Fídjí
Matanitu Tu-Vaka-i-koya ko Viti | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Rerevaka na Kalou ka Doka na Tui | |
Þjóðsöngur: God Bless Fiji | |
Höfuðborg | Suva |
Opinbert tungumál | enska, fídjíska, fídji-hindí |
Stjórnarfar | Lýðveldi
|
Forseti | Wiliame Katonivere |
Forsætisráðherra | Sitiveni Rabuka |
Sjálfstæði | |
• frá Bretlandi | 10. október 1970 |
• Stofnun lýðveldis | 7. október 1987 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
151. sæti 18.274 km² ~0 |
Mannfjöldi • Samtals (2018) • Þéttleiki byggðar |
161. sæti 926.276 46,4/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2018 |
• Samtals | 9,112 millj. dala (158. sæti) |
• Á mann | 10.251 dalir (101. sæti) |
VÞL (2019) | 0.724 (98. sæti) |
Gjaldmiðill | fídjískur dalur |
Tímabelti | UTC+12 |
Þjóðarlén | .fj |
Landsnúmer | +679 |
Fídjí (fídjíska: Viti [ˈβitʃi]; fídjí hindí: फ़िजी, Fijī) er eyríki í Suður-Kyrrahafi, hluti af Melanesíu. Eyjarnar eru um 2.000 km norðaustan við Nýja Sjáland. Næstu eyjar eru Vanúatú í vestri, franska eyjan Nýja-Kaledónía í suðvestri, nýsjálenska eyjan Kermadec í suðaustri, Tonga í austri, Samóaeyjar og Wallis- og Fútúnaeyjar í norðaustri og Túvalú í norðri. Ríkið er á eyjaklasa sem í eru meira en 330 eyjar og yfir 500 smáeyjar. Heildarlandsvæði eyjanna er 18.300 ferkílómetrar. Ysti eyjaklasinn er Ono-i-Lau. Um 87% íbúanna búa á tveimur stærstu eyjunum, Viti Levu og Vanua Levu. Þar af búa um 3/4 við strönd Viti Levu, annað hvort í höfuðborginni, Suva, eða nærliggjandi byggðum, eins og Nadi, þar sem ferðaþjónusta er helsti atvinnuvegurinn, eða Lautoka, þar sem sykurframleiðsla er fyrirferðamest. Viti Levu er strjálbýl inn til landsins þar sem landslag einkennist af skógi vöxnum fjöllum.[1] Nafnið kemur úr tongverska nafninu yfir eyjarnar, sem er dregið af fídjíska orðinu Viti.
Flestar eyjarnar mynduðust við eldgos fyrir 150 milljón árum. Í dag er jarðhita að finna á eyjunum Vanua Levu og Taveuni.[2] Jarðhitakerfi á Viti Levu eru utan gosbeltisins og hafa lægri hita við yfirborðið (milli 35 og 60 gráður á celsíus).
Eyjarnar hafa verið byggðar mönnum frá því á öðru árþúsundinu f.Kr., fyrst af Ástrónesum og síðar Melanesum. Hollenskir og breskir landkönnuðir komu til eyjanna á 17. og 18. öld.[3] Bretar gerðu eyjarnar að nýlendu árið 1874 og fluttu þangað verkamenn frá Indlandi til að vinna á sykurplantekrum. Landið fékk sjálfstæði árið 1970. Eftir röð valdarána árið 1987 lýsti herforingjastjórnin yfir stofnun lýðveldis. Eftir valdarán 2006 tók yfirflotaforinginn Frank Bainimarama völdin, en hæstiréttur Fídjí dæmdi stjórn hans ólöglega árið 2009. Þá nam forseti Fídjí, Josefa Iloilo, stjórnarskrána úr gildi og skipaði Bainimarama tímabundinn forsætisráðherra. Síðar árið 2009 tók Epeli Nailatikau við forsetaembætti.[4] Eftir áralangar tafir voru loks haldnar lýðræðislegar kosningar á Fídjí árið 2014. Flokkur Bainimarama, FijiFirst, hlaut 59,2% atkvæða, og alþjóðlegir eftirlitsaðilar sögðu kosningarnar hafa verið trúverðugar.[5]
Fídjí er með eitt þróaðasta hagkerfi Kyrrahafsríkja,[6] aðallega vegna ríkulegra náttúruauðlinda: skóga, fiskimiða og jarðefna. Gjaldmiðill landsins er fídjískur dalur og helsta uppspretta gjaldeyris er ferðaþjónusta, peningasendingar Fídjía erlendis, útflutningur á vatni og sykri.
Landfræði
[breyta | breyta frumkóða]Fídjí er staðsett miðsvæðis í Suðvestur-Kyrrahafi, á milli Vanúatú og Tonga. Eyjarnar liggja milli 176°56' austur og 178°12' vestur. Þær ná yfir um 1.300.000 ferkílómetra svæði, en aðeins 1,5% þess er á þurru landi. 180. lengdarbaugur liggur um Taveuni en daglínan sveigist um eyjarnar til að sami tími (UTC+12) sé á þeim öllum. Ef Rotuma er undanskilin liggur eyjaklasinn milli 15°42′ og 20°02′ suðlægrar breiddar.
Land Fídjí er um 18.272 ferkílómetrar á 332 (þar af 106 byggðum) og 522 smáeyjum. Flestir íbúanna búa á tveimur eyjum, Viti Levu og Vanua Levu, sem samanlagt eru 2/3 af þurrlendi eyjaklasans. Eyjarnar eru fjalllendar og þaktar þéttum hitabeltisfrumskógi. Hæsti tindur eyjanna er Tomanivi-fjall á Viti Levu, 1.324 metrar á hæð. Höfuðborgin, Suva, er á Viti levu, og þar eru líka önnur stærsta borgin, Lautoka, og sú þriðja stærsta, Nadi, þar sem alþjóðaflugvöllurinn er.
Helstu bæir á Vanua Levu eru Labasa og Savusavu. Þriðju og fjórðu stærstu eyjarnar eru Taveuni og Kadavu, en aðrir stórir eyjaklasar eru Mamanuca-eyjar (við Nadi) og Yasawa-eyjar, sem eru vinsælir ferðamannastaðir, Lomaviti-eyjar (við Suva) og hinar afskekktu Lau-eyjar. Fjarlægasta eyjan Rotuma er sérstjórnarhérað en fjarlægasti staðurinn sem tilheyrir Fídjí er rifið Ceva-i-Ra, 290 km suðvestan við aðaleyjarnar.
Stjórnmál
[breyta | breyta frumkóða]Stjórnsýslueiningar
[breyta | breyta frumkóða]Fídjí skiptist í fjóra meginhluta sem aftur skiptast í 14 sýslur sem aftur skiptast í umdæmi, en innan þeirra eru þorp. Eyjan Rotuma hefur eigin stjórnsýslu og þing.
Í valdatíð Seru Epenisa Cakobau á 19. öld skiptist Fídjí í þrjú sambönd, Kubuna, Burebasaga og Tovata, sem enn eru talin mikilvæg þótt þau hafi ekki lengur formlega þýðingu.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Fiji: People“. United States of America State department. 28. júní 2010. Afrit af uppruna á 22. janúar 2017. Sótt 15. september 2010.
- ↑ „Fiji Geography“. fijidiscovery.com. 2005. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. febrúar 2011. Sótt 15. september 2010.
- ↑ „Fiji: History“. infoplease.com. 2005. Afrit af uppruna á 31. ágúst 2010. Sótt 15. september 2010.
- ↑ „Fiji's president takes over power“. BBC. 10. apríl 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. apríl 2009. Sótt 15. september 2010.
- ↑ Perry, Nick; Pita, Ligaiula (29. september 2014). „Int'l monitors endorse Fiji election as credible“. Associated Press. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. september 2014. Sótt 25. september 2014.
- ↑ „Fiji High Commission :: About Fiji“. www.fiji.org.nz. Sótt 13. janúar 2020.