Fara í innihald

Loki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Loki er einnig íslenskt karlmannsnafn
Loki Laufeyjarson

Loki Laufeyjarson er afar fyrirferðarmikið goðmagn í norrænni goðafræði. Hann er sonur Laufeyjar og Fárbauta jötuns og er því af jötnaætt. Hann umgengst goðin mikið og blandaði eitt sinn blóði við Óðin sjálfan. Loki eignaðist þrjú hræðileg afkvæmi með tröllkonunni Angurboðu en kona hans var önnur. Hún hét Sigyn og eignaðist Loki tvo syni með henni.

Það hafa ekki fundist nein ummerki um að hann hafi nokkurs staðar verið tilbeðinn eða dýrkaður, enda hefur sárasjaldan hlotist gott úr því að treysta Loka. Loki er slægur og slunginn og er ásum oft til mikils ama. Af hrekkjum sínum og illvirkjum hefur Loki fengið mörg miður hugguleg viðurnefni til að mynda rógberi ásanna, frumkveði flærðanna og vömm allra goða og manna.

Í Eddukvæðum má finna Lokasennu sem segir frá rifrildi Loka við hin goðin og einnig segir hinn færeyski Loka Táttur frá því þegar Loki hjálpar mannfólkinu. Mest er að finna um Loka í Eddu Snorra Sturlusonar.

Loki og gjafir dverganna

[breyta | breyta frumkóða]

Sif hét kona Þórs, og var hún fríð ásýndum. Fallegast þótti hár hennar sem skein eins og skíra gull. Loki gerði sér eitt sinn að leik að klippa hár Sifjar, til að hrekkja hana og Þór. Er morgun rann sá Þór að Sif var hárlaus og þóttist hann vita hver var á bak við það. "LOKI!" kallaði hann. Sjá hvað þú gerðir! Hvernig dirfistu að klippa hár konu minnar! Á ég nú að eiga hárlausa konu?" Þór var eldmóður. "Hvað með að gefa henni hatt?" spurði Loki. "Ef þú finnur ekki leið til að ná hári Sifjar aftur, þá skal ég mölva í þér alla liði!" sagði Þór.

Fór Loki þá í Svartálfaheim. Hann vissi að hinir högu dvergar gætu skapað nýtt hár fyrir Sif, en hann myndi samt þurfa að sannfæra þá fyrst. Kom hann fyrst til bræðra er voru synir Ívalda dvergs. "Hafið þið heyrt fréttinar? Æsir munu halda keppni, til þess að sjá hverjir eru bestu smiðir heims og bræðurnir Brokkur og Sindri segja að þið, kveifirnar hafið ekki roð í þá!" sagði Loki. "Það er þeim einfeldingum líkt, að skora á syni Ívalda. Þeir eiga ekki roð í okkur!" sögðu synir Ívalda. "Gott og vel, en þið verðið að smíða þrjá hluti, og einn þeirra skal vera langt gullið hár." Því næst fór Loki til dverganna Brokks og Sindra."Þið munuð ekki trúa þessu! synir Ívalda segjast vera betri smiðir en þið, þeir segja að þið eigið ekki roð í þá!" sagði Loki. "Ekki roð í þá, ha? Synir Ívalda gætu ekki temprað sinn eigin sprella! En því ættum við að eyða tíma okkar í þá? Það er á allra vitorði að við séum betri!" Sögðu Brokkur og Sindri. "Nú? mér sýndist synir Ívalda vera þokkalegir! Ég þori að veðja mínum eigin haus að þeir eru betri!" Sagði Loki. Það leist dvergunum á og tóku þeir því áskoruninni.

Sá Loki að sonum Ívalda gekk vel með sína gripasmíði, en Brokkur og Sindri sem voru nú þegar búnir með tvö djásn og þriðja hið glæsilegasta, mikill og fagur hamar, var næstum því fullsmíðaður. Loki sá að með þessum hamri myndu Brokkur og Sindri sigra keppnina og hann vera í miklu klandri vegna loforðsins um höfuðið. En til að smíða hamarinn þurfti eldsmiðjan að haldast á réttu hitastigi. Brokkur sá til þess með því að pumpa físibelg. Breytti Loki sér í stóra mýflugu og stakk í hönd Brokks, en Brokkur hélt áfram að pumpa. Því næst stakk Loki hann í hálsinn. Brokkur rak upp kvalaóp en hélt áfram að pumpa. Að lokum stakk Loki augnlok Brokks svo fast að úr því blæddi og Brokkur neyddist til að hætta að pumpa. Hitabreytingin í smiðjunni olli því að skaftið brotnaði á hamrinum sem Sindri tempraði.

Nú rann upp stundin fyrir Goðin að dæma gjafir dverganna. Fyrst komu synir Ívalda og sýndu verkin sín. Sif var fengið nýtt gullið hár sem skein jafnvel bjartara en það fyrra, og var þeirrar náttúru að vaxa og haga sér að öllu leiti eins og venjulegt hár. Því næst var Óðni fært gullið spót er var nefnt Gungnir og var það búið göldrum svo það geigaði aldrei, en það kom Óðni vel þar sem hann var eineygður. að lokum var Frey fært langskip sem hægt var að brjóta saman þannig að það passaði í lófa.

