Fara í innihald

Bankahrunið á Íslandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Bankahrunið)
Úrvalsvísitala kauphallarinnar á árunum 1998-2009.

Bankahrunið á Íslandi eða Hrunið eins og það er oftast kallað í daglegu tali er heiti á gjaldþroti þriggja stærstu íslensku viðskiptabankanna haustið 2008 í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi 2008–2011. Glitnir (í dag Íslandsbanki) var tekinn yfir af íslenska ríkinu þann 29. september, þann 6. október voru hin svonefndu neyðarlög sett, degi seinna, þann 7. október tók Fjármálaeftirlitið (FME) yfir rekstur Landsbanka Íslands og tveimur dögum seinna tók FME yfir Kaupþing banka (í dag Arion banki).

Gjaldþrot bandaríska bankans Lehman Brothers í september 2008 setti Glitni í erfiða stöðu þar sem Glitnir reiddi sig á lán frá Lehman Brothers. Í lok september var því lýst yfir að Glitnir yrði þjóðnýttur að meirihluta. Þá fór af stað flókin atburðarrás sem leiddi til hruns hinna tveggja stóru íslensku viðskiptabankanna, Landsbankans og Kaupþings á aðeins rétt rúmlega viku. Afleiðingar Hrunsins urðu tilefni að milliríkjadeilum Íslands við Bretland og Holland vegna Icesavereikninga Landsbankans í þeim löndum.

Alþingi Íslands skipaði sérstaka rannsóknarnefnd sem hafði það hlutverk að komast að því hverjar orsakir hrunsins voru. Rannsóknarnefndin skilaði af sér skýrslu 12. apríl 2010 og í kjölfarið var Geir Haarde kærður til landsdóms að ákvörðun Alþingis. Landsdómur sakfelldi Geir fyrir vanrækslu í starfi sínu sem forsætisráðherra, en gerði honum þó enga refsingu.

Þjóðnýting Glitnis (29. september 2008)

[breyta | breyta frumkóða]
Vörumerki Glitnis.

Þann 29. september var tilkynnt að íslenska ríkið myndi eignast 75% hlut í Glitni fyrir 600 milljónir evra eða um 84 milljarða íslenskra króna. Þær ástæður sem gefnar voru fyrir yfirtökunni voru þröng lausafjársstaða Glitnis og erfitt ástand á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.[1][2][3] Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði að ef ekki hefði verið gripið til aðgerða þá hefði hlutafé bankans verið 0 og hann farið í þrot.[4] Talið er að ein meginástæða fyrir erfiðleikum Glitnis hafi verið gjaldþrot bandaríska bankans Lehman Brothers sem átti í viðskiptum við Glitni. Nánast um leið og þetta var tilkynnt lækkaði alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's einkunnir sínar fyrir ríkissjóð sem og Íbúðalánasjóð.[5] Lokað var fyrir öll viðskipti með fjármálasjóði Glitnis, og varð þetta til þess að Stoðir fór í greiðslustöðvun.[6] Viðskipti með peningamarkaðssjóðinn Sjóð 9 og skuldabréfasjóðina Sjóð 1 og Sjóð 9 EUR voru til sérstakrar athugunar en opnað var aftur fyrir viðskiptum 1. október en þá hafði endurmat á virði Sjóðs 9 lækkað gengi hans um 7%.[7] Seinna bárust fréttir af því að ríkissjóður hefði greitt 11 milljarða króna inn á Sjóð 9 vegna þess Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði verið í stjórn Sjóðs 9 frá því í byrjun árs 2008 og sjóðurinn mætti því ekki fara í þrot. Þetta reyndist rangt, hið rétta var að Glitnir hafði keypt skuldabréf Stoða í Sjóð 9 með eigin peningum.[8]

Óánægja hluthafa og stjórnenda

[breyta | breyta frumkóða]

Daginn eftir voru sýnd viðtöl á RÚV og á Stöð 2 við Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleiganda Stoða sem var kjölfestufjárfestir í Glitni með 32% hlut. Jón sagði erlenda banka hafa lokað fyrir lánum til Glitnis með stuttum fyrirvara og þess vegna hafi verið ákveðið að leita til Seðlabankans eftir lánum gegn veðum.[9] Þá kom einnig fram í viðtali við Þorstein Má Baldvinsson, stjórnarformann Glitnis, að Glitnir hefði boðið tvo veðpakka gegn láninu; annan metinn á 750 milljónir evra og síðari á 1.340 milljónir evra.[10] Jón gagnrýndi yfirtökuna harkalega sem hann nefndi „stærsta bankarán Íslandssögunnar”; hann sagði enn fremur stjórn fyrirtækisins hafa verið „stillt upp við vegg. Við sögðum fulltrúum ríkisstjórnarinnar að við teldum þessa leið alveg fráleita enda gæti hún haft víðtæk áhrif á allt fjármálakerfið hér á landi og væri í engu samræmi við eignasafn félagsins.[9] Jón virtist þar með vera að ýja að því að pólitískar ástæður lægju að baki ákvörðuninni um að ríkið eignaðist hlutaféð á þessu verði.

Samdægurs gaf stjórn Stoða frá sér yfirlýsingu þar sem hún fordæmdi aðgerðir Seðlabankans. Í yfirlýsingunni stóð:

Ljóst má vera að Glitnir þurfti á aðstoð Seðlabankans að halda vegna lausafjárvanda sem bar brátt að. Rekstur Glitnis hefur hins vegar verið með ágætum, bankinn skilað góðum hagnaði og eigið fé Glitnis nam um 200 milljörðum króna um mitt þetta ár. Það er mat stjórnar Stoða að Seðlabankinn hafi haft aðra og farsælli kosti í stöðunni en að taka Glitni yfir. Harkalegt inngrip Seðlabankans er ekkert annað en eignaupptaka þar sem hluthafar Glitnis tapa vel á annað hundrað milljörðum króna. Seðlabankinn og ríkisstjórnin stilltu stjórn og stærstu eigendum Glitnis upp við vegg í skjóli nætur og þeir áttu því enga kosti aðra en að samþykkja tillöguna. Atburðarásin var með þeim hætti að ekkert tóm gafst til að leita annarra lausna, frekar en að meta heildaráhrif aðgerðanna á íslenskt fjármálalíf. Stjórn Stoða harmar þessar aðgerðir og lýsir fullri ábyrgð á afleiðingum þeirra á hendur bankastjórnar Seðlabankans.
 
— Yfirlýsing frá Stoðum[11]

Daginn eftir barst nafnlaus ábending um að ekki hefði verið einhugur meðal stjórnar Stoða um yfirlýsinguna.[12]

Hætt við viðskipti Landsbankans (1. október 2008)

[breyta | breyta frumkóða]
Vörumerki Landsbankans.

Þann 1. október gerði Straumur-Burðarás kaupsamning við Landsbankann um kaup á þremur dótturfyrirtækjum; Landsbankinn Kepler með 380 starfsmenn í 7 löndum; Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Spáni, Sviss, Þýskalandi og BNA. Landsbankinn Securities með 200 starfsmenn í Lundúnum og Edinborg og Merrion Landsbanki með 100 starfsmenn á Írlandi. Kaupverðið var ákveðið 380 m. evra, eða um 55 ma.k.[13] Ekki varð af þessum kaupum vegna þess að þann 7. október yfirtók íslenska ríkið rekstur Landsbankans og því taldi stjórn Straums-Burðaráss ekki lengur vera forsendur fyrir samningnum. Honum var rift þann 10. október.[14]

Sama dag rauf gengisvísitala íslensku krónunnar 200 stiga múrinn og hafði þá aldrei verið hærri.[15] Í fréttum kom fram að mögulegar lausnir til þess að koma á jafnvægi í íslensku efnahagslífi væru að selja Kaupþing til sænska bankans Skandinaviska Enskilda Banken, með því að íslenskir lífeyrissjóðir seldu erlendar eignir sínar og í þriðja lagi að leita ásjár hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.[16]

Eftir stífa fundarsetur íslensku ríkisstjórnarinnar með ýmsum hagsmunaaðilum úr einkageiranum tilkynnti Geir H. Haarde að kvöldi 5. október að samkomulag hefði verið gert við íslensku bankana um að þeir myndu draga úr umsvifum sínum erlendis, með sölu á eignum sínum þar.[17]

Neyðarlög (6. október 2008)

[breyta | breyta frumkóða]
Forsíða Fréttablaðsins 6. október 2008.

