Atlantshafsbandalagið
| Atlantshafsbandalagið North Atlantic Treaty Organization Organisation du traité de l'Atlantique nord | |
|---|---|
Fáni | |
Aðildarríki (2024) sjást hér grænlituð. | |
| Skammstöfun | NATO (enska); OTAN (franska) |
| Einkennisorð | Animus in consulendo liber |
| Stofnun | 4. apríl 1949 |
| Gerð | Hernaðarbandalag |
| Höfuðstöðvar | |
| Meðlimir | |
| Opinber tungumál | Enska, franska |
| Framkvæmdastjóri | Mark Rutte |
| Yfirmaður hermálanefndarinnar | Giuseppe Cavo Dragone |
| Yfirmaður Evrópuherstjórnarinnar | Christopher G. Cavoli |
| Yfirmaður herstjórnarmiðstöðvarinnar | Pierre Vandier |
| Vefsíða | www.nato.int |
Atlantshafsbandalagið (einnig NATO eða NATÓ eftir enskri skammstöfun á nafni þess: North Atlantic Treaty Organisation; eða OTAN eftir franskri skammstöfun á heiti þess: l'Organisation du traité de l'Atlantique nord) er hernaðarbandalag með 32 aðildarríki þar sem 30 eru í Evrópu og 2 í Norður-Ameríku. Bandalagið var stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldar við upphaf kalda stríðsins. Skrifað var undir stofnsáttmála bandalagsins í Washington D.C. 4. apríl 1949. Kjarninn í stofnsáttmála bandalagsins er að aðildarríki skuldbinda sig til að tryggja sameiginlegar varnir hvers annars ef utanaðkomandi aðili ræðst á eitthvert þeirra. Þetta er inntak 5. greinar samningsins þar sem kveðið er á um að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll.
Fimmta greinin var hugsuð til að gera Sovétríkjunum það ljóst að innrás inn í Vestur-Evrópu jafngilti stríðsyfirlýsingu við Bandaríkin og allan hernaðarmátt þeirra. Á móti stofnuðu Sovétríkin ásamt bandamönnum sínum í Austur-Evrópu Varsjárbandalagið. Hernaðarbandalögin tvö léku síðan aðalhlutverk í kalda stríðinu og því vígbúnaðarkapphlaupi og kjarnorkuvopnavæðingu sem einkenndu það. Innrás Sovétmanna í Vestur-Evrópu varð aldrei að veruleika. Eftir upplausn Sovétríkjanna árið 1991 breyttist hlutverk bandalagsins, sem hóf sína fyrstu stóru hernaðaríhlutun í Bosníu og Hersegóvínu (1992-1995) og Júgóslavíu (1995). 5. grein NATO-samningsins var virkjuð í fyrsta sinn 12. september 2001 eftir hryðjuverkaárás á Bandaríkin. Það leiddi til hernaðaríhlutunar í Afganistan með Alþjóðaliðinu. Bandalagið hefur síðan þá tekið þátt í ýmsum aðgerðum, eins og herþjálfun Írakshers og herlögreglu Íraks, hernaðaraðgerðum í Líbíu 2011, og baráttu gegn sjóránum í Sómalíu.
Frá lokum kalda stríðsins hafa sextán aðildarríki bæst við, þar á meðal fyrrum aðildarríki Varsjárbandalagsins og fyrrum sovétlýðveldi. Atlantshafsbandalagið hefur átt í margvíslegu samstarfi við Rússland, en rússneskir ráðamenn hafa sagt útþenslu bandalagsins í austur vera ógn við öryggishagsmuni Rússlands. Rússland er andsnúið mögulegri aðild Úkraínu að NATO. Innlimun Rússlands á Krímskaga 2014 vakti hörð viðbrögð frá bandalaginu sem lagði aukna áherslu á sameiginlegar varnir aðildarríkjanna. Innrás Rússa í Úkraínu 2022 fékk NATO til að efla varnir á austurlandamærum bandalagsins. Hún olli því líka að Finnland og Svíþjóð hurfu frá hlutleysisstefnu sinni og sóttu um aðild að bandalaginu. Atlantshafsbandalagið lítur á Úkraínu, Bosníu og Hersegóvínu og Georgíu sem umsóknarríki.
Höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins eru í Brussel í Belgíu, en Herstjórnarmiðstöð NATO í Evrópu er nálægt Mons. Samanlagt ráða aðildarríki NATO yfir herstyrk sem nemur 3,5 milljón hermönnum og borgaralegu starfsfólki. Samanlögð fjárframlög þeirra til hernaðarmála nema rúmlega helmingi af samanlögðum hernaðarútgjöldum allra ríkja heims. Árið 2025 samþykktu öll aðildarríkin að verja hvert um sig 5% af landsframleiðslu til varnarmála.[1]
Aðildarríki
[breyta | breyta frumkóða]
Albanía (2009)
Bandaríkin (1949) [a]
Belgía (1949) [a]
Bretland (1949) [a]
Búlgaría (2004)
Danmörk (1949) [a]
Eistland (2004)
Finnland (2023)[b]
Frakkland (1949) [a]
Grikkland (1952)
Holland (1949) [a]
Ísland (1949) [a]
Ítalía (1949) [a]
Kanada (1949) [a]
Króatía (2009)
Lettland (2004)
Litáen (2004)
Lúxemborg (1949) [a]
Norður-Makedónía (2020)
Noregur (1949) [a]
Portúgal (1949) [a]
Pólland (1999)
Rúmenía (2004)
Slóvakía (2004)
Slóvenía (2004)
Spánn (1982)
Svartfjallaland (2017)
Svíþjóð (2024)[b]
Tékkland (1999)
Tyrkland (1952)
Ungverjaland (1999)
Þýskaland (1955) [c]
- 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 Stofnfélagar (1949).
- 1 2 Svíþjóð og Finnland sóttu um aðild að bandalaginu eftir innrás Rússa í Úkraínu 2022. Finnland fékk inngöngu 4. apríl, 2023 og Svíþjóð 7. mars, 2024.
- ↑ Þýskaland gekk í sambandið sem Vestur-Þýskaland. Landsvæðið sem áður var Austur-Þýskaland varð hluti af NATÓ með sameiningu þýsku ríkjanna árið 1990.
Aðild Íslands
[breyta | breyta frumkóða]Lög um inngöngu Íslands í NATO voru samþykkt á Alþingi, 30. mars 1949. Þau voru mjög umdeild og talsverðar óeirðir urðu í sambandi við samþykkt þeirra á Austurvelli.[2] Andstæðingar NATO-aðildar kröfðust þjóðaratkvæðis um þetta mikilvæga mál en ekki var orðið við því. Hins vegar var því lofað að aldrei yrði erlendur her á íslenskri grundu á friðartímum. NATO ásamt Bandaríkjaher rak Keflavíkurherstöðina á Miðnesheiði frá 1951 til 2006.
Fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu var stofnuð árið 1952, þegar Atlantshafsráðið var stofnað með höfuðstöðvar í París. Höfuðstöðvarnar og fastanefndin fluttu til Brussel árið 1967.[3] Árið 1966 var ráðinn sérstakur upplýsingafulltrúi NATO á Íslandi. Magnús Þórðarson, fyrrum blaðamaður hjá Morgunblaðinu gegndi því starfi til dauðadags 1992. Hann var jafnframt stjórnarmaður í Varðbergi og Samtökum um vestræna samvinnu.[4][5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Defence expenditures and NATO's 5% commitment“. Nato. 27. ágúst 2025.
- ↑ Daníel Daníelsson (6. júní 1989). „Misminni frá marslokum 1949“. Morgunblaðið: 45.
- ↑ „Um fastanefndina“. Stjórnarráðið. Sótt 10.10.2025.
- ↑ „Barátta milli góðs og ills : NATO-Mangi slær ekki af“. Dagblaðið Vísir: 22–23. 23. maí 1987.
- ↑ Ómar Friðriksson (25. október 1984). „Það er enginn hlutlaus nema hóran“. Helgarpósturinn: 16–17.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Vefur Atlantshafsbandalagsins
- Fastanefnd Íslands hjá NATO.
- The Atlantic Community: Iceland. Heimildarmynd frá Atlantshafsbandalaginu um Ísland 1955.