Sameiginlega öryggissáttmálastofnunin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sameiginlega öryggissáttmálastofnunin
Հավաքական անվտանգության պայմանագրի կազմակերպություն (armenska)
Арганізацыя Дамовы аб калектыўнай бясьпецы (hvítrússneska)
Ұжымдық қауіпсіздік туралы шарт ұйымы
Ūjymdyq Qauıpsızdık Turaly Şart Ūıymy (kasakska)

Жамааттык коопсуздук жөнүндө келишим уюму (kirgíska)
Организация Договора о коллективной безопасности (rússneska)
Созмони Аҳдномаи амнияти дастаҷамъӣ (tadsíkíska)
Merki Sameiginlegu öryggissáttmálastofnunarinnar

Aðildarríki stofnunarinnar sjást hér grænlituð.
SkammstöfunОДКБ eða ODKB (rússneska)
Stofnun14. mars 1992; fyrir 32 árum (1992-03-14) (sem herafli Samveldis sjálfstæðra ríkja)
15. maí 1992; fyrir 32 árum (1992-05-15) (sem Sameiginlegi öryggissáttmálinn)
7. október 2002; fyrir 21 ári (2002-10-07) (sem Sameiginlega öryggissáttmálastofnunin)
GerðHernaðarbandalag
HöfuðstöðvarFáni Rússlands Moskvu, Rússlandi
StaðsetningEvrasía
Meðlimir
1 áheyrnaraðili

3 fyrrum aðildarríki
 • Fáni Aserbaídsjan Aserbaísjan
 • Georgía Georgía
 • Fáni Úsbekistan Úsbekistan
Opinber tungumálRússneska
AðalritariImangali Tasmagambetov
FormaðurAlexander Lúkasjenkó
Vefsíðaodkb-csto.org

Sameiginlega öryggissáttmálastofnunin[1] (rússneska: Организация Договора о коллективной безопасности; umritað Organízatsíja Dogovora o kollektívnoj bezopasností; skammstafað ОДКБ eða ODKB á latnesku letri; gjarnan kölluð CSTO eftir nafni sínu á ensku; Collective Security Treaty Organization) er hernaðarbandalag sex fyrrverandi sovétlýðvelda í Evrasíu. Aðildarríkin eru Armenía, Hvíta-Rússland, Kasakstan, Kirgistan, Rússland og Tadsíkistan. Bandalagið rekur uppruna sinn til herafla Sovétríkjanna, sem var lagður niður árið 1991 og síðan limaður inn í sameiginlegan herafla Samveldis sjálfstæðra ríkja næsta ár. Sá herafli var síðar lagður niður og í hans stað komu sjálfstæðir herir fyrrum lýðvelda Sovétríkjanna.

Líkt og 5. gr. Atlantshafssáttmálans kveður 4. gr. Sameiginlega öryggissáttmálans á um að árás gegn einu aðildarríki verði álitin árás á þau öll. Í stofnskrá Sameiginlega öryggissáttmálastofnunarinnar er áréttaður vilji aðildarríkjanna til að forðast valdbeitingu. Aðildarríkjunum er bannað að ganga í önnur hernaðarbandalög samkvæmt sáttmálanum.[2]

Bakgrunnur og þróun[breyta | breyta frumkóða]

Sameiginlega öryggissáttmálastofnunin var stofnuð eftir upplausn Sovétríkjanna. Grundvöllur stofnunarinnar var „Sameiginlegi öryggissáttmálinn“ sem undirritaður var í Taskent þann 15. maí 1992 af Rússlandi, Armeníu, Kasakstan, Kirgistan og Úsbekistan. Upphaflega átti sáttmálinn að gilda í fimm ár en með möguleika á framlengingu. Tadsíkistan bættist síðar í hópinn og árið 1993 gerðust Aserbaísjan, Hvíta-Rússland og Georgía einnig aðilar að sáttmálanum.[3]

Sum aðildarríkin höfðu áhyggjur af umsvifum Rússa í nágrannaríkjum sínum. Aserbaísjan, Georgía og Úsbekistan sögðu því upp aðild að sáttmálanum þegar hann var framlengdur árið 1999.[4]

Árið 2002 var ákveðið að gera sáttmálann að fastri alþjóðastofnun, Sameiginlegu öryggissáttmálastofnuninni, sem Rússland, Hvíta-Rússland, Armenía, Kasakstan, Kirgistan og Tadsíkistan gerðust aðilar að. Samtökin hófu störf í september 2003. Árið 2006 gerðist Úsbekistan aftur aðili að stofnuninni[5] en drógu sig aftur úr samstarfinu árið 2012.[6]

Armenía frysti aðild sína að stofnuninni árið 2024 vegna óánægju með skort á stuðningi bandalagsins í átökum landsins við Aserbaísjan.[7]

Sameiginlega öryggissáttmálastofnunin er með stöðu áheyrnarfulltrúa við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.[8]

Skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Leiðtogar aðildarríkja Sameiginlegu öryggissáttmálastofnunarinnar í janúar 2010.

Stofnunin er leidd af sameiginlegu öryggisráði sem leiðtogar aðildarríkjanna sitja í, ásamt fastanefnd sendifulltrúa. Utanríkis- og varnarmálaráðherrar ríkjanna funda jafnframt á vegum stofnunarinnar auk þess sem stofnunin er með eigið ritararáð. Aðalritari og ritararáð Sameiginlegu öryggissáttmálastofnunarinnar hafa aðsetur í Moskvu.[9]

Hernaðarlega er liðsafla stofnunarinnar skipt í þrjá svæðishópa. Rússar og Hvít-Rússar mynda vestasta hlutann í Evrópu, Rússar og Armenar mynda miðhópinn á Kákasus-svæðinu og þann austasta í Mið-Asíu mynda Rússar ásamt Kasökum, Kirgisum og Tadsíkum.[10]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „Pútin segir eflingu NATO-innviða í Finnlandi og Svíþjóð kalla á andsvar – ekki sjálfa NATO-aðildina“. Varðberg. 16. maí 2022. Sótt 18. september 2022.
 2. Obydenkova, Anastassia (23. nóvember 2010). „Comparative regionalism: Eurasian cooperation and European integration. The case for neofunctionalism?“. Journal of Eurasian Studies. 2 (2): 91. doi:10.1016/j.euras.2011.03.001.
 3. Møller, Karsten Jakob: "Collective Security Treaty Organisation: An Entangling Alliance" Geymt 26 janúar 2013 í Wayback Machine, i Peter Dahl Thruelsen (ritstj.): International Organisations: Their Role in Conflict Management, Kaupmannahöfn: Royal Danish Defence College, 2009, bls. 205.
 4. Møller, bls. 206.
 5. Møller, bls. 207.
 6. „Uzbekistan Suspends Its Membership in CSTO“. The Gazette of Central Asia. 29. júní 2012. Afrit af uppruna á 15. nóvember 2012. Sótt 29. júní 2012.
 7. Freyr Rögnvaldsson (23. febrúar 2024). „Armenar fjarlægja sig enn frekar frá Moskvuvaldinu“. Samstöðin. Sótt 24. febrúar 2024.
 8. „Observer status for the Collective Security Treaty Organization in the General Assembly : resolution / adopted by the General Assembly“. Stafrænt bókasafn Sameinuðu þjóðanna. 2004. Sótt 20. september 2022.
 9. Møller, bls. 211.
 10. Møller, bls. 209.