Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir | |
---|---|
Forseti borgarstjórnar Reykjavíkur | |
Núverandi | |
Tók við embætti 19. júní 2018 | |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 7. desember 1965 Selfoss |
Stjórnmálaflokkur | Viðreisn |
Háskóli | Loyola University New Orleans, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík |
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir (f. 7. desember 1965) er forseti borgarstjórar og borgarfullrúi í Reykjavík. Þórdís Lóa er oddviti Viðreisnar í borgarstjórn Reykjavíkur.
Menntun og fyrri störf
[breyta | breyta frumkóða]Þórdís Lóa fæddist 7. desember 1965 á Selfossi. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og því næst námi í sjónvarpsframleiðslu frá Loyola háskólanum í New Orleans árið 1991. Árið 1995 lauk hún BA prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands og ári síðar framhaldsnámi í félagsráðgjöf frá sama skóla. Loks lauk Þórdís Lóa MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.
Að loknu framhaldsnámi í félagsráðgjöf hóf Þórdís Lóa störf á velferðarsviði Reykjavíkurborgar en þar starfaði hún sem stjórnandi í tæp 20 ár[1] en hún var meðal annars framkvæmdastjóri velferðarþjónustu á árunum 2000-2005.[2] Á sama tíma var hún stundakennari við Háskóla Íslands auk þess að sitja í fjölmörgum ráðum og nefndum, meðal annars á vegum borgarstjórnar og ráðuneyta.
Frá árinu 2005 sneri Þórdís Lóa sér að viðskiptum og á árunum 2005-2015 var hún eigandi og framkvæmdastjóri Pizza Hut á Íslandi og í Finnlandi auk þess að sinna ýmsum störfum fyrir Pizza Hut-keðjuna í Evrópu, meðal annars við stjórn markaðs- og vörumerkjamála og innleiðingu stjórnendaþjálfunar.[3] Þá var Þórdís Lóa forstjóri Gray Line Iceland frá 2016 til 2017 en hefur auk þess fengist við sjónvarpsþáttagerð og ýmis störf í ferðaþjónustu.
Þórdís Lóa hefur um árabil verið ötull talsmaður þess að stjórnir, stjórnendastöður og fjölmiðlar endurspegli fjölbreytileika mannlífsins. Hún var formaður Félags kvenna í atvinnulífinu á árunum 2013-2017 auk þess að gegna stjórnarformennsku í Finnsk-íslenska viðskiptaráðinu um árabil.
Ferill í stjórnmálum
[breyta | breyta frumkóða]Í mars 2018 var tilkynnt að Þórdís Lóa myndi leiða framboðslista Viðreisnar til borgarstjórnar.[4] Úrslit borgarstjórnarkosninga 26. maí 2018 voru þau að Viðreisn er þriðji stærsti flokkurinn í borgarstjórn. Hlaut flokkurinn 4.812 atkvæði, eða 8,2% atkvæða,[5] og tóku þau Þórdís Lóa og Pawel Bartoszek sæti í borgarstjórn í kjölfarið.
Á fundi borgarstjórnar 19. júní 2019 var Þórdís Lóa kjörin formaður borgarráðs Reykjavíkur. Þá er hún formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, varaformaður Faxaflóahafna og í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Grænmetisbóndinn og veiðigyðjan Þórdís Lóa“. mbl.is. 5. maí 2018. Sótt 5. mars 2019.
- ↑ „Þórdís Lóa Þórhallsdóttir“. Reykjavíkurborg. Sótt 5. mars 2019.
- ↑ „Reynir ekki að vera fullkomin“. Viðskiptablaðið. 6. ágúst 2017. Sótt 5. mars 2019.
- ↑ „Þórdís Lóa leiðir lista Viðreisnar“. Viðskiptablaðið. 20. mars 2018. Sótt 5. mars 2019.
- ↑ „Úrslit úr stærstu sveitarfélögum“. mbl.is. Sótt 5. mars 2019.