Fara í innihald

Forseti (norræn goðafræði)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Forseti (ás))
Forseti situr í Glitni og kveður upp dóm sinn á teikningu eftir Carl Emil Doepler (1882).

Forseti er einn af ásum í norrænni goðafræði. Miðað við lýsingar af honum virðist hann hafa verið guð réttlætis og sátta. Hann er sagður sonur Baldurs og Nönnu og býr í Glitni. Aðeins er fjallað um Forseta í Gylfaginningu, en þar segir um hann:

Forseti heitir sonur Baldurs og Nönnu Nepsdóttur. Hann á þann sal á himni er Glitnir heitir. En allir er til hans koma með sakarvandræði, þá fara allir sáttir á braut. Sá er dómstaður bestur með guðum og mönnum. Svo segir hér:
Glitnir heitir salur,
hann er gulli studdur
og silfri þaktur hið sama;
en þar Forseti
byggir flestan dag
og svæfir allar sakar.[1]

Litlar upplýsingar eru annars til um Forseta og ekki er minnst á hann í öðrum rituðum heimildum. Á Óðinsey (norska: Onsøy) í Noregi er hins vegar lundur sem ber nafnið Forsetalundur, sem kann að þýða að norrænir menn hafi tilbeðið Forseta á eyjunni.[2][3]

Frísaguðinn Fosite

[breyta | breyta frumkóða]

Í sagnariti Alcuins frá Jórvík um ævi kristniboðans Willibrords stendur að Willibrord hafi á 7. öld heimsótt eyju á milli Fríslands og Danmerkur sem var helguð guði að nafni Fosite og því kölluð Fositesland. Hugsanlegt er að Fosite sé sami guð og norrænir menn kölluðu Forseta. Á eyjunni var heilög lind sem menn urðu að ausa vatni úr án þess að mæla orð af vörum til þess að trufla ekki heilagleikann. Willebrord vanhelgaði vísvitandi þessa lind með því að skíra fólk í henni og með því að slátra kú yfir henni.[2] Adam frá Brimum vísar í sömu sögu í ritum sínum og tekur þar fram að eyjan umrædda sé Helgoland.[4] Sé svo er trúverðugt að bæði Frísar og norrænir menn hafi þekkt guðinn og tilbeðið hann.[5]

Til er goðsögn frá síðmiðöldum sem segir frá ritun frísneskra laga. Sagt er að Karlamagnús hafi viljað safna saman lagabókum allra þegna sinna og hafi því kallað tólf lögsögumenn Frísa á sinn fund og beðið þá að þylja upp lög þjóðar sinnar. Þeim tókst ekki að þylja þau eftir nokkra daga og Karlamagnús gaf þeim því val á milli dauða, þrældóms eða að vera látnir reika um hafið á áralausum bát. Þeir kusu síðasta kostinn og báðu til guðanna um hjálp. Birtist þá maður með gullna öxi á herðum sér og reri bátnum að landi með henni. Þar kastaði hann exinni á land og lind birtist þar sem hún lenti á jörðinni. Síðan kenndi hann þeim lögin og hvarf.[6][7] Sagan hefur verið túlkað sem svo að ókunni maðurinn sé Fosite/Forseti og að lindin sé heilaga lindin á Fositeslandi/Helgolandi.

Aðrir fræðimenn draga í efa að Forseti sé ókunni maðurinn í sögunni þar sem öxin er vanalega tengd við Þór en ekki við Forseta.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Snorri Sturluson. „Gylfaginning“. Snerpa. Sótt 23. janúar 2019.
  2. 2,0 2,1 Hilda R. Ellis Davidson (1964). Gods and Myths of Northern Europe. Pelican. bls. 171.
  3. E.O.G. Turville-Petre, Myth and Religion of the North: The Religion of Ancient Scandinavia, London, Weidenfeld, 1964, bls. 238.
  4. Gesta Hammaburgensis ecclesiae pontificum bók 4 (Descriptio insularum aquilonis), 3. kafli.
  5. Jacob Grimm (1835). Deutsche Mythologie, 1. bindi. Dieterichsche Buchhandlung. bls. 145.
  6. Ellis Davidson, bls. 171-72.
  7. Thomas L. Mackey, Frisian, Trends in Linguistics, Haag: Mouton, 1981, bls. 63-64.
  8. Willy Krogmann, 'Die friesische Sage von der Findung des Rechts', í: Zeitschrift für Rechtsgeschichte, Germanische Abteilung 84 (1967), bls. 72-127.