Hera Björk Þórhallsdóttir
Hera Björk | |
---|---|
Upplýsingar | |
Fædd | Hera Björk Þórhallsdóttir 29. mars 1972 Reykjavík, Ísland |
Störf |
|
Ár virk | 1986–í dag |
Börn | 2 |
Útgáfufyrirtæki | HandsUpMusic |
Hera Björk Þórhallsdóttir (f. 29. mars 1972) er íslensk söngkona. Hún ólst upp í Breiðholti og gekk í Ölduselsskóla og seinna í Fjölbrautaskólann í Breiðholti.
Hera Björk byrjaði ung að syngja og söng meðal annars inn á auglýsingar og barnaplötuna „Göngum við í kringum“ fyrir 12 ára aldur. Hún hóf söngnám í Söngskólanum í Reykjavík haustið 1989 og lærði söng hjá söngvurunum Rut Magnússon, Bergþóri Pálssyni, Elínu Ósk Óskarsdóttur, Ernu Guðmundsdóttur ofl. Hera Björk keppti í Hæfileikakeppni Suðurlands árið 1988 og hafnaði þar í fyrsta sæti með lagið „Perfect“ sem hljómsveitin Fairground Attraction gerði frægt á sínum tíma. Seinna keppti Hera Björk í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd Fjölbrautarskólans í Breiðholti og lenti þar í öðru sæti með lagið „Án þín“.
Hera Björk hefur tekið þátt í uppfærslum á Rocky Horror Picture Show, Evitu, Litlu hryllingsbúðinni, og Kysstu mig Kata. Hún lék og söng einnig í sýningunni Sirkús Skara Skrípó í Loftkastalanum 1996-1997. Hera Björk hefur komið víða við í íslensku skemmtanalífi, var m.a. í hljómsveitunum Orgill, Sweetý og 17Vélar. Hún hefur sungið inn á fjölmargar plötur, bæði sóló sem og bakraddir. Hún gaf út sína fyrstu sólóplötu Ilmur af jólum árið 2000 og fékk hún góða dóma og viðtökur. Hera Björk stjórnaði sjónvarpsþættinum Stutt í Spunann á RÚV veturinn 1999-2000 ásamt leikaranum Hjálmari Hjálmarssyni. Hún kom einnig fram í Áramótaskaupinu 2005.
Hera Björk hefur tekið tvisvar þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, árið 2010 með lagið „Je ne sais quoi“ og árið 2024 með lagið „Scared of Heights“.[1]
Hera Björk bjó um tíma í Kaupmannahöfn og hefur starfað sem söngkona og söngkennari víða um Evrópu. Í dag starfar hún sem fasteignasali í Reykjavík.[2]
Systir Heru er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi í Reykjavík en foreldrar þeirra eru Hjördís Geirsdóttir söngkona og Þórhallur Geirsson.
Útgefið efni
[breyta | breyta frumkóða]Hljómplötur
[breyta | breyta frumkóða]- Ilmur af Jólum (2000)
- Hera Björk (2006)
- Je Ne Sais Quoi (2010)
- Ilmur af Jólum II (2013)
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Júlía Margrét Einarsdóttir (2. mars 2024). „Hera Björk vann Söngvakeppnina 2024“. RÚV.
- ↑ Lára Garðarsdóttir (3. mars 2024). „Söngdívan Hera Björk – Fasteignasali og tveggja barna móðir“. Mannlíf.