Næst stigu Brokkur og Sindri fram með gjafirnar sínar. Óðni færðu þeir gylltan hring er margfaldaðist á sjö daga fresti og hét hringurinn Draupnir. Frey gáfu þeir gullhertan gölt er gat flogið og aldrei þreyst. Að lokum báru þeir fram mikinn hamar er þeir kölluðu Mjölni og færðu Þór. Með þessum hamri gat Þór kallað fram þrumur og eldingar og var hann þeim galdri gæddur að þegar honum var kastað, sneri hann alltaf til baka í hendur þess sem kastaði. En skeftið var of stutt, af völdum klækjabragða Loka, svo Þór gat aðeins mundað hann með annarri hendi, en ekki báðum. Fannst Þór það smávægilegur galli. Æsir voru sammála að Mjölnir væri besta gjöfin. Því sigruðu Brokkur og Sindri og þeir vildu nú innheimta loforð Loka og gera hann höfðinu styttri. En Loki var slægur og lumaði á bragði "Þið getið átt haus minn, svo lengi sem skaðið engan part háls míns. Ég veðjaði höfði mínu, engu öðru!" sagði hann, og því hélt hann haus. En Brokkur, æfur yfir vanefndunum, saumaði munn goðsins lokaðan. Loki fékk að gjalda fyrir hrekk sinn á endanum, en Æsir fengu mikil djásn.

Afkvæmi Loka

[breyta | breyta frumkóða]

Loki gat þrjú afkvæmi með tröllkonunni, Angurboðu, hvert öðru hryllilegra. Fyrst ber að nefna Miðgarðsorminn, risaslöngu sem umlykur hafið kringum Miðgarð. Þá Fenrisúlf, sem var ógnarstór og sterkur úlfur. Þriðja afkvæmi þeirra var Hel en hún ríkti yfir Niflheimi og tók við sálum þeirra sem dóu úr elli, veikindum eða á annan hátt sem ekki var hetjulegur dauðdagi í bardaga. Einnig átti Loki tvo syni með konu sinni Sigyn, þeir hétu Váli og Narfi.

Eitt afkvæmi Loka er enn ótalið en það er hinn áttfætti hestur Sleipnir. Þannig var að Æsir vildu víggirða Ásgarð með miklum múr. Kom bergrisi nokkur í dulargervi til ásanna og bauðst til að byggja múrinn í kringum Ásgarð. Sagðist hann vera besti smiður múra sem til væri og enginn gæti gert sterkari múr en hann. Sagðist hann myndu ljúka verkinu á aðeins þremur árstíðum. Að launum vildi hann fá himintunglin sól og mána og hönd hinnar fögru Freyju. Æsir sem vildu gjarnan fá múr, ræddu sín á milli tilboð smiðsins, en þóttu smiðurinn krefjast allt of hárra launa. Þá kvaðst Loki hafa ráð. Hann lagði til að í stað þess að smiðurinn fengi tvo vetur og eitt sumar til smíðanna, myndu þeir aðeins gefa honum eina árstíð, eða til sumardagsins fyrsta til að ljúka við að smíða múrinn. Ef honum tækist ekki að ljúka við múrinn innan þess tíma fengi smiðurinn ekkert að launum. Taldi Loki öruggt að smiðurinn myndi þá aðeins ná að ljúka við stærstan part múrsins, án þess að klára hann alveg, og eftir það yrði létt verk fyrir goðin að klára hann. Þá fengju þau múrinn ókeypis. Æsirnir efuðust um að hann myndi samþykkja svo stuttan tíma til smíðanna, en Loki taldi smiðinn stoltan, hrokafullan og drambsaman og hann myndi samþykkja.

Úr varð að smiðurinn gekkst við tilboði ásanna. Hann mátti enga hjálp fá, en mátti þó nota hest sinn, mikinn fák er hét Svaðilfari, til að bera grjót í múrinn. Hverja nóttu bar Svaðilfari stórt hlass af steinum til risans. Þannig skorti smiðinn aldrei steina og gat einblínt á byggingu múrsins. Þegar nær dró sumri sá Loki að smiður myndi klára verk sitt og varð þá hræddur mjög. Brá hann sér í líki hryssu svo hann gæti lokkað Svaðilfara, hest smiðsins í burtu. Er smiður sá að hann myndi ekki klára verk sitt rann í hann æði og æsir sáu að hann var jötunn. Kom þá Þór og banaði Þursanum. Seinna kom Loki aftur til Ásgarðs með áttfættan hest, er æsir nefndu Sleipni, en sagði ásum aldrei hvaðan hann kom.

Örlög Baldurs

[breyta | breyta frumkóða]

Loki var sá sem bar ábyrgð á dauða Baldurs. Goðin léku sér að því að kasta hlutum að Baldri því Frigg hafði komið því svo fyrir að ekkert beit á honum með því að taka loforð af öllu kviku og ókviku að það myndi aldrei skaða Baldur. Loki komst þó að því með klækjabrögðum að það eina sem ekki hafði lofað að skaða ekki Baldur var mistilteinn. Hann plataði Höð, hinn blinda ás. Loki fékk honum mistilteinsknippi, sem Höður skaut að Baldri, óafvitandi um hvað hann hafði undir höndum. Hæfði mistilteinninn Baldur í hjartað og hneig hann örendur niður. Einnig segir sagan að þegar æsir reyndu að ná Baldri aftur úr Helju með því að fá alla hluti heims til að gráta hann, þá hafi Loki dulbúið sig sem tröllkonuna Þökk en hún var sú eina sem neitaði að gráta. Baldur var því um kyrrt í Helju. Seinna uppgötvaði Váli, sonur Rindar, þriðju konu Óðins, að Höður hafði orðið Baldri að bana. Váli drap Höð vegna þess.

Loki hefur verið borinn saman við bragðarefi í ýmsum þjóðartrúarbrögðum, t.a.m. sléttuúlfinn (Coyote) í trúarbrögðum indíána Norður-Ameríku. Þá hefur honum verið líkt við Hermes, sem blekkti eitt sinn Apollon, slavneska guðinn Veles og hinn kínverska apakonung.