Sif

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sif (1909) eftir John Charles Dollman

Sif er gyðja kornakra í norrænni goðafræði og slegið glampandi hár hennar gáraðist um herðar henni eins og fullþroska hveiti á akri. Á eftir Freyju var Sif fegurst allra goðanna. Í fornum kveðskap var haddur (hár) Sifjar kenning fyrir gull sem skýrist af því að eitt sinn klippti Loki Laufeyjarson allt hár af Sif og hótaði Þór eiginmaður hennar honum öllu illu ef hann léti svartálfa ekki búa til nýtt hár úr gulli handa Sif.

Fjölskyldutengsl og heimili[breyta | breyta frumkóða]

Sif er kona þrumuguðsins Þórs og býr með honum í höll hans, Bilskirni, í ríkinu Þrúðvöngum. Í Bilskirni voru 540 herbergi og var stærst allra húsa sem menn kunnu skil á. Börn Þórs og Sifjar eru Þrúður og Móði. Sif er ekki móðir Magna en Þór átti hann með jötunmeynni Járnsöxu.

Sif á hinsvegar soninn Ull með fyrri eiginmanni. Ullur var bæði góður bogamaður og skíðamaður. Hann var fagur og hafði hermanns atgervi og gott var að heita á hann í einvígi.

Hvernig Sif fékk gullhárið[breyta | breyta frumkóða]

Nótt eina var hrekkjalómurinn Loki eirðarlaus og langaði að bregða á leik. Hann laumaðist inn í svefnherbergi Sifjar, en Þór eiginmaður hennar var í burtu að berja tröll. Sif lá í fastasvefni og sítt og fagurt hár hennar flæddi niður úr rúminu. Loki gekk upp að henni og klippti hljóðlega allt hárið af Sif og flýtti sér svo í burtu með hárflétturnar með sér. Á leiðinni út um gluggann missti hann hinsvegar annan ilskóinn sinn. Þegar Sif vaknaði og uppgötvaði hvað hafði gerst, emjaði hún af skelfingu. Þór þekkti hins vegar ilskóinn og sá að þar hafði Loki verið að verki. Hann var svo reiður að hann ætlaði að drepa hrekkjalóminn. Loki baðst miskunnar og lofaði að fara til svartálfa og fá þá til að búa til gullhadd (haddur: hár) handa Sif og aðra dýrgripi handa hinum goðunum. Loki fór þá til dverganna Ívaldasona sem bjuggu í Svartálfaheimi en þeir voru eins og allir dvergar miklir list- og handverksmenn. Á skömmum tíma bjuggu þeir til handa Sif hinn fegursta gullhadd sem Loki hafði nokkurn tímann séð. Auk þess smíðuðu þeir spjótið Gungni handa Óðni (hann hafði þann eiginleika að nema ekki staðar fyrr en hann færi í fast efni) og skipið Skíðblaðni handa Frey (það hafði alltaf byr þegar segl kom á loft en mátti vefja saman sem dúk og hafa í pungi). Upp frá því bar Sif ávallt hár gert úr gulli.

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu