Kongódeilan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Belgískir fallhlífaliðar lenda í Kongó árið 1964.

Kongódeilan var tímabil pólitískrar óeirðrar og vopnaðra átaka í Lýðveldinu Kongó (þar sem í dag er Lýðstjórnarlýðveldið Kongó) frá 1960 til 1965. Deilurnar hófust nær umsvifalaust eftir að Kongó hlaut sjálfstæði frá Belgíu og lauk í reynd þegar allt landið var komið undir stjórn einræðisherrans Joseph-Desiré Mobutu. Kongódeilan var bæði hrina borgarastríða og leppstríð í kalda stríðinu þar sem Sovétríkin og Bandaríkin studdu stríðandi fylkingar móti hver annarri. Talið er að um 100.000 manns hafi látið lífið í deilunni.

Hið belgíska Kongó hlaut sjálfstæði frá Belgíu þann 30. júní 1960 þökk sé baráttu þjóðernishreyfinga sem kröfðust þess að nýlendustjórn yrði komið frá. Undirbúningurinn hafði verið lítill og lítið gert til að leysa ágreiningsmál um héraðsstjórn og sjálfsstjórn þjóðflokka innan Kongó. Í fyrstu viku júlímánuðar gerði herinn uppreisn og átök hófust á milli svartra og hvítra borgara. Belgar sendu hermenn til að vernda landflótta hvíta Kongóbúa og tvö svæði innan ríkisins, Katanga og Suður-Kasai, lýstu yfir sjálfstæði með stuðningi Belga. Í átökunum sendu Sameinuðu þjóðirnar friðargæslusveitir á svæðið en Dag Hammarskjöld aðalritari Sameinuðu þjóðanna neitaði að leyfa þeim að aðstoða ríkisstjórnina í Léopoldville með því að berjast við aðskilnaðarsinnana. Patrice Lumumba forsætisráðherra, leiðtogi stærstu þjóðernishreyfingarinnar, brást við með því að biðla til Sovétríkjanna um hjálp og fékk strax hjá þeim hernaðarráðgjafa og aðra aðstoð.

Inngrip Sovétmanna olli ágreiningi innan kongósku ríkisstjórnarinnar og sérstaklega á milli Lumumba og Joseph Kasa-Vubu forseta. Mobutu, sem stjórnaði hernum, batt enda á deilurnar með því að fremja valdarán, rak burt sovésku ráðgjafana og stofnaði nýja ríkisstjórn undir sinni forystu. Lumumba var fangelsaður og síðar tekinn af lífi árið 1961. Stuðningsmenn Lumumba undir forystu Antoine Gizenga stofnuðu sína eigin ríkisstjórn í Stanleyville undir nafninu „hið Frjálsa lýðveldi Kongó“ og hlutu stuðning Sovétmanna. Þeir buðu ósigur gegn Mobutu árið 1962. Sameinuðu þjóðirnar beittu sér með beinni hætti gegn aðskilnaðarsinnunum eftir að Hammarskjöld lést í flugslysi yfir Kongó árið 1961. Með aðstoð Sameinuðu þjóðanna sigraði ríkisstjórnin í Léopoldville aðskilnaðarsinnana í Katanga og Suður-Kasai snemma árs árið 1963.

Þegar Katanga og Suður-Kasai voru aftur komin undir stjórn ríkisstjórnarinnar var samin ný stjórnarskrá til málamiðlunar og leiðtoga Katangamanna, Moïse Tshombe, var boðið að leiða bráðabirgðastjórn á meðan nýjar kosningar voru undirbúnar. Áður en hægt var að halda kosningarnar gerðu maóskir skæruliðar sem kölluðu sig „Simbana“ uppreisn í austurhluta ríkisins. Simbarnir hertóku þónokkuð landsvæði og lýstu yfir stofnun hins kommúníska „Alþýðulýðveldis Kongó“ í Stanleyville. Her ríkisstjórnarinnar endurheimti smám saman landsvæðið og Belgía og Bandaríkin gripu inn í átökin í Stanleyville árið 1964 til að bjarga gíslum úr haldi Simbanna. Simbarnir voru þá sigraðir og stjórn þeirra hrundi stuttu síðar. Eftir kosningar árið 1965 kom upp pattstaða milli Tshombe og Kasa-Vubu sem lamaði ríkisstjórnina. Mobutu framdi því annað valdarán í nóvember 1965 og tók öll völd í eigin hendur. Undir stjórn Mobutu varð Kongó (sem Mobutu nefndi Saír árið 1971) að einræðisríki og varð það þar til Mobutu var steypt af stóli árið 1997.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

Heimild[breyta | breyta frumkóða]