Daginn eftir ávarpaði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, íslensku þjóðina í ávarpi sem var sjónvarpað og útvarpað beint. Hann sagði efnahag íslensku viðskiptabankana nema margfalda landsframleiðslu á við íslenska ríkið sem væri „svo smátt í samanburði“.[18] Hann lagði áherslu á að staða bankanna hefði versnað mikið, mjög hratt, að raunveruleg hætta væri á því að „íslenska þjóðarbúið myndi, ef allt færi á versta veg, sogast með bönkunum inn í brimrótið og afleiðingin yrði þjóðargjaldþrot[18] og að verkefni stjórnvalda á næstu dögum væri „að koma í veg fyrir að upplausnarástand skapist, ef íslensku bankarnir verða óstarfhæfir að einhverju marki.[18] Geir lauk ávarpi sínu á hinum fleygu orðum Guð blessi Ísland.

Sérstök neyðarlög, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.[19], voru samþykkt samdægurs. Lögin heimiluðu fjármálaráðherra „fyrir hönd ríkissjóðs ... að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta.[20] Talsverðar undanþágur frá lögum um fjármálafyrirtæki, starfsmenn þess og viðskipti, voru veittar frá beitingu þessara laga. Að auki var ríkissjóði heimilað að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur 20% af bókfærðu eigin fé.[20]

Ýmsar breytingar voru gerðar á lögum um fjármálafyrirtæki[21], meðal annars var bætt við nýrri grein, með fyrirsögninni Sérstakar ráðstafanir, þar sem Fjármálaeftirlitinu voru veittar umtalsverðar valdheimildir. Með þeim fyrirvara að tilefnið teljist til „sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði[22] var Fjármálaeftirlitinu gert heimilt að stofna til hluthafafundar hjá fjármálafyrirtæki og eiga þar fulltrúa sem stýrir fundinum, hefur málfrelsi og tillögurétt. Væru aðstæður „mjög knýjandi“ hefði sá fulltrúi úrslitavald á fundinum, meðal annars til yfirtöku á rekstri og eignum fyrirtækisins en slíka ákvörðun þyrfti að rökstyðja skriflega til stjórnar fyrirtækisins, og til lögbærra eftirlitsaðila erlendis eftir atvikum.

Lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta[23] var einnig breytt. Þau lög lúta að Tryggingarsjóði innistæðueigenda og fjárfesta og eiga „að veita innstæðueigendum í viðskiptabönkum og sparisjóðum og viðskiptavinum fyrirtækja sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis í samræmi við ákvæði laga þessara.[23]Lögum um húsnæðismál var einnig breytt.[24]

Fjármálaeftirlitið tekur yfir rekstur Landsbankans (7. október 2008)

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 7. október tók Fjármálaeftirlitið yfir rekstur Landsbankans, bankastjórar störfuðu eftir sem áður en við stjórn bankans tók sjálfstætt skipuð skilanefnd. Þetta var gert „til að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi á Íslandi”.[25][26] Sams konar ferli átti sér stað með rekstur Glitnis, og þar með var fallið frá kaupum ríkisins á 75% hlut í bankanum sem tilkynnt hafði verið um 29. september.[27] Sama dag var Nýi Landsbanki Íslands hf. stofnaður, hann tók til starfa tveimur dögum seinna.

Nýir vinir

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 7. október tilkynnti Seðlabankinn að staðfest hefði verið að Rússland myndi veita Íslandi lán að upphæð 4 milljarða evra til þess að styrkja gjaldeyrisforða Íslendinga.[28] Það að Íslendingar skyldu leita til Rússlands um lán kom mörgum á óvart bæði innanlands og utan.Geir H. Haarde forsætisráðherra útskýrði stöðu Íslendinga á blaðamannafundi með erlendum blaðamönnum:

Við höfum allt þetta ár reynt að fá vini okkar til að gera gjaldeyrisskiptasamninga eða að fá annarskonar stuðning undir þessum afar óeðlilegu kringumstæðum. Við höfum ekki fengið þann stuðning, sem við óskuðum eftir frá vinum okkar og þegar þannig stendur á verðum við að leita að nýjum vinum.
 
— Geir Haarde[29]

Forsætisráðherra tók það sérstaklega fram að með þessum ummælum sínum átti hann ekki við Norðurlandaþjóðirnar sem hefðu gert gjaldeyrisskiptasamninga við Íslendinga.[29]

Skömmu síðar kom fram að engin formleg ósk hafi borist til Rússa frá Íslendingum um lán, að samningaviðræður hafi ekki verið hafnar og að engin ákvörðun hafi verið tekin um að veita Íslendingum lán.[30] Seðlabankinn tilkynnti seinna sama dag að Ísland og Rússland myndu hefja viðræður innan fárra daga.[31] Davíð Oddsson, bankastjóri sagði í viðtali við Bloomberg að fréttatilkynning Seðlabankans þess efnis að Íslendingar hafi fengið lán frá Rússum hafi ekki verið rétt og að rétt væri að þjóðirnar tvær ættu nú í viðræðum um hugsanlegt lán.[32]

Kastljósviðtal við Davíð Oddsson

[breyta | breyta frumkóða]

Í viðtali í Kastljósi sem sýnt var um kvöldið varði Davíð Oddsson seðlabankastjóri yfirtöku Glitnis og í svari hans kom meðal annars fram að „þegar skuldirnar eru orðnar þannig að íslensku bankarnir þurfa 50-55 milljarða evra á þremur til fjórum árum næstu - og geta ekki útvegað sér það því þeir markaðir eru lokaðir - þá værum við að setja slíkan skuldaklafa á börnin okkar og barnabörnin, að það væri þrældómur fyrir annarra manna sök“.[33][34] Hann sagði að aðgerðir íslenskra stjórnvalda væru sambærilegar við aðgerðir bandarísku ríkisstjórnarinnar varðandi Washington Mutual sem er bandarískur sparisjóður sem fór í greiðslustöðvun 25. september 2008. Meðal þeirra sem gagnrýndu Davíð voru Richard Portes, sem áður hafði unnið afar jákvæða skýrslu um íslenskt viðskiptalíf fyrir Viðskiptaráð Íslands, skrifaði grein á vef Financial Times þann 12. október.[35]

Tilraunir Seðlabankans til þess að styrkja krónuna

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að í ljós hafði komið að yfirlýsing Seðlabankans um lán frá Rússlandi hafi verið á misskilningi byggðar voru fleiri aðferðir reyndar til þess að laga gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.[36] Þeirra á meðal reyndi bankinn að festa gengi krónunnar við evru á genginu 131 krónur gagnvart evrunni.[37] Í enskri fréttatilkynningu Seðlabankans biðlaði hann til annara banka að styðja sig í þessari viðleitni þar sem gengi krónunar væri óeðlilega lágt.[38] Innan við sólarhringi eftir að þetta var reynt var fallið frá þessari tilraun.[39]

Tveimur dögum síðar setti Seðlabankinn gjaldeyrishömlur á íslenskar innlánsstofnanir.[40] Meðal þeirra ráðstafana sem gripið var til var takmörkun á úttektarheimildum á kreditkortum erlendis og beiðnir um erlendan gjaldeyri fóru í gegnum nýtt póstfang Seðlabankans og var vöruflokkum forgangsraðað. Viðskiptabönkum var einnig gert að skila til Seðlabankans sundurliðun á gjaldeyrisviðskiptum í lok hver dags.

Þann 15. október voru stýrivextir Seðlabankans lækkaðir um 3,5%, úr 15,5% í 12%.[41] Tæpum tveimur vikum seinna voru þeir hækkaðir á ný, um 6% í þetta skiptið í 18%.[42]

Hvorki ríkisstjórnin né Seðlabanki Íslands virtust vera vel undirbúin. Svo virðist sem ekki hafi verið ráðist í aðrar undirbúningsaðgerðir en gerð neyðarlaganna. Bæði kerfisbundna kreppan og þeir atburðir sem í kjölfarið fylgdu voru fyrirsjáanlegar afleiðingar hruns bankakerfisins.
 
— Jón Daníelsson og Gylfi Zoega[43]

Yfirtakan á Kaupþing (9. október 2008)

[breyta | breyta frumkóða]

Fjármálaeftirlitið tók yfir rekstur Kaupþings 9. október.[44][45] Aðgerðir breskra yfirvalda gegn Landsbankanum náðu einnig til Kaupþings þar eð degi áður var Kaupthing Singer & Friedlander, enskur dótturbanki Kaupþings, settur í greiðslustöðvun.[46] Ríkið réði í framhaldinu til sín virta breska lögfræðistofu til þess að athuga lagalegan rétt sinn vegna falls Kaupþings.[47] Þá höfðu þrír stærstu viðskiptabankar Íslands fallið. Í fjölmiðlum var rætt um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að enduruppbyggingu og lánveitingu til Íslands.[48]

Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings, hefur gefið þá skýringu á falli bankans, að sumarið 2008 hafi skuldatryggingarálag bankans hækkað þrátt fyrir góða stöðu hans, eins og fjármálaeftirlit Bretlands hafi staðfest í skýrslu sinni um Kaupthing Singer & Friedlander. Hann segir rógburði hafi verið dreift um bankann erlendis til þess að hafa áhrif á gengi bankans. Jafnvel að almannatenglar hafi verið ráðnir til þessa.[49] Hann hefur einnig sagt að íslenska krónan hafi verið of óstöðugur gjaldmiðill fyrir banka af þessari stærðargráðu, að þjóðnýting Glitnis hafi verið mistök og setning neyðarlaganna sömuleiðis. Loks telur hann að Kaupþing hefði átt að ljúka yfirtökunni á hollenska bankanum NIBC þegar það stóð til fyrr á árinu og flytja höfuðstöðvarnar frá Íslandi og þangað.[50]

Þetta kvöld sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sig úr bankaráði Seðlabanka Íslands. Með því vildi hún axla ábyrgð sína á hruninu.[51] Daginn eftir fór Ingimundur Friðriksson, einn þriggja bankastjóra seðlabankans í veikindafrí. Trúverðugleiki Íslands og íslenskra fyrirtækja var í lágmarki og næstu daga bárust fréttir af erfiðleikum venjulegra borgara, bílaeigenda sem höfðu tekið bílalán í erlendri mynt og stóðu nú frammi fyrir margföldum höfuðstól og inn- og útflutningsfyrirtækjum sem ekki gátu stundað venjuleg viðskipti.[52][53] Þrýstingur tók að myndast á stjórn seðlabankans að segja af sér og var krafa Samfylkingarinnar um það opinber. Geir Haarde, sem hafði verið náinn samstarfsmaður Davíðs Oddssonar, vildi hins vegar ekki „persónugera vandann“.[54] Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, hvatti ríkisstjórnina til að víkja stjórn seðlabankans.[55]

Bækur um hrunið

[breyta | breyta frumkóða]

Sofandi að feigðarósi

[breyta | breyta frumkóða]

Í bókinni, sem er gefin út 2009, gerir Ólafur Arnarson grein fyrir atburaðarásinni sem leiddi til þess að Ísland varð gjaldþrota í október 2008 og rekur hann söguna fram á vorið 2009.[56]

Hrunið: Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar

[breyta | breyta frumkóða]

Þessi bók eftir Guðna Th. Jóhannesson er fyrsta heildaryfirlitið yfir íslenska efnahagshrunið og eftirmál þess – allt frá því að óveðursský lánsfjárkreppu tóku að hrannast upp erlendis og þar til ríkisstjórnin fór frá völdum. Í bókinni eru áður óbirtir tölvupóstar, símtöl og minnisblöð sem Guðni fléttar saman. Bókin var gefin út árið 2009.[57]

Íslenska efnahagsundrið

[breyta | breyta frumkóða]

Þessi bók eftir Jón Fjölni Thoroddsen sem gefin var út 2009, er fyrsta bókin um efnahagshrunið þar sem umfjöllunin afmarkast að mestu við ábyrgð eigenda og stjórnenda bankanna og stærstu fyrirtækja og eignarhaldsfélaga landsins. Í lokaorðum bókarinnar segir hann að það sé ljóst að á Íslandi á liðnum árum hafi hagsmunir heildarinnar vikið fyrir hagsmunum fárra því sérhagsmunir útrásarvíkinganna hafi gengið þvert á hagsmuni þjóðarinnar og því fór sem fór. Umfjöllun Jóns er tilraun til að skýra hvernig þetta gerðist.[58]

