Fara í innihald

Ulbricht-kenningin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Walter Ulbricht árið 1968.

Ulbricht-kenningin (nefnd eftir austur-þýska leiðtoganum Walter Ulbricht) var utanríkisstefna á tímum kalda stríðsins sem gerði ráð fyrir því að Austur-Þýskaland og Vestur-Þýskaland gætu ekki átt í eðlilegu stjórnmálasambandi nema með því skilyrði að bæði ríkin viðurkenndu fyrirvaralaust fullveldi hvers annars. Ulbricht-kenningin var á skjön við vestur-þýsku Hallstein-kenninguna, sem var byggð á þeirri stefnu að Vestur-Þýskaland væri eina lögmæta þýska ríkið og að viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Austur-Þýskalands væri með öllu óásættanleg.

Stjórn Austur-Þýskalands naut stuðnings annarra kommúnistaríkja á borð við Tékkóslóvakíu, Pólland, Ungverjaland og Búlgaríu fyrir stefnu sinni. Þessi ríki féllust öll á að eiga ekki í eðlilegu stjórnmálasambandi við Vestur-Þýskaland nema að undangenginni viðurkenningu þess á fullveldi Austur-Þýskalands.

Að endingu ákváðu stjórnvöld Vestur-Þýskalands að láta af Hallstein-kenningunni og tóku hennar í stað upp svokallaða Austurstefnu (þýska: Ostpolitik). Í desember árið 1972 gerðu Austur- og Vestur-Þýskaland með sér samning sem fól í sér gagnkvæma viðurkenningu á sjálfstæði beggja ríkjanna. Samningurinn gerði ríkjunum jafnframt kleift að skiptast á sendiráðum og að gerast fullgildir aðilar að Sameinuðu þjóðunum.