Hvalveiðar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Hvalveiðibátar liggja við festar í höfninni í Reykjavík

Hvalveiðar eru veiðar á hvölum. Slíkar veiðar hafa verið stundaðar frá örófi alda en náðu hámarki á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar vegna mikillar eftirspurnar eftir lýsi sem unnið var úr hvalspiki, þá gengu veiðarnar mjög nærri mörgum hvalategundum. Í seinni tíð hafa hvalveiðar þó aðallega verið stundaðar vegna kjötsins. Alþjóðahvalveiðiráðið var stofnað 1946 til að hafa stjórn á hvalveiðum á heimsvísu. Árið 1986 bannaði ráðið svo allar hvalveiðar í atvinnuskyni en harðar deilur hafa staðið um bannið allar götur síðan. Undanþága frá því var þó veitt vegna svokallaðra vísindaveiða og einnig vegna veiða frumbyggja.

Nú á dögum eru hvalveiðar stundaðar af nokkrum ríkjum:

 • Norðmenn höfðu uppi fyrirvara við samþykkt bannsins og voru því ekki bundnir af því. Þeir hófu veiðar í atvinnuskyni á ný árið 1993.
 • Ólíkt Noregi hafði Ísland engan fyrirvara við bannið þegar það var sett, fram til 1989 stunduðu Íslendingar þó nokkrar vísindaveiðar. Þegar ljóst varð að ráðið var ekki á því að leyfa takmarkaðar veiðar í atvinnuskyni gekk Ísland úr því í mótmælaskyni. Landið gekk þó aftur í ráðið árið 2002 en þá með fyrirvara við bannið sem andstæðingar hvalveiða í ráðinu töldu ólöglegan. Vísindaveiðar hófust aftur 2003. Íslendingar hófu hvalveiðar í atvinnuskyni á ný árið 2006, á hverju ári má nú veiða 300 hvali, 150 langreyðar og 150 hrefnur, færa má 25% kvótans milli ára. Þess má geta að langreyður er á lista IUCN yfir dýr í útrýmingarhættu.
 • Japan gerði upphaflega fyrirvara við bannið en féll frá honum 1987 vegna hótana Bandaríkjanna og eru Japanir því bundnir af banninu. Sama ár hófust umdeildar vísindaveiðar sem staðið hafa síðan en hvalveiðiandstæðingar kalla þær aðeins yfirvarp fyrir veiðar sem raunverulega séu í atvinnuskyni.
 • Nokkrar undanþágur hafa verið veittar frá banninnu vegna veiða frumbyggja. Grænlendingar eru langumfangsmestir á því sviði. Frumbyggjahópar í Bandaríkjunum (Alaska), Indónesíu, Kanada, Karíbahafi og Rússlandi njóta einnig þessarar undanþágu.
 • Veiðar Færeyinga á grindhval kallast grindadráp.

Hvalveiðar við Ísland[breyta | breyta frumkóða]

Hvalir voru verðmætt veiðifang frá því að fólk kom undir sig fótum á Íslandi. Framan af nýttu Íslendingar fyrst og fremst hvali til sjálfsþurftar og eru fjölmargar heimildir til um hvalreka í jarðsölubréfum svo og í máldögum kirkja og klaustra. Enda voru hvalrekavonir mikils metnar fyrr á tíð.[1] Í fornleifauppgrefti á Bæ við Salthöfða í Öræfum, sem lagðist í eyði árið 1362, fundust leifar lýsisbræðslu. Ekki er þó vitað hvort lýsið sem unnið var með væri úr hákarli, hval, sel eða sjávarfuglum.[2] Íslendingar fóru hins vegar ekki að veiða hvali í atvinnuskyni fyrr en um miðbik 20. aldar og lengst af voru það erlendar þjóðir sem veiddu hvali við Íslandsstrendur. Fyrst voru það Baskar á 17. öld og þaðan af og Norðmenn á 19. öld.

Hvalveiðar Baska við Íslandsstrendur á 17. öld[breyta | breyta frumkóða]

Beykihúsið sem fannst við fornleifauppgröft á Strákatanga. Séð frá suðaustri.

Áður fyrr var talið að erlendir hvalveiðimenn hefðu ekki byggt landstöðvar á Íslandi og stundað þar lýsisbræðslu. Fornleifarannsóknir hafa þó sýnt að Baskar reistu þrjár slíkar á Vestjörðum á 17. öld, þ.e. á Kóngsey, Strákatanga og Strákey.[3] Á árunum 2005-2010 fór fram fornleifauppgröftur á hvalveiðistöðinni á Strákatanga og komu þá í ljós leifar beykihúss, geymslu, íveruhúss, smiðju, og lýsisbræðslu frá 17. öld auk tveggja kumla frá víkingaöld.[4] Fornleifarannsókn neðansjávar sýndi að víkin austan megin hafi verið hagstæð viðlegupláss fyrir skip og sennilega hafa hvalveiðimenn legið þar í höfn.[5]

Við lok 17. aldar fundu Baskar upp aðferð við að bræða lýsi um borð hvalveiðiskipa og þurftu þess vegna ekki lengur landstöðvar fyrir hvalveiðar.[6] Og munu því, að mestu, hafa hætt að hafa viðkomu á Íslandi eftir það.

Hvalveiðar Norðmanna við Vestfirði á 19. öld[breyta | breyta frumkóða]

Hvalbein neðansjávar við hvalveiðistöð Norðmanna á Dvergasteinseyri í Álftafirði.

Þónokkrar þjóðir veiddu hvali á Norður-Atlantshafi á 19.öld, t.d. Bandaríkjamenn, Hollendingar og Norðmenn. Þessar þjóðir reyndu allar að veiða hvali kringum Ísland en svo fór að Norðmenn voru eina þjóðin sem veiddu hvali við Ísland til langframa. Ástæðan var sú að Norðmaðurinn Svend Foyn tvinnaði saman hraða gufubáta og þá aðferð að pumpa lofti í hvali eftir að þeir höfðu verið skutlaðir svo að þeir flutu, en með þeim hætti var mögulegt að veiða hraðsyndari og stærri hvali en áður. Aðferð Svend Foyn var byltingarkennd og átti eftir að breyta hvalveiðum til framtíðar. Upp frá því var hægt að veiða mun fleiri hvali en mögulegt var að verka á hvalveiðiskipum svo hlutverk landstöðva í verkvinnslu hvala varð aftur þýðingarmikið.[7]

Norðmenn hófu hvalveiðar við Ísland árið 1883. Fyrst byggðu þeir átta hvalveiðistöðvar á Vestfjörðum en á einum áratug áttu þeir eftir að ganga svo nærri hvalastofnum við Vestfirði að fáir voru eftir á miðunum svo að þeir færðu sig um set til Austurlands í von um betri veiðar.[8]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Trausti Einarsson. (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939, bls. 35-36
 2. Bjarni F. Einarsson. (2007). Bær við Salthöfða: Eyðibýli í Öræfum. IV, bls 8.
 3. Ragnar Edvardsson. (2015). The Strákatangi Whaling Project in Strandasýsla: An Archaeological Site in the Westfjords. Í Xabier Irujo og Viola G. Miglio (ritstj.), Basque Whaling in Iceland in the XVII century: Legal Organization, Cultural Exchange and Conflicts of the Basque Fisheries in the North Atlantic, bls. 325-328.
 4. Ragnar Edvardsson og Magnús Rafnsson. (2012). Hvalveiðar útlendinga á 17. öld: Fornleifarannsóknir á Strákatanga 2005-2010, bls. 153-154.
 5. Ragnar Edvardsson og Magnús Rafnsson. (2012). Hvalveiðar útlendinga á 17. öld: Fornleifarannsóknir á Strákatanga 2005-2010, bls. 160.
 6. Trausti Einarsson. (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939, bls. 19.
 7. Trausti Einarsson. (1987). Hvalveiðar við Ísland 1600-1939, 45-46.
 8. Gylfi Björn Helgason. (2015). Hvalveiðar Norðmanna við Vestfirði á 19. öld, 19.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist