Fara í innihald

Útgarður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Útgarður nefndist heimili Útgarða-Loka, fjölkunnugs jötuns í norrænni goðafræði. Var Útgarður lengst í austri. Sagt er frá því í Snorra-Eddu þegar þrumuguðinn Þór fór til Útgarðs ásamt fylgisveini sínum, Þjálfa, og hinum viðsjárverða Loka Laufeyjarsyni. Þar lét Útgarða-Loki þá þreyta hinar ýmsu þrautir sem allar reyndust þeim um megn vegna fjölkynngi gestgjafans. Loki og Logi kepptu í kappáti, Þjálfi og Hugi áttust við í kapphlaupi og Þór þreytti þrjár þrautir; hann reyndi að tæma úr drykkjarhorni, lyfta ketti Útgarða-Loka og glíma við fóstru hans, Elli. Reyndist Útgarða-Loki hafa beitt brögðum og sjónhverfingum. Hafði Logi í raun verið eldur, Hugi var hugsun, vökvinn í drykkjarhorninu var úthafið mikla, kötturinn Miðgarðsormur og Elli var ellin. Er Útgarða-Loki fylgdi þeim út daginn eftir veisluna, voru þremenningarnir miður sín þar sem þeim hafði mistekist í öllum þrautunum. Opinberaði þá Útgarða-Loki þá brellur sínar og sagði þeim að hann hefði aldrei boðið þeim inn í heimkynni sín ef hann hefði vitað hversu öflugir þeir væru, því litlu hefði mátt muna að þeir leystu þrautirnar.