Ráðstefna um samband Asíuríkja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gandhi á ráðstefnunni árið 1947.
Tveir sendifulltrúar frá Tíbet við ráðstefnuna í Delí árið 1947 hlusta á Gandhi (lengst til vinstri) tala. Fyrir framan þá má sjá tíbeskan fána ásamt fánum annarra þátttökuríkja.

Ráðstefna um samband Asíuríkja var haldin í Nýju Delí í mars og apríl árið 1947. Gestgjafi ráðstefnunnar var Jawaharlal Nehru forsætisráðherra Indlands, sem leiddi á þessum tíma bráðabirgðastjórn til að undirbúa sjálfstæði Indlands, sem var staðfest þann 15. ágúst sama ár. Á ráðstefnunni um samband Asíuríkja komu saman margir leiðtogar asískra sjálfstæðishreyfinga og reynt var í fyrsta sinn að tala fyrir samstöðu Asíuríkja. Markmið ráðstefnunnar var að „sameina forystumenn og -konur Asíu í sameiginlegri stefnu til að rannsaka sameiginleg vandamál íbúa heimsálfunnar, rýna í samfélags-, efnahags- og menningarvandamál hinna ýmsu ríkja Asíu og ýta undir gagnkvæm samskipti og skilning meðal þeirra.“

Í ræðum sínum og ritum hafði Nehru lagt mikla áherslu á hvernig Indland myndi byggja upp sambönd sín við önnur Asíuríki eftir sjálfstæði sitt frá Bretum. Á ráðstefnunni sagði Nehru: „[...] Asía er nú á ný að finna sjálfa sig [...] ein helsta afleiðingin af evrópskum yfirráðum í Asíu hefur verið einangrun á meðal Asíuríkja. [...] Í dag ríður þessi einangrun til falls af ýmsum ástæðum, bæði pólitískum og annars kyns [...] Þessi ráðstefna er mikilvæg tjáning á dýpri vilja huga og anda Asíu sem hefur þraukað [...] Á þessari ráðstefnu og með þessari vinnu eru engir leiðtogar og engir fylgismenn. Öll ríki Asíu verða að koma saman til að inna af hendi sameiginleg verkefni [...]“[1][2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Pt. Jawaharlal Nehru's speech“. Asian Relations Conference 1947. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. febrúar 2012. Sótt 1. október 2019.
  2. Sharan, Shankar (ágúst 1997). „Fifty Years After the Asian Relations Conference“ (PDF). Tibetan Parliamentary & Policy Research Centre. Tibetan Parliamentary & Policy Research Centre. bls. 40. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 7. apríl 2014. Sótt 1. október 2019.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]