ANZUS

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Heræfing á vegum ANZUS árið 1983.

ANZUS (skammstöfun fyrir „Australia, New Zealand, United States Security Treaty“) er samningur um varnarsamstarf Ástralíu, Nýja-Sjálands og Bandaríkjanna á Kyrrahafinu. Samningurinn var gerður 1. september árið 1951.

Samningurinn var einn af mörgum sem Bandaríkin gerðu frá 1949 til 1955 við upphaf Kalda stríðsins vegna þeirrar ógnar sem þau töldu stafa af kommúnisma. Upphaflega var samningurinn þríhliða en árið 1986 var Nýja-Sjáland rekið úr samstarfinu eftir að landið lýsti sig kjarnorkuvopnalaust svæði. Eftir það varð samningurinn aðeins tvíhliða milli Nýja-Sjálands og Ástralíu annars vegar og Ástralíu og Bandaríkjanna hins vegar. Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Ástralíu funda árlega í samræmi við ákvæði samningsins.

Bæði Ástralía og Nýja-Sjáland sendu hersveitir til að taka þátt í átökum vegna Malajauppreisnarinnar og Víetnamstríðsins. Bæði löndin sendu hermenn til þátttöku í Enduring Freedom-aðgerðinni í Afganistan 2001. Milli 1999 og 2005 áttu Nýja-Sjáland og Ástralía í hernaðarsamstarfi til að koma í veg fyrir hernaðaríhlutun Indónesíu eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á Austur-Tímor þar sem íbúar kusu sjálfstæði.