Fara í innihald

Gvadelúpeyjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Gvadelúp)
Guadeloupe
Gwadloup
Fáni Gvadelúpeyja Skjaldarmerki Gvadelúpeyja
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
La Marsellaise
Staðsetning Gvadelúpeyja
Höfuðborg Basse-Terre
Opinbert tungumál franska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Emmanuel Macron
Forseti héraðsráðs Ary Chalus
Handanhafshérað í Frakklandi
 • Frönsk nýlenda 1674 
Flatarmál
 • Samtals

1.628 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (2017)
 • Þéttleiki byggðar

390.253
240/km²
Gjaldmiðill evra
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .gp
Landsnúmer +590

Gvadelúpeyjar (franskur framburður: [ɡwadəlup], Antillísk kreólska: Gwadloup) er eyjaklasi í Karíbahafi, nánar tiltekið í Leewardeyjaklasanum (Hléborðaeyjum), og hluti af Litlu-Antillaeyjum. Eyjan er er eitt af handanhafshéruðum Frakklands. Það er hluti af Evrópusambandinu og gjaldmiðill þess er evra.

Kristófer Kólumbus lenti við eyjarnar í annarri ferð sinni 1493 og gaf þeim nafnið Santa María de Guadalupe de Extremadura eftir Maríulíkneski sem var í klaustri í Guadalupe í Extremadura á Spáni. Stærsta hérað og höfuðborg Gvadelúp er Basse-Terre. Íbúafjöldi er um 443 þúsund og umdæmið hefur þjóðarlénið .gp.

Kort sem sýnir staðsetningu Gvadelúp í Karíbahafi.

Frumbyggjar nefndu eyjarnar Karukera ( „eyja fallegra vatna“).

Kristófer Kólumbus nefndi eyjarnar Santa María de Guadalupe eftir Maríu frá Guadalupe, helgistað Maríu meyjar í bænum Guadalupe í Extremadúra á Spáni. Spænska heitið hélt sér eftir að eyjarnar urðu frönsk nýlenda, en með franskri stafsetningu. Eyjarnar eru kallaðar Gwada af heimafólki.[1]

Elstu ummerki um menn hafa fundist á eyjunni Marie-Galante og eru frá því um 3000 f.Kr. Aravakar hófu búsetu þar í byrjun fyrstu aldar og á 8. öld tóku Karíbar að setjast þar að.

Í nóvember 1493 kom Kristófer Kólumbus, í annarri ferð sinni til Ameríku, fyrstur Evrópubúa til Gvadelúp er hann steig þar á land til að leita ferskvatns. Leiðangurinn tók land rétt sunnan Capesterre, en enginn settist þar að.

Árið 1515 sendi Juan Ponce de León þrjú skip með 300 hermenn til að ná yfirráðum á eyjunum, en Karíbar sátu fyrir þeim og drápu þá alla. Spánverjar létu eyjarnar að mestu afskiptalausar eftir það.

Árið 1635 komu Jean du Plessis d'Ossonville og Charles Liènard de l'Olive til eyjarinnar með 150 menn, þar á meðal trúboða, til að stofna þar nýlendu á vegum Ameríkueyjafélagsins. Eftir mikla erfiðleika þar sem margir landnema létust úr sjúkdómum, settust eftirlifandi að nærri núverandi Vieux-Fort í suðurhlutanum, með aðstoð Karíbanna. Charles Liènard de l'Olive ákvað að segja þeim stríð á hendur, gegn ráði Du Plessis, til að komast yfir konur. Eftir það útrýmdu Frakkar nánast öllum frumbyggjum á eyjunni.

Innflutningur þræla frá Afríku til að vinna á sykurplantekrum hófst eftir 1640. 1649 eignaðist Charles Houël eyjarnar við skuldauppgjör Ameríkueyjafélagsins sem varð gjaldþrota árið eftir. Árið 1664 lentu plantekrurnar í vanda þegar Colbert tók upp sykurskatt á innfluttan sykur og sama ár tók Franska Vestur-Indíafélagið við stjórn nýlendunnar. Afrískum þrælum fjölgaði hratt á eyjunum eftir það. Árið 1674 varð félagið gjaldþrota og stjórn eyjanna komst í hendur Frakkakonungs.

Árið 1763 urðu Frakkar, eftir ósigur í Sjö ára stríðinu, að gefa Bretum eftir lönd í Kanada en fengu í staðinn Gvadelúp, sem Bretar höfðu náð á sitt vald í innrás á Gvadelúpeyjar árið 1759.

Þegar æðsti embættismaður Gvadelúp neitaði, í kjölfar Frönsku byltingarinnar árið 1790, að hlýða nýjum lögum um að frjálst litað fólk nyti sömu réttinda og hvítt reyndu konungssinnar þar að lýsa yfir sjálfstæði. Í átökunum við lýðveldissinna sem af þessu hlutust varð eldsvoði í Pointe-à-Pitre sem lagði þriðjung bæjarins í rúst. Baráttan milli konungssinna (sem vildu sjálfstæði) og lýðveldissinna (sem voru trúir byltingarstjórninni í Frakklandi), endaði með sigri konungssinna sem lýstu yfir sjálfstæði árið 1791. Konungssinnar neituðu að taka á móti nýjum landstjóra skipuðum í París 1792. Árið 1793 hófst þrælauppreisn sem neyddi yfirstéttina til að leita ásjár hjá Bretum og biðja þá að hernema eyjuna.

Bretar reyndu svo að nýta sér þetta með því að eigna sér Gvadelúpeyjar árið 1794 og náðu að halda þar völdum frá 21. apríl og fram í desember árið 1794, en þá fékk lýðveldissinnaði landstjórinn Victor Hugues Breta til að gefast upp. Hugues gaf þrælum eyjarinnar frelsi en þeir snerust þá gegn fyrrum þrælaeigendum sem réðu yfir sykurplantekrunum.

Þann 20. maí 1802 gaf Napóleon Bónaparte út lög sem endurreistu þrælahald í öllum frönskum nýlendum sem Bretar hertóku í frönsku byltingunni, en þau áttu þó ekki að gilda á tilteknum svæðum eins og Gvadelúp, Gvæjana og Haítí. Napóleon sendi samt herleiðangur til þess að heimta eyjuna úr höndum svartra uppreisnarmanna. Louis Delgrès og hópur uppreisnarmanna frömdu sjálfsmorð í hlíðum Matouba-eldfjallsins þegar ljóst var að innrásarliðið myndi ná yfirráðum á Gvadelúp. Innrásarliðið drap um það bil 10.000 Gvatelúpbúa í árásinni.

Bretar lögðu eyjarnar aftur undir sig 1810 en til að tryggja bandalag við Svía, létu þeir krónprins þeirra, Jean-Baptiste Bernadotte, eyjarnar eftir 1813. Með Parísarsáttmálanum 1814 fengu Frakkar eyjarnar aftur. Árið 1848 var svo þrælahald afnumið í öllum nýlendum Frakka. Eftir það hófu plantekrueigendur að flytja inn landbúnaðarverkafólk frá Indlandi og Kína.

Í síðari heimsstyrjöld óskaði héraðsþing Gvadelúp eftir því að berjast við hlið Bandamanna, en Robert aðmíráll, sem fór með yfirstjórn franska hersins á vesturhluta Atlantshafs, hafnaði því og skipaði eyjunum undir stjórn Vichy-stjórnarinnar. Árið 1943 lét hann af störfum og nýlendan var eftir það undir stjórn Þjóðfrelsisnefndar Frakklands.

Eftir stríð urðu Gvadelúp og Martinique handanhafsumdæmi. Umdæmi Gvadelúp náði líka yfir Saint-Martin og Saint-Barthélemy. Eftir stjórnarumbætur sósíalista 1982 fékk Gvadelúp sérstakt héraðsþing. Árið 2003 höfnuðu íbúar í þjóðaratkvæðagreiðslu tillögu um að Gvadelúp yrði sameinað handanhafslandsvæði (bæði hérað og sýsla með eitt þing).

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Gvadelúpeyjar eru 12 eyjar, auk hólma og skerja, þar sem Atlantshaf mætir Karíbahafi. Eyjarnar eru hluti Hléborðseyja sem eru norðurhluti Litlu Antillaeyja sem eru eyjabogi með eldfjallaeyjum að hluta. Norðan við þær er breska eyjan Monsterrat og sunnan við þær er Dóminíka.

Tvær stærstu eyjarnar eru Basse-Terre í vestri, og Grande-Terre í austri, aðskildar með mjóu sundi. Basse-Terre nær yfir meira en helming alls lands Gvadelúpeyja. Eyjan er fjalllend. Þar er hæsta eldfjall Litlu Antillaeyja, La Grande Soufrére, 1.467 metrar á hæð. Grande-Terre er hins vegar flatlend, með kletta við norðurströndina, ójafnar hæðir í miðju, og fenjaskóga í suðri þar sem einnig eru hvítar strendur varðar af kóralrifjum. Flestir ferðamannastaðir eyjanna eru þar.

Þriðja stærsta eyjan er Marie-Galante og þar á eftir La Désirade, kalksteinsklettur sem hallar í norðaustur. Hæsti punktur eyjarinnar er í 275 metra hæð. Í suðri eru Îles de Petite-Terre, tvær litlar eyjar sem eru samanlagt 2 ferkílómetrar að stærð.

Les Saintes eru eyjaklasi átta eyja. Þar af eru tvær byggðar (Terre-de-Bas og Terre-de-Haut). Landslag er svipað og á Basse-Terre.

Mikill fjöldi smáeyja er hluti af Gvadelúpeyjum.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. "Guadeloupe: These tiny islands are the French Caribban's greatest secret". CNN. Sótt 16. apríl 2019.


  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.