Stríð Kína og Víetnam

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort sem sýnir innrásina.

Stríð Kína og Víetnam, einnig kallað Þriðja stríðið í Indókína, var stutt landamærastríð milli Alþýðulýðveldisins Kína og Víetnam snemma árs 1979. Ástæðan var innrás Víetnama í Kambódíu árið áður sem batt enda á yfirráð rauðu kmeranna sem Kínverjar studdu. Hin undirliggjandi ástæða, samkvæmt Henry Kissinger, var sú að Deng Xiaoping taldi afskipti Víetnama af Kambódíu vera hluta af tilraun Sovétmanna til að auka áhrif sín í Suðaustur-Asíu.

Stríðið hófst með innrás Kínverja 17. febrúar 1979. Markmiðið var að fá Víetnama til að draga herlið sitt frá Kambódíu til að styrkja varnirnar í Víetnam. Þetta mistókst og her Víetnama forðaðist bein átök við kínverska herinn en styrkti lið sitt í Hanoi. Þegar þetta varð ljóst ákváðu Kínverjar að draga lið sitt til baka og stríðinu lauk 16. mars. Bæði löndin lýstu yfir sigri. Kínverjum hafði mistekist að stöðva inngrip Víetnama í Kambódíu (þar sem þeir voru með setulið til 1989) en tekist að sýna fram á að Sovétríkin myndu ekki styðja Víetnam hernaðarlega með beinum hætti.

Þótt stríðið stæði stutt voru bardagar harðir í landamærahéruðunum hjá Cao Bằng, Lào Cai og Lạng Sơn. Tugþúsundir hermanna beggja aðila létu lífið í þessum átökum. Árekstrar héldu áfram við landamærin allt til 1989 þegar Víetnam samþykkti loks að draga herlið sitt frá Kambódíu. Stjórnmálatengsl landanna voru endurreist árið 1991. Árið 1999 gerðu ríkin samning um landamæri sín eftir áralangar viðræður.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.