Fara í innihald

Vaglaskógur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gamla bogabrúin frá 1908 og Vaglaskógur. Myndin er tekin í júlí 2015
Gamla bogabrúin frá 1908 og Vaglaskógur
Vaglaskógur á Íslandskortinu
Vaglaskógur - séð til tjaldsvæða austur yfir Fnjós
Vaglaskógur - séð til tjaldsvæða austur yfir Fnjóská
Ærslabelgur er hluti af fjölbreytilegum leiktækjum og aðstöðu til leikja og útivistar sem finna má í Vaglaskógi.
Góður dagur á tjaldsvæðunum í Vaglaskógi
Góður dagur á tjaldsvæðunum í Vaglaskógi. Myndin er tekin í Flatagerði, syðsta tjaldsvæðinu í skóginum þar sem rúmt er um ferðavagna, gott aðgengi að rafmagni o.fl.
Greni og birki í Vaglaskógi
Birki, hvítgreni og stafafura í fjölbreyttum skógi

Vaglaskógur er skógur í Fnjóskadal, Suður-Þingeyjarsýslu, einn stærsti skógur landsins. Skógurinn er þjóðskógur í umsjón Skógræktarinnar. Vaglaskógur meðal fjölsóttustu skóga á Íslandi. Stærð skóglendisins er um 4,5 ferkílómetrar. Þúsundir ferðamanna koma í skóginn á hverju ári til að njóta þar dvalar og útiveru, enda er Vaglaskógur tilvalinn til útivistar að sumri sem vetri. Í Vaglaskógi eru fjölbreyttar gönguleiðir, alls um 12,2 km að lengd. Þær eru merktar og fáanlegt er gönguleiðakort af skóginum. Í Vaglaskógi hafa lengi verið rekin tjaldsvæði og kjósa margir að dvelja þar með tjöld sín og ferðavagna yfir sumarið. Norðan við hann er Hálsskógur sem eyddist upp á fyrri öldum vegna beitar og skógarhöggs. Skógurinn komst í eigu Skógræktarinnar þegar stofnunin var sett á fót árið 1908 en nokkru áður hafði íslenska ríkið keypt jörðina Vagli og þar með skóginn. Á Vöglum er starfstöð skógarvarðarins á Norðurlandi og þar rekur Skógræktin fræræktarhús, frægeymslu og fræsölu. Einnig eru stundaðar þar rannsóknir, einkum kynbætur á nytjatrjátegundum.

Staðsetning[breyta | breyta frumkóða]

Vaglaskógur er um miðbik Fnjóskadals, austan Fnjóskár. Þaðan er einungis 18km leið til Akureyrar um Vaðlaheiðargöng.

Fnjósk og vagl[breyta | breyta frumkóða]

Nafnorðið fnjóskur (eða hnjóskur) þýðir þurr og feyskinn trjábolur. Heitið Fnjóskadalur gefur hugmynd um hvernig umhorfs hefur verið í dalnum við landnám. Trúlega hefur verið mikill stórvaxinn birkiskógur í dalnum og janframt mikið af gömlum og feysknum birkitrjám sem féllu til við eðlilega hringrás skógarins. Nafnorðið vagl í heiti skógarins er víða um land notað sem staðarheiti, til dæmis um gnæfandi klett. Gamli bærinn á Vöglum er einmitt uppi á hárri og brattri hæð þaðan sem víðsýnt er og Vaglabærinn sést því víða að. Karlkynsorðið vagl var einnig haft um þvertré eða rafta í húsþökum.

Útivist[breyta | breyta frumkóða]

Vaglaskógur er með fjölsóttustu skógum landsins. Hann er skipulagður til útivistar með merktum göngustígum. Þar eru vinsæl tjaldsvæði og fjöldi sumarhúsa í nágrenninu. Í skóginum er skemmtilegt trjásafn með fjölda tegunda. Þá leggja margir leið sína í Vaglaskóg til að tína sveppi og ber eða til plöntuskoðunar. Sveppir gegna veigamiklu hlutverki í skógum og skógrækt enda útvega þeir trjánum næringu en gegna líka hlutverki í náttúrlegum hringrásum þegar dautt lífrænt efni er brotið niður. Gott dæmi úr Vaglaskógi er kúalubbi sem myndar svepprót með birki og fjalldrapa. Það hjálpar plöntunum að afla sér vatns og steinefna en sveppurinn þiggur í staðinn næringu frá trjánum. Í Vaglaskógi er að finna ýmsa aðra bragðgóða matsveppi, svo sem kóngsvepp, lerkisvepp, furusvepp og fleiri tegundir. Hrútaber dafna líka vel á sólríkum og skjólgóðum stöðum í skóginum s.s. í gras- og blómabrekkum, í gisnu kjarri eða birkiskógi.

