Mark Rutte
Mark Rutte | |
---|---|
![]() | |
Forsætisráðherra Hollands | |
Núverandi | |
Tók við embætti 14. október 2010 | |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 14. febrúar 1967 Haag, Hollandi |
Þjóðerni | Hollenskur |
Stjórnmálaflokkur | Frelsis- og lýðræðisflokkurinn (VVD) |
Háskóli | Leiden-háskóli |
Undirskrift | ![]() |
Mark Rutte (f. 14. febrúar 1967) er hollenskur stjórnmálamaður sem hefur verið forsætisráðherra Hollands frá árinu 2010 og formaður Frelsis- og lýðræðisflokksins (VVD) frá árinu 2006.
Rutte, sem þá átti að baki feril í viðskiptageiranum, var skipaður samfélags- og atvinnumálaráðherra Hollands árið 2002 í ríkisstjórn Jans Peter Balkenende eftir að Frelsis- og lýðræðisflokkurinn gekk í stjórnarsamstarf með Kristilegum demókrötum. Rutte var síðan kjörinn á neðri deild hollenska þingsins árið 2003. Næsta ár varð hann menningar-, mennta- og vísindamálaráðherra. Eftir að Frelsis- og lýðræðisflokkurinn hlaut slæma útreið í héraðskosningum árið 2006 sagði flokksformaðurinn Jozias van Aartsen af sér. Rutte bauð sig fram til að taka við af honum og vann sigur í formannskjöri þann 31. maí. Hann sagði af sér sem ráðherra stuttu síðar. Rutte leiddi síðan flokkinn í þingkosningum fáeinum vikum síðar. Í kosningunum tapaði flokkurinn sex þingsætum en varð þó stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðunni.
Árið 2010 vann Frelsis- og lýðræðisflokkurinn flest atkvæði allra flokka og varð stærsti flokkurinn á hollenska þinginu í fyrsta sinn í sögu flokksins. Eftir langar stjórnarmyndunarviðræður tók Rutte við embætti forsætisráðherra Hollands þann 14. október. Hann var þá fyrsti frjálslyndi forsætisráðherra Hollands í 92 ár og næstyngsti forsætisráðherra í sögu landsins.[1]
Ríkisstjórn Rutte sprakk í apríl árið 2012 eftir að henni mistókst að ná fjárlagafrumvarpi sínu í gegnum þingið. Blásið var til kosninga en í kosningunum bætti Frelsis- og lýðræðisflokkurinn við sig þingsætum og stofnaði síðan nýja samsteypustjórn með Verkamannaflokknum. Stjórnin varð sú fyrsta frá árinu 1998 sem lauk kjörtímabili sínu. Í kosningum árið 2017 tapaði Frelsis- og lýðræðisflokkurinn þingsætum en var áfram stærsti flokkurinn á þinginu.[2] Eftir metlangar stjórnarmyndunarviðræður myndaði Rutte nýja stjórn ásamt Kristilegum demókrötum, Lýðræðisflokknum 66 og Kristilega bandalaginu. Rutte hóf þriðja kjörtímabil sitt sem forsætisráðherra þann 26. október 2017.
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ „Mark Rutte: eerste liberale premier sinds 1918“ (hollenska). eenvandaag.nl. 7. október 2010. Sótt 6. nóvember 2019.
- ↑ Róbert Jóhannsson (16. mars 2017). „Rutte segir Hollendinga hafna popúlisma“. RÚV. Sótt 6. nóvember 2019.
Fyrirrennari: Jan Peter Balkenende |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |