Fara í innihald

Susan B. Anthony

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Susan B. Anthony
Fædd15. febrúar 1820
Dáin6. mars 1906 (86 ára)
StörfKennari, aðgerðasinni
Þekkt fyrirStörf á sviði kvenréttinda.
TrúKvekari, síðar Únitari
ForeldrarDaniel Anthony & Lucy Read
Undirskrift

Susan Brownell Anthony (15. febrúar 1820 – 13. mars 1906) var bandarísk kvenréttindakona sem lék lykilhlutverk í baráttunni fyrir kosningarétti kvenna í Bandaríkjunum. Hún var dóttir kvekara og safnaði undirskriftum fyrir andstöðu við þrælahaldi þegar hún var sautján ára. Árið 1856 varð hún fylkisfulltrúi samtaka bandarískra þrælahaldsandstæðinga í New York.

Árið 1851 kynntist Anthony Elizabeth Cady Stanton og með þeim tókst ævilangur vinskapur. Þær börðust saman fyrir samfélagsumbótum, sérstaklega kvenréttindum. Árið 1852 stofnuðu þær bindindisfélag kvenna í New York-fylki eftir að Anthony var meinað að flytja ræðu á ráðstefnu bindindismanna vegna kyns síns. Árið 1863 stofnuðu þær samtökin Women's Loyal National League, sem safnaði tæpum 400.000 undirskriftum til stuðnings banns við þrælahaldi. Þetta var stærsta undirskriftasöfnun í Bandaríkjunum á þeim tíma. Árið 1866 stofnuðu þær bandarísku jafnréttissamtökin og töluðu með þeim fyrir jöfnum réttindum bæði kvenna og blökkumanna. Árið 1868 byrjuðu þær útgáfu kvenréttindablaðsins The Revolution. Næsta ár stofnuðu þær samtök um kosningarétt kvenna og sameinuðust árið 1890 öðrum slíkum samtökum. Árið 1876 hófu Anthony og Stanton að vinna ásamt Matildu Joslyn Gage að sex binda sagnfræðiriti um baráttu kvenna fyrir kosningarétti.

Árið 1872 var Anthony handtekin fyrir að greiða atkvæði í kosningum í heimabæ sínum, Rochester í New York-fylki. Hún var sakfelld eftir réttarhöld sem vöktu mikla athygli en hún neitaði að endingu að greiða sekt fyrir gjörninginn og yfirvöld ýttu ekki á eftir því. Árið 1878 kynntu þær Anthony og Stanton stjórnarskrárbreytingu fyrir bandaríska þinginu sem ætti að veita konum kosningarétt. Frumvarpið var kynnt á þinginu af þingmanninum Aaron A. Sargent og var kennt við Susan B. Anthony. Frumvarpið varð ekki að veruleika fyrr en með nítjánda viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna árið 1920.

Anthony ferðaðist vítt og breitt í baráttunni fyrir kosningarétti kvenna og flutti um 75 til 100 ræður á hverju ári. Hún vann með konum um allan heim og átti þátt í stofnun Alþjóðaráðs kvenna, sem starfar enn í dag. Hún tók einnig þátt í skipulagningu kvennaþingsins á Kólumbusarsýningunni í Chicago árið 1893.

Þegar Anthony byrjaði baráttu sína fyrir kvenréttindum var hún höfð að háði og spotti og sökuð um að vilja rústa heilagleika hjónabandsins. Almenningsálit á henni gerbreyttist á ævi hennar og þegar hún varð 80 ára hélt William McKinley forseti henni afmælisveislu í hvíta húsinu. Anthony varð fyrsta konan sem birtist á bandarískum gjaldmiðli þegar andlit hennar var sett á eins dollara mynt árið 1979.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]