Fara í innihald

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Forseti borgarstjórnar Reykjavíkur
Núverandi
Tók við embætti
19. júní 2018
Persónulegar upplýsingar
Fædd7. desember 1965 (1965-12-07) (58 ára)
Selfoss
StjórnmálaflokkurViðreisn
HáskóliLoyola University New Orleans, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir (f. 7. desember 1965) er forseti borgarstjórar og borgarfullrúi í Reykjavík. Þórdís Lóa er oddviti Viðreisnar í borgarstjórn Reykjavíkur.

Menntun og fyrri störf

[breyta | breyta frumkóða]

Þórdís Lóa fæddist 7. desember 1965 á Selfossi. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og því næst námi í sjónvarpsframleiðslu frá Loyola háskólanum í New Orleans árið 1991. Árið 1995 lauk hún BA prófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands og ári síðar framhaldsnámi í félagsráðgjöf frá sama skóla. Loks lauk Þórdís Lóa MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Að loknu framhaldsnámi í félagsráðgjöf hóf Þórdís Lóa störf á velferðarsviði Reykjavíkurborgar en þar starfaði hún sem stjórnandi í tæp 20 ár[1] en hún var meðal annars framkvæmdastjóri velferðarþjónustu á árunum 2000-2005.[2] Á sama tíma var hún stundakennari við Háskóla Íslands auk þess að sitja í fjölmörgum ráðum og nefndum, meðal annars á vegum borgarstjórnar og ráðuneyta.

Frá árinu 2005 sneri Þórdís Lóa sér að viðskiptum og á árunum 2005-2015 var hún eigandi og framkvæmdastjóri Pizza Hut á Íslandi og í Finnlandi auk þess að sinna ýmsum störfum fyrir Pizza Hut-keðjuna í Evrópu, meðal annars við stjórn markaðs- og vörumerkjamála og innleiðingu stjórnendaþjálfunar.[3] Þá var Þórdís Lóa forstjóri Gray Line Iceland frá 2016 til 2017 en hefur auk þess fengist við sjónvarpsþáttagerð og ýmis störf í ferðaþjónustu.

Þórdís Lóa hefur um árabil verið ötull talsmaður þess að stjórnir, stjórnendastöður og fjölmiðlar endurspegli fjölbreytileika mannlífsins. Hún var formaður Félags kvenna í atvinnulífinu á árunum 2013-2017 auk þess að gegna stjórnarformennsku í Finnsk-íslenska viðskiptaráðinu um árabil.

Ferill í stjórnmálum

[breyta | breyta frumkóða]

Í mars 2018 var tilkynnt að Þórdís Lóa myndi leiða framboðslista Viðreisnar til borgarstjórnar.[4] Úrslit borgarstjórnarkosninga 26. maí 2018 voru þau að Viðreisn er þriðji stærsti flokkurinn í borgarstjórn. Hlaut flokkurinn 4.812 atkvæði, eða 8,2% atkvæða,[5] og tóku þau Þórdís Lóa og Pawel Bartoszek sæti í borgarstjórn í kjölfarið.

Á fundi borgarstjórnar 19. júní 2019 var Þórdís Lóa kjörin formaður borgarráðs Reykjavíkur. Þá er hún formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, varaformaður Faxaflóahafna og í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Græn­met­is­bónd­inn og veiðigyðjan Þór­dís Lóa“. mbl.is. 5. maí 2018. Sótt 5. mars 2019.
  2. „Þórdís Lóa Þórhallsdóttir“. Reykjavíkurborg. Sótt 5. mars 2019.
  3. „Reynir ekki að vera fullkomin“. Viðskiptablaðið. 6. ágúst 2017. Sótt 5. mars 2019.
  4. „Þórdís Lóa leiðir lista Viðreisnar“. Viðskiptablaðið. 20. mars 2018. Sótt 5. mars 2019.
  5. „Úrslit úr stærstu sveitarfélögum“. mbl.is. Sótt 5. mars 2019.