grímnismál, erindi 11“. www.snerpa.is. Sótt 10. desember 2023.
- ↑ „Hárbarðsljóð, erindi 19“. www.snerpa.is. Sótt 10. desember 2023.
- ↑ „Lokasenna, erindi 50“. www.snerpa.is. Sótt 10. desember 2023.