Fara í innihald

Hvíta-Rússland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hvítarússland)
Lýðveldið Hvíta-Rússland
Рэспу́бліка Белару́сь
Respúblíka Bjelarús
Fáni Hvíta-Rússlands Skjaldarmerki Hvíta-Rússlands
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Við Hvít-Rússar
Staðsetning Hvíta-Rússlands
Höfuðborg Minsk
Opinbert tungumál hvítrússneska, rússneska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Alexander Lúkasjenkó
Forsætisráðherra Roman Golovtsjenkó
Sjálfstæði frá Sovétríkjunum
 • Yfirlýst 27. júlí 1990 
 • Viðurkennt 25. ágúst 1991 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
85. sæti
207.595 km²
0,26
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
93. sæti
9.491.800
46/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 195 millj. dala (69. sæti)
 • Á mann 20.820 dalir (64. sæti)
VÞL (2018) 0.817 (50. sæti)
Gjaldmiðill hvítrússnesk rúbla
Tímabelti UTC +3
Þjóðarlén .by
Landsnúmer +375

Hvíta-Rússland eða Belarús[1][2] (hvítrússneska: Белару́сь, Biełaruś; rússneska: Белару́сь - áður: Белору́ссия) er landlukt ríki í Austur-Evrópu. Það á landamæri að Póllandi í vestri, Litáen í norðvestri, Lettlandi í norðri, Rússlandi í austri og Úkraínu í suðri. Höfuðborg Hvíta-Rússlands er Minsk en aðrar stórar borgir eru Brest, Grodno, Gomel, Mogilev, Vitebsk og Bobruisk. Um þriðjungur landsins er þakinn skógi. Þjónusta og iðnaður eru helstu atvinnugreinar landsins.

Fram á 20. öld skiptist landið milli annarra ríkja eins og Furstadæmisins Polotsk, Stórhertogadæmisins Litáen og Rússneska keisaradæmisins. Eftir Rússnesku byltinguna lýsti Hvíta-Rússland yfir sjálfstæði sem Sovétlýðveldið Hvíta-Rússland sem varð fyrsta sambandslýðveldi Sovétríkjanna. Stór hluti af núverandi landamærum Hvíta-Rússlands urðu til þegar Sovétríkin gerðu innrás í Pólland árið 1939. Eftir herfarir Þjóðverja og Sovétmanna í Síðari heimsstyrjöld var landið sviðin jörð og hafði missti meira en þriðjung íbúanna. Landið byggðist hægt upp aftur eftir stríðið. Í kjölfar Tsjernóbylslyssins 1986 varð Hvíta-Rússland fyrir mikilli geislamengun. Landið lýsti yfir sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1990 og tók upp nýja stjórnarskrá árið 1994. Í forsetakosningum það ár komst Alexander Lúkasjenkó til valda. Hann lengdi kjörtímabil forseta úr fimm árum í sjö og stjórn hans hefur síðan í vaxandi mæli orðið einræðisstjórn. Hvíta-Rússland er eina land Evrópu sem viðheldur dauðarefsingu.

Helstu útflutningsvörur Hvíta-Rússlands eru unnar olíuafurðir, áburður og landbúnaðarvélar. Atvinnulíf er miðstýrt og að stórum hluta í ríkiseigu. Stærstur hluti íbúa býr í borgum landsins. Um 60% aðhyllast einhvers konar trúarbrögð, aðallega rússneskan rétttrúnað, en lítill hluti aðhyllist rómversk-kaþólska trú. Yfir 70% íbúa tala rússnesku sem er annað opinbert tungumál landsins en aðeins rúm 10% tala hvítrússnesku.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Hvíta-Rússland liggur á milli 51. og 57. gráðu norður og 23. og 33. gráðu austur. Landið er 560 km langt frá norðri til suðurs og 650 km frá austri til vesturs. Hvíta-Rússland er landlukt land, tiltölulega flatlent með stórum mýrum. Um 40% landsins eru þakin skógi.

Um 11.000 stöðuvötn og mikill fjöldi áa eru í landinu. Helstu fljót sem renna um Hvíta-Rússland eru Nemanfljót, Pripjatfljót og Dnjepr. Nemanfljót rennur út í Eystrasalt en Pripjatfljót rennur út í Dnjepr sem rennur út í Svartahaf.

Hæðin Dsjarsjinskaja Hara er hæsti punktur landsins. Hún er aðeins 345 metra yfir sjávarmáli. Lægsti punkturinn er í Nemanfljóti, 90 metra yfir sjávarmáli. Hvíta-Rússland er að meðaltali 160 metrar yfir sjávarmáli. Veðurfar er á mörkum úthafsloftslags og meginlandsloftslags. Vetur eru kaldir eða svalir þar sem lægsti hiti í janúar er milli - 4° og -8°. Sumrin eru svöl og rök með um 18° meðalhita. Meðalársúrkoma er milli 550 og 700 mm.

Náttúruauðlindir í Hvíta-Rússlandi eru meðal annars mór, lítið eitt af náttúrulegum gas- og olíulindum, mergill, kalksteinn, sandur, grús og leir. Um 70% af geisluninni úr Tsjernobylslysinu lenti á Hvíta-Rússlandi og um fimmtungur landbúnaðarlands varð fyrir geislun. Sameinuðu þjóðirnar og fleiri aðilar hafa unnið að því að draga úr geislavirkni á þessum svæðum, meðal annars með notkun sesíns og ræktun repju.

Hvíta-Rússland á landamæri að fimm löndum: Lettlandi í norðri, Litáen í norðvestri, Póllandi í vestri, Rússlandi í norðri og austri og Úkraínu í suðri. Landamærin að Lettlandi og Litáen voru ákveðin með samningum 1995 og 1996 og landamærin að Úkraínu voru staðfest af þingi Hvíta-Rússlands árið 2009. Lokaafmörkun landamæra Hvíta-Rússlands og Litáen var ákveðin árið 2007.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]
Þinghúsið í Minsk í Hvíta-Rússlandi.

Hvíta-Rússland býr við forsetaræði þar sem forseti Hvíta-Rússlands er bæði þjóðhöfðingi og stjórnarleiðtogi. Löggjafinn er Þjóðþing Hvíta-Rússlands. Forsetinn er kjörinn til fimm ára í senn. Í stjórnarskránni frá 1994 mátti forsetinn aðeins sitja í tvö kjörtímabil, en þær takmarkanir voru afnumdar með stjórnarskrárbreytingu árið 2004. Alexander Lúkasjenkó hefur verið forseti landsins frá 1994. Árið 1996 boðaði hann umdeilda atkvæðagreiðslu um breytingar á kjörtímabili forseta. Kosningunum, sem áttu að fara fram árið 1999, var frestað til 2001. Yfirmaður kjörstjórnar, Viktar Hantsjar, lýsti kosningunum sem „stórkostlegri fölsun“. Honum var vikið úr embætti meðan á kosningabaráttunni stóð.

Þing Hvíta-Rússlands situr í tveimur deildum. Í fulltrúadeild eiga 110 þingmenn sæti og í lýðveldisráðinu sitja 64 þingmenn. Fulltrúadeildin skipar forsætisráðherra og getur lýst vantrausti á hann. Hún getur gert breytingar á stjórnarskránni og komið með tillögur varðandi stefnu stjórnarinnar í utanríkis- og innanríkismálum. Lýðræðisráðið skipar ýmsa embættismenn, getur lýst vantrausti á forsetann og hafnað eða samþykkt lög frá fulltrúadeildinni. Hvor deildin getur synjað lögum staðfestingar frá embættismönnum ef þau eru í andstöðu við stjórnarskrá.

Ríkisstjórnin er stjórnarráð ráðherra, undir forsæti forsætisráðherra, og fimm vararáðherrar. Ráðherrar eru skipaðir af forseta og eru ekki endilega þingmenn jafnhliða. Dómsvaldið er í höndum hæstaréttar og sérhæfðra dómstóla, eins og stjórnskipunarréttar sem fæst við túlkun stjórnarskrár og viðskiptalaga. Forseti skipar dómarana sem samþykktir eru af lýðveldisráðinu. Æðsta áfrýjunarstig í sakamálum er hæstiréttur. Stjórnarskráin bannar sérhæfða dómstóla utan dómskerfisins.

Í þingkosningum 2012 stóðu 105 af 110 þingmönnum utan flokka. Kommúnistaflokkur Hvíta-Rússlands fékk 3 sæti og Landbúnaðarflokkur Hvíta-Rússlands og Lýðveldisflokkur vinnu og réttlætis einn hvor. Flestir hinna þingmannanna tengjast hagsmunasamtökum eins og var algengt á þingi Sovétríkjanna.

Í forsetakosningunum 2020 vann Lúkasjenkó enn einu sinni sigur. Kosningarnar voru ekki taldar frjálsar eða lýðræðislegar. Stórfelld mótmæli voru bæld niður og mannréttinda og félagasamtök voru lögð niður eða hættu af ótta við ofsóknir. [3]. Forsetaframbjóðandinn Svetlana Tsíkhanovskaja flúði land. Evrópusambandið, Bretland, Bandaríkin og Kanada hafa sett viðskiptahömlur á landið af þeim sökum og hafa hert þær enn frekar vegna stuðnings stjórnvalda Belarús við innrás Rússlands í Úkraínu 2022.

Hvítrússneskir landamæraverðir við landamærin að Póllandi.

Her Hvíta-Rússlands er undir stjórn varnarmálaráðherra, Andrei Ravkov, og Lúkasjenkós sem er yfirmaður heraflans. Herinn var stofnaður árið 1992 og tók yfir hluta af búnaði og sveitum Sovéthersins í landinu. Breytingin frá Sovéthernum að her Hvíta-Rússlands fól í sér breytingar á skipuriti hersins sem var lokið 1997. Fjöldi hermanna var minnkaður í 30.000.

Í Hvíta-Rússlandi er herskylda í 12 mánuði fyrir menntaða einstaklinga en 18 mánuði fyrir ómenntaða. Vegna fækkunar Hvít-Rússa á herskyldualdri hefur herinn neyðst til að auka fjölda atvinnuhermanna sem voru um 12.000 árið 2001. Árið 2004 varði Hvíta-Rússland 1,4% af vergri landsframleiðslu til hermála.

Hvíta-Rússland hefur ekki lýst yfir vilja til að ganga í NATO, en hefur átt í samstarfi við NATO-ríkin frá 1995. Landið hefur veitt þjónustu við millilendingar flugvéla Alþjóðaliðsins í Afganistan. Hvíta-Rússland er aðili að hernaðarbandalagi sex fyrrum Sovétríkja, Sameiginlegu öryggissáttmálastofnuninni.

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Hvíta-Rússland skiptist í sex héruð (вобласць) sem heita eftir höfuðstöðum sínum. Í hverju héraði er kjörið héraðsráð sem fer með löggjafarvald, og héraðsstjórn sem fer með framkvæmdavald. Formaður héraðsstjórnarinnar er skipaður af forseta landsins. Héruðin skiptast síðan í umdæmi (раён) sem árið 2002 voru 118 talsins, auk 102 bæja og 108 þéttbýlissvæða. Höfuðborgin Minsk skiptist í níu umdæmi og nýtur sérstakrar stöðu.

Héruð Hvíta-Rússlands
Svæði Hvíta-Rússlands
Fáni Svæði Höfuðborg Rússneska Hvítrússneska Mannfjöldi
(2022)[4]
Svæði
(km2)
Þéttleiki Hlutfall
af Hvíta-Rússlandi
1 Минск Мінск 1,987,000 305.50 6,606.48 21.44%
2 Brest-fylki Brest Брестская Брэсцкая 1,356,000 32,790.68 41.11 14.32%
3 Gomel-fylki Gomel Гомельская Гомельская 1,380,000 40,361.66 34.40 14.75%
4 Grodno-fylki Grodno Гродненская Гродзенская 1,037,000 25,118.07 40.88 10.91%
5 Mogilev-fylki Mogilev Могилёвская Магілёўская 1,018,000 29,079.01 35.24 10.89%
6 Minsk-fylki Minsk Минская Мінская 1,464,000 39,912.35 36.86 15.63%
7 Vitebsk-fylki Vitebsk Витебская Вiцебская 1,128,000 40,049.99 28.36 12.06%
Hvíta-Rússland Minsk Беларусь 9,370,000 207,617.26 45.34 100.00%
  1. „Ríkjaheiti – Árnastofnun“. 14. ágúst 2021.
  2. „Stjónarráðið - Hvíta-Rússland (Belarús)“. 14. ágúst 2021.
  3. Mannréttindum hnignar stöðugt í Belarús RÚV, sótt 24. sept. 2022
  4. Official 2022 census results
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.