Mark Rutte
Mark Rutte | |
---|---|
![]() | |
Forsætisráðherra Hollands | |
Núverandi | |
Tók við embætti 14. október 2010 | |
Þjóðhöfðingi | Beatrix Vilhjálmur Alexander |
Forveri | Jan Peter Balkenende |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 14. febrúar 1967 Haag, Hollandi |
Þjóðerni | Hollenskur |
Stjórnmálaflokkur | Frelsis- og lýðræðisflokkurinn (VVD) |
Háskóli | Háskólinn í Leiden |
Undirskrift | ![]() |
Mark Rutte (f. 14. febrúar 1967) er hollenskur stjórnmálamaður sem hefur verið forsætisráðherra Hollands frá árinu 2010 og formaður Frelsis- og lýðræðisflokksins (VVD) frá árinu 2006.
Rutte, sem þá átti að baki feril í viðskiptageiranum, var skipaður samfélags- og atvinnumálaráðherra Hollands árið 2002 í ríkisstjórn Jans Peter Balkenende eftir að Frelsis- og lýðræðisflokkurinn gekk í stjórnarsamstarf með Kristilegum demókrötum. Rutte var síðan kjörinn á neðri deild hollenska þingsins árið 2003. Næsta ár varð hann menningar-, mennta- og vísindamálaráðherra. Eftir að Frelsis- og lýðræðisflokkurinn hlaut slæma útreið í héraðskosningum árið 2006 sagði flokksformaðurinn Jozias van Aartsen af sér. Rutte bauð sig fram til að taka við af honum og vann sigur í formannskjöri þann 31. maí. Hann sagði af sér sem ráðherra stuttu síðar. Rutte leiddi síðan flokkinn í þingkosningum fáeinum vikum síðar. Í kosningunum tapaði flokkurinn sex þingsætum en varð þó stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðunni.
Árið 2010 vann Frelsis- og lýðræðisflokkurinn flest atkvæði allra flokka og varð stærsti flokkurinn á hollenska þinginu í fyrsta sinn í sögu flokksins. Eftir langar stjórnarmyndunarviðræður tók Rutte við embætti forsætisráðherra Hollands þann 14. október. Hann var þá fyrsti frjálslyndi forsætisráðherra Hollands í 92 ár og næstyngsti forsætisráðherra í sögu landsins.[1]
Ríkisstjórn Rutte sprakk í apríl árið 2012 eftir að henni mistókst að ná fjárlagafrumvarpi sínu í gegnum þingið. Blásið var til kosninga en í kosningunum bætti Frelsis- og lýðræðisflokkurinn við sig þingsætum og stofnaði síðan nýja samsteypustjórn með Verkamannaflokknum. Stjórnin varð sú fyrsta frá árinu 1998 sem lauk kjörtímabili sínu. Í kosningum árið 2017 tapaði Frelsis- og lýðræðisflokkurinn þingsætum en var áfram stærsti flokkurinn á þinginu.[2] Eftir metlangar stjórnarmyndunarviðræður myndaði Rutte nýja stjórn ásamt Kristilegum demókrötum, Lýðræðisflokknum 66 og Kristilega bandalaginu. Rutte hóf þriðja kjörtímabil sitt sem forsætisráðherra þann 26. október 2017.
Ríkisstjórn Rutte sagði öll af sér þann 15. janúar 2021 eftir að upplýst var að á stjórnartíð hans hefðu um 26.000 fjölskyldur neyðst til að endurgreiða ríkinu barnabætur vegna falskra ásakana um að hafa svikið sér þær. Stjórnin sat þó áfram fram að kosningum sem haldnar voru þann 17. mars 2021.[3] Þrátt fyrir hneykslismálið vann flokkur Rutte flest atkvæði í kosningunum samkvæmt útgönguspám.[4]
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ „Mark Rutte: eerste liberale premier sinds 1918“ (hollenska). eenvandaag.nl. 7 October 2010. Sótt 6. nóvember 2019.
- ↑ Róbert Jóhannsson (16. mars 2017). „Rutte segir Hollendinga hafna popúlisma“. RÚV. Sótt 6. nóvember 2019.
- ↑ „Hollenska ríkisstjórnin segir öll af sér“. mbl.is. 15. janúar 2021. Sótt 16. janúar 2021.
- ↑ Eiður Þór Árnason (17. mars 2021). „Stefnir í annað kjörtímabil Mark Rutte þrátt fyrir hneykslismál“. Vísir. Sótt 18. mars 2021.
Fyrirrennari: Jan Peter Balkenende |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |