Valdaránið í Gvatemala 1954
Valdaránið í Gvatemala 1954 var leynileg aðgerð leyniþjónustu Bandaríkjanna CIA til að koma Jacobo Árbenz, lýðræðislega kjörnum forseta Gvatemala, frá völdum og koma í staðinn á einræðisstjórn herforingjans Carlos Castillo Armas. Aðgerðin var nefnd PBSUCCESS.
Byltingin í Gvatemala hófst árið 1944 þegar Jorge Ubico var steypt af stóli af almenningi og Juan José Arévalo tók við sem fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins. Nýi forsetinn stefndi að því að gera Gvatemala að frjálslyndu lýðræðisríki. Hann kom á lágmarkslaunum og almennum kosningarétti. Árbenz tók við af Arévalo árið 1951. Hann hóf jarðaumbætur sem komu landareignum í eigu fátækra bænda. Hann heimilaði einnig starfsemi Verkamannaflokks Gvatemala. Bandaríkjastjórn var uppsigað við þessar breytingar og litu svo á að landið væri að verða kommúnistaríki. Bandaríska stórfyrirtækið United Fruit Company sem varð fyrir skaða eftir því sem verkafólk fékk meiri réttindi reri einnig að því öllum árum að fá Bandaríkjastjórn til að hlutast til um stjórn landsins. Árið 1952 gaf Harry Truman heimild fyrir valdaránsaðgerðinni PBFORTUNE sem síðar var hætt við.
Dwight D. Eisenhower var kjörinn Bandaríkjaforseti 1952 meðal annars vegna harðari afstöðu hans gegn kommúnisma í Kalda stríðinu. Utanríkisráðherra Eisenhowers, John Foster Dulles, vann fyrir United Fruit Company og bróðir hans Allen Dulles, var gerður að yfirmanni Bandarísku leyniþjónustunnar, en hann sat jafnframt í stjórn United Fruit Company. Þeir studdu því afskipti af stjórn Gvatemala. Upplýsingar Bandaríkjastjórnar um kommúnista í innsta hring Árbenz forseta voru ýktar upp. Eisenhower gaf heimild fyrir aðgerðinni PBSUCCESS í ágúst 1953. Leyniþjónustan vopnaði og þjálfaði 480 menn undir stjórn Carlos Castillo Armas. Á sama tíma vann Bandaríkjastjórn að því að gagnrýna og einangra Gvatemala á alþjóðavettvangi. Lið Armas gerði innrás í Gvatemala 18. júní 1954. Um leið hófst áróðursstríð með útvarpsstöð sem sendi út áróður gegn stjórn Gvatemala og til stuðnings innrásarhernum. Loftárásir voru gerðar á Gvatemalaborg og landið sett í herkví. Innrásarhernum gekk illa í átökum við Gvatemalaher en áróðurinn hafði þau áhrif að draga úr baráttuvilja hersins og að lokum neitaði hann að berjast. Árbenz reyndi með litlum árangri að fá almenna borgara til að berjast fyrir sig. Hann sagði að lokum af sér 27. júní. Castillo Armas varð forseti tíu dögum síðar eftir samningaviðræður í San Salvador.
Valdaránið var harðlega gagnrýnt á alþjóðavettvangi og átti þátt í því að skapa andúð á Bandaríkjunum í Rómönsku Ameríku. Leyniþjónustan reyndi að réttlæta valdaránið með því að finna gögn um stuðning Sovétríkjanna við stjórn Árbenz með litlum árangri. Castillo Armas gerðist fljótlega einræðisherra, bannaði stjórnarandstöðuflokka og hneppti pólitíska andstæðinga í varðhald. Í kjölfarið fylgdi nær fjögurra áratuga borgarastyrjöld milli vinstrisinnaðra skæruliðahópa og hinna ýmsu herforingjastjórna sem nutu stuðnings Bandarísku leyniþjónustunnar. Ein afleiðing aðgerða þessara herforingjastjórna var þjóðarmorðið í Gvatemala þar sem um 170.000 majar voru drepnir.