Gná

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gná (lengst til hægri) leggur af stað í sendiferð á Hófvarpni að tilskipun Friggjar á teikningu frá árinu 1902.

Gná er ásynja í norrænni goðafræði. Hún er sendiboði Friggjar og á hestinn Hófvarpni, sem getur riðið bæði yfir úthöfin og um háloftin.

Ritaðar heimildir um Gná[breyta | breyta frumkóða]

Í 35. kafla í Gylfaginningu í Snorra-Eddu er upptalning á fjórtán ásynjum og er Gná þar talin síðust. Þar segir um hana:

Fjórtánda Gná, hana sendir Frigg í ýmsa heima at erendum sínum. Hon á þann hest, er renn loft ok lög ok heitir Hófvarpnir. Þat var eitt sinn, er hon reið, at vanir nökkurir sá reið hennar í loftinu. Þá mælti einn:
„Hvat þar flýgr,
hvat þar ferr
eða at lofti líðr?“

Hon svarar:

„Né ek flýg,
þó ek ferk
ok at lofti líðk
á Hófvarpni,
þeim er Hamskerpir
gat við Garðrofu.“[1]

Samkvæmt lýsingunni á Gná í Gylfaginningu er orðið að „gnæfa“ dregið af nafni Gnár.

Túlkanir[breyta | breyta frumkóða]

Austurríski textafræðingurinn Rudolf Simek telur að túlkun Snorra Sturlusonar á nafni Gnár í Gylfaginningu kunni að vera röng, en sé svo er óvíst hvað nafn hennar þýðir í raun og veru. Stungið hefur verið upp á því að nafnið Gná sé í raun skylt orðinu „gnægð“ og að Gná sé þar með gyðja frjósemdar og allsgnægða.[2]

Á 19. öld benti Jacob Grimm á líkindi milli Gnár og rómversku gyðjunnar Fama, sem var talin holdgervingur orðróma. Grimm benti þó að ólíkt Fama sé Gná ekki vængjuð eða fleyg, heldur ríði hún fljúgandi hesti og bendir þar á líkindi við goðsagnahestinn Pegasus.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Snorri Sturluson. „Gylfaginning“. Snerpa. Sótt 4. mars 2019.
  2. Rudolf Simek: Lexikon der germanischen Mythologie (Kröners Taschenausgabe. Band 368). 3., völlig überarbeitete Auflage. Kröner, Stuttgart 2006, ISBN 3-520-36803-X.
  3. Jacob Grimm (1883). Deutsche Mythologie, 1. bindi. Dieterichsche Buchhandlung. bls. 896—897.