Hvalveiðar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Hvalveiðibátar liggja við festar í höfninni í Reykjavík

Hvalveiðar eru veiðar á hvölum. Slíkar veiðar hafa verið stundaðar frá örófi alda en náðu hámarki á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar vegna mikillar eftirspurnar eftir lýsi sem unnið var úr hvalspiki, þá gengu veiðarnar mjög nærri mörgum hvalategundum. Í seinni tíð hafa hvalveiðar þó aðallega verið stundaðar vegna kjötsins. Alþjóðahvalveiðiráðið var stofnað 1946 til að hafa stjórn á hvalveiðum á heimsvísu. Árið 1986 bannaði ráðið svo allar hvalveiðar í atvinnuskyni en harðar deilur hafa staðið um bannið allar götur síðan. Undanþága frá því var þó veitt vegna svokallaðra vísindaveiða og einnig vegna veiða frumbyggja.

Nú á dögum eru hvalveiðar stundaðar af nokkrum ríkjum:

  • Norðmenn höfðu uppi fyrirvara við samþykkt bannsins og voru því ekki bundnir af því. Þeir hófu veiðar í atvinnuskyni á ný árið 1993.
  • Ólíkt Noregi hafði Ísland engan fyrirvara við bannið þegar það var sett, fram til 1989 stunduðu Íslendingar þó nokkrar vísindaveiðar. Þegar ljóst varð að ráðið var ekki á því að leyfa takmarkaðar veiðar í atvinnuskyni gekk Ísland úr því í mótmælaskyni. Landið gekk þó aftur í ráðið árið 2002 en þá með fyrirvara við bannið sem andstæðingar hvalveiða í ráðinu töldu ólöglegan. Vísindaveiðar hófust aftur 2003. Íslendingar hófu hvalveiðar í atvinnuskyni á ný árið 2006, á hverju ári má nú veiða 300 hvali, 150 langreyðar og 150 hrefnur, færa má 25% kvótans milli ára. Þess má geta að langreyður er á lista IUCN yfir dýr í útrýmingarhættu.
  • Japan gerði upphaflega fyrirvara við bannið en féll frá honum 1987 vegna hótana Bandaríkjanna og eru Japanir því bundnir af banninu. Sama ár hófust umdeildar vísindaveiðar sem staðið hafa síðan en hvalveiðiandstæðingar kalla þær aðeins yfirvarp fyrir veiðar sem raunverulega séu í atvinnuskyni.
  • Nokkrar undanþágur hafa verið veittar frá banninnu vegna veiða frumbyggja. Grænlendingar eru langumfangsmestir á því sviði. Frumbyggjahópar í Bandaríkjunum (Alaska), Indónesíu, Kanada, Karíbahafi og Rússlandi njóta einnig þessarar undanþágu.
  • Veiðar Færeyinga á grindhval kallast grindadráp.

Hvalveiðar á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Hvalveiðar í atvinnuskyni á Íslandi hófust aftur, að einhverju leyti haustið 2006. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra gaf leyfi til að veiða 39 langreyðar, en fáir markaðir eru fyrir hvalaafurðir svo að ekki er ljóst hvort framhald verður á veiðunum.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]