Regína Ósk Óskarsdóttir
Regína Ósk | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fædd | Regína Ósk Óskarsdóttir 21. desember 1977 Reykjavík, Ísland |
Störf |
|
Ár virk | 1999–í dag |
Stefnur | |
Hljóðfæri |
|
Meðlimur í | Eurobandið |
Regína Ósk Óskarsdóttir (f. 21. desember 1977) er íslensk söngkona. Hún tók þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 2008 sem meðlimur Eurobandsins með lagið „This Is My Life“.
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Tvö ár í röð vann Regína söngkeppnina sem haldin var í félagsmiðstöðinni Árseli. Þá var hún 14 ára gömul en upp frá því var hún einsöngvari í skólakórnum í Árbæjarskóla út grunnskólagönguna. Því næst lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð.
Með skólanum lærði hún söng í Söngskóla Reykjavíkur og lauk þaðan 3 stigum á einu ári. Samtímis söng hún með sönghóp sem kallaður var Söngsystur. Þessi sönghópur kom fram við hin ýmsu tækifæri s.s á árshátíðum, í afmælum og í brúðkaupum. Söngsystur vöktu athygli á Hótel Íslandi þegar sett var saman söngskemmtun með ýmsum lögum, bæði erlendum og innlendum, og voru þær fengnar til þess að syngja í þessari sýningu. Sýningin var kölluð „Bítlaárin“ og ásamt þeim Söngsystrum sungu þar Björgvin Halldórsson, Pálmi Gunnarsson, Bjarni Arason og fleiri. Sýningin var mjög vinsæl og gekk á annað ár.
Regína tók þátt í söngkeppni MH 1996 og vann hana og fór þar með í lokakeppni Söngvakeppni framhaldsskólanna sem var haldin í fyrsta skipti í Laugardalshöllinni. Þar lenti hún í 2. sæti. Hún útskrifaðist sem stúdent 1997, frá Menntaskólanum við Hamrahlíð.
Fjórar úr Söngsystrum tóku sig til og fengu til liðs við sig fjóra hljóðfæraleikara og stofnuðu hljómsveitina 8-villt. Regína söng með henni í 2 ár og kom hljómsveitin fram út um allt land; þar á meðal var hún ein aðalhljómsveitin á Þjóðhátíð í Eyjum 1998. Eftir það sagði Regína skilið við hljómsveitina og snéri sér að öðrum verkefnum.
Regína nam við FÍH og lærði djasssöng í tæplega 1 ár hjá Tenu Palmer. Árið 1999 fékk Regína tækifæri á að komast í prufu í Borgarleikhúsinu fyrir Litlu hryllingsbúðina sem var verið að setja upp. Hún fékk hlutverk sem ein af götustelpunum ásamt Selmu Björnsdóttur og Heru Björk og var sýningin sýnd 65 sinnum. Regína tók einnig þátt í næsta söngleik sem settur var upp en það var Kysstu mig Kata.
Árið 2001 tók hún þátt, ásamt Gospelkompaníinu, í Landslagi Bylgjunnar og söng þar lag eftir Jon Kjell Seljeseth sem heitir „Right There“ og lentu þau í 2. sæti. Þetta sama ár fór hún sem bakraddasöngkona í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Kaupmannahöfn með laginu „Angel“. Regína fór síðan í annað skiptið út í Eurovision árið 2003 með Birgittu Haukdal. Árið 2005 fór hún út með Selmu Björnsdóttur með lagið „If I Had Your Love“. Árið 2006 varð Regína Ósk í öðru sæti í undankeppninni hérlendis með lagið „Þér við hlið“. Regína Ósk ásamt Friðriki Ómari sem saman mynda Eurobandið, sigruðu árið 2008 með laginu „This Is My Life“. Þau kepptu saman í Eurovision í Belgrad í Serbíu og urðu fyrst Íslendinga til að komast upp úr undankeppninni frá því að slíkt keppnisfyrirkomulag var tekið upp árið 2004.
Regína Ósk hefur sungið inn á hinar ýmsu plötur bæði sem sóló og bakrödd með öllum fremstu tónlistarmönnum landsins.
Útgefið efni
[breyta | breyta frumkóða]Plötur
[breyta | breyta frumkóða]- Regína Ósk (2005)
- Í djúpum dal (2006)
- Ef væri ég (2007)
- This Is My Life (2008) (Eurobandið)