Sagan[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Skógræktin tók til starfa 1. janúar 1908 fékk hún í vöggugjöf Hallormsstaðaskóg og Vaglaskóg auk umsjónar með ræktuðum smáreitum á Þingvöllum og að Grund í Eyjafirði. Danskir frumkvöðlar að skógrækt sem störfuðu á landinu kringum aldamótin 1900 höfðu komið auga á verðmæti Vaglaskógar og þegar Skógræktin tók við skóginum höfðu þegar verið settar upp litlar girðingar til undirbúnings gróðrarstöðvar þar. Skógræktin hófst þegar handa við að friða skóginn í heild.

Ræktun Vaglaskógar[breyta | breyta frumkóða]

Birkið í Vaglaskógi er að jafnaði beinvaxnara og hávaxnara en í flestu öðru birkiskóglendi á landinu. Þar er að finna hæsta villta birkitré sem fundist hefur á landinu, um 15 metra hátt. Þegar Skógræktin tók við skóginum var haldið áfram þeim nytjum sem hafðar höfðu verið af skóginum sem fólust einkum í eldiviðar- og kolagerð.

Meðferðin á birkiskóginum miðast fyrst og fremst við að viðhalda honum, sérstaklega með stakfellingu. Þá eru stök tré, yfirleitt þau elstu hverju sinni á hverju svæði, felld án þess að í skóginum myndist veruleg rjóður. Trén endurnýja sig svo með teinungi upp af stúfnum. Við þessa meðferð myndast misaldra skógur með 2-4 aldursflokkum trjáa eftir því hversu oft hafa verið felld tré á hverju svæði. Þessari aðferð hefur nú verið beitt í Vaglaskógi i heila öld, lengur en birkitré lifa að jafnaði. Allan þennan tíma hefur skógurinn vaxið og dafnað án þess að gestir hafi tekið eftir kynslóðaskiptum á trjánum. Sjálfbærar nytjarnar hafa líka gert skóginn aðgengilegri til útivistar.

Afgirt svæði Vaglaskógar hefur tvisvar verið stækkað til norðurs út á Hálsmela eða hinn forna Hálsskóg. Í kjölfarið hefur vaxið upp birkiskógur af sjálfu sér með sjálfsáningu. Einnig hefur verið gróðursett lerki og stafafura. Þar sem síðar var stækkað hefur aðallega verið ræktað lerki með tilstyrk Landgræðsluskóga. Þar hefur örfoka sandauðn breyst í skóg á fáeinum áratugum og nytjar eru þegar hafnar. Vaglaskógur hefur nú tvöfaldast að flatarmáli og nær nú að þjóðvegi 1 austan Fnjóskár. Innan svæðisins sem síðast var friðað eru birkileifar norðan í Hálsmelum sem hafa tekið mikið við sér eftir friðunina. Þar er dæmi um óhreyfðan, villtan frumskóg birkis sem ekki verður hreyft við. Vegfarendur taka eftir talsverðri útbreiðslu birkis norðan þjóðvegar 1 einnig, þegar ekið er yfir Fnjóskárbrú til austurs. Þar er birkið líka í mikilli framför beggja vegna Fnjóskár, sömuleiðis austur um Ljósavatnsskarð og víða um Fnjóskadal og Dalsmynni. Þessu veldur minnkandi sauðfjárbeit og hlýnandi veðurfar.

Gróðursettar hafa verið um 700.000 plöntur í Vaglaskóg og Hálsmela frá upphafi, alls af 26 ólíkum tegundum.

Bogabrúin[breyta | breyta frumkóða]

Bogabrúin yfir Fnjóská sem liggur yfir í Vaglaskóg er fyrsta steinbrú sinnar tegundar hér á landi. Brúna hannaði og reisti danska fyrirtækið Christiani & Nielsen árið 1908. Var hún þá lengsti steinbogi á Norðurlöndum, 54,8 metrar. Upphaflega var hún aðeins ætluð fyrir ríðandi menn og hestvagna og burðarþolið áætlað um 5 tonn. Svo fór þó að hún var notuð fyrir almenna bílaumferð til ársins 1968. Þá var hún leyst af hólmi af nýrri brú nokkru neðar og umferð á hana takmörkuð við létta umferð. Loks var henni lokað fyrir bílaumferð árið 1993 og mannvirkið fært í sitt upprunalega horf af hálfu Vegagerðarinnar. Þetta var gert vegna sérstöðu mannvirkisins svo það mætti standa sem minnisvarði um gamla verkmenningu og áfanga í íslenskri samgöngusögu.

Fágætar lífverur í Vaglaskógi[breyta | breyta frumkóða]

Nokkrar sérlega fágætar lífverur hafa fundið sér samastað í Vaglaskógi og hér er greint stuttlega frá nokkrum þeirra.

Plöntur[breyta | breyta frumkóða]

Vaglaskógur er eini þekkti fundarstaður engjakambjurtar (Melampyrum pratense) á Íslandi en næsti fundarstaður hennar er á Hjaltlandseyjum. Vísbendingar eru um að engjakambjurt hafi vaxið lengi í Vaglaskógi.[1] Nánasti ættingi engjakambjurtar úr íslensku flórunni, krossjurt (M. sylvaticum), finnst einnig í Vaglaskógi og á nokkrum svæðum Vestfjarða.[2]

Í Vaglaskógi hefur balsamþinur verið gróðursettur. Hann þrífst almennt illa á Íslandi en vex hægt og rólega í ríflega hálfrar aldar reit í trjásafni Skógræktarinnar í Vaglaskógi.[3] Ýmsar fleiri trjátegundir er að finna í skóginum.

Fléttur[breyta | breyta frumkóða]

Vaglaskógur er annar tveggja fundarstaða grástiku, lítillar gráleitrar fléttu sem er á válista á Íslandi sem tegund í bráðri útrýmingarhættu (CR).[4] Fyrir utan að vaxa í Vaglaskógi finnst grástika einnig í Egilsstaðaskógi.[5]

Sveppir[breyta | breyta frumkóða]

Nokkrir smásæir sveppir eru aðeins þekktir á Íslandi úr Vaglaskógi. Þar sem þeir koma almenningi sjaldan fyrir sjónir hafa fæstir þeirra hlotið íslensk heiti en eru merkilegir engu að síður. Þessir sveppir eru Stemonitis fusca sem vex á fúastubbum af ilmbjörk og kvistum og föllnu laufi víðis.[6] Sveppurinn Perichaena chrysosperma hefur fundist á sölnuðu birkilaufi[6] og Trematosphaeria pertusa, smásæ tegund af svartkornsætt (Melanommataceae) á viði birkis.[6] Þar að auki eru tveir sveppir sem talið er að finnist í Vaglaskógi en greining þeirra er óviss. Þetta eru Neotapesia saliceti, tegund af doppuætt (Dermateaceae), sem talið er að hafi fundist á greinum gulvíðis og Rhizophlyctis chitinophila sem var einangraður úr mold af væng kakkalakka.[6]

Vor í Vaglaskógi[breyta | breyta frumkóða]

Ekki hefur dregið úr frægð Vaglaskógar ljóðið fallega sem Kristján frá Djúpalæk orti um skóginn og Jónas Jónasson útvarpsmaður samdi við lagið sem oftast er sungið. Ljóðið vísar aftur til þeirra gömlu daga þegar skógar voru fáir á Íslandi og fólk fór í skóginn til að njóta allra þeirra kosta sem dvöl og útivist í skógi hefur að gefa sál og líkama.

Kvöldið er okkar og vor um Vaglaskóg.
Við skulum tjalda í grænum berjamó.
Leiddu mig vinur í lundinn frá í gær,
lindin þar niðar og birkihríslan grær.

Leikur í ljósum
lokkum og angandi rósum,
leikur í ljósum
lokkum hinn fagnandi blær.

Daggperlur glitra, um dalinn færist ró.
Draumar þess rætast, sem gistir Vaglaskóg.
Kveldrauðu skini á krækilyngið slær.
Kyrrðin er friðandi, mild og angurvær.

Leikur í ljósum
lokkum og angandi rósum,
leikur í ljósum
lokkum hinn þaggandi blær.


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Pawel Wasowicz, Snæbjörn Pálsson, Andrzej Pasierbiński, Mariusz Wierzgoń, Erling Ólafsson, Starri Heiðmarsson & Ewa Maria Przedpelska-Wasowicz (2018). Alien or native? Examining a case of Melampyrum pratense in Iceland. Polar Biology 41, 1725-1735.
  2. Hörður Kristinsson (2008). Íslenskt plöntutal - blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Íslands nr. 51. 58 bls.
  3. Þintegundir Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine Skógræktin. Skoðað 3. janúar, 2017
  4. Náttúrufræðistofnun Íslands (1996). Válisti 1: Plöntur. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands.
  5. Hörður Kristinsson. Íslenskar fléttur. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. ISBN 978-9979-66-347-8
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 Helgi Hallgrímsson & Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir (2004). Íslenskt sveppatal I - smásveppir. Geymt 17 október 2020 í Wayback Machine Fjölrit Náttúrufræðistofnunar. Náttúrufræðistofnun Íslands. ISSN 1027-832X

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]