Bringing Down the Banking System : Lessons from Iceland

[breyta | breyta frumkóða]

Í bók sinni lýsir Guðrún Johnsen sem vann með Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu niðurstöðum nefndarinnar á því hvernig íslensku bankarnir stigu til metorða en lýsir falli þeirra og fer í saumana á því hvernig það kom til og hvaða afleiðingar það hafði. Bókin var gefin út árið 2014.[59]

Scarcity in Excess – The Built Environment and the Economic Crisis in Iceland

[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf bókar Árna Mathiesen má rekja til evrópsks rannsóknarverkefnis „Scarcity and Creativity in the Built Environment“ eða „Hörgull og sköpun í hinu byggða umhverfi“, þar sem Arkitektaskólinn í Osló sá um eitt af undirverkefnunum: rannsókn á höfuðborgarsvæði Íslands fyrir og eftir hrun. Í bókinni, sem gefin var út 2014, eru stuttar greinar eftir marga fræðimenn, listamenn, arkitekta, skipulagsfræðinga og aðgerðasinna sem komu að verkefninu beint eða óbeint. Einnig eru birt nemendaverkefni sem rannsaka nýjar framtíðarsýnir í ljósi hrunsins, unnin af nemendum í arkitektadeild Listaháskóla Íslands, skipulagsdeild Landbúnaðarháskóla Íslands og EMU (evrópskt framhaldsnám meistara í borgarskipulagi).[60]

Iceland and the International Financial Crisis:Boom, Bust and Recovery

[breyta | breyta frumkóða]

Eiríkur Bergmann útskýrir í bók sinni sem gefi var út 2014, hinn einstaka vöxt, hrun og skjóta viðreisn íslensk efnahags. Í niðurstöðum sínum setur hann saman hvaða lærdóm aðarar þjóðir geti dregið af atburðunum.[61]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Samkomulag um að ríkissjóður leggi Glitni til nýtt hlutafé“. 29. september 2008. Sótt 12. október 2008.
  2. „Íslenska ríkið kaupir 75 prósent hlut í Glitni“. 29. september 2008. Sótt 14. október 2008.
  3. „Ríkið eignast 75% í Glitni“. 29. september 2008. Sótt 10. október 2008.
  4. „Glitnir hefði farið í þrot“. 29. september 2008. Sótt 10. október 2008.
  5. „Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs lækkar“. 30. september 2008. Sótt 14. október 2008.
  6. „Eignir í skuldabréfasjóðum frystar“. 30. september 2008. Sótt 14. október 2008.
  7. „Óvissu um sjóði Glitnis eytt“. 1. október 2008. Sótt 14. október 2008.
  8. „Hvað með sjóð 9?“. 26. febrúar 2009. Sótt 3. ágúst 2009.
  9. 9,0 9,1 „„Stærsta bankarán Íslandssögunnar". Vísir.is. 30. september 2008. Sótt 10. október 2008.
  10. „Glitnir: Buðu fram veð í ótilgreindri eign í Noregi“. Viðskiptablaðið. 30. september 2008. Sótt 16. október 2008.
  11. „Átelja harðlega vinnubrögð Seðlabanka“. Sótt 10. október 2008.
  12. „Stoðir: Ekki einhugur í stjórninni“. RÚV. 30. september 2008. Sótt 10. október 2008.
  13. „Straumur kaupir erlendan rekstur LÍ“. 1. október 2008. Sótt 20. október 2008.
  14. „Acquisitions from Landsbanki cancelled“. 10. október 2008.
  15. „200 stiga múrinn rofinn“. RÚV. 2. október 2008. Sótt 20. október 2008.
  16. „Mikil óvissa í íslenska hagkerfinu“. RÚV. 2. október 2008. Sótt 20. október 2008.
  17. „Samkomulag við bankana“. Sótt 14. október 2008.
  18. 18,0 18,1 18,2 „Ávarp forsætisráðherra vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði“. Sótt 14. október 2008.
  19. Til útskýringar kemur fram að: Með sérstökum og mjög óvenjulegum aðstæðum á fjármálamarkaði, sbr. 1. mgr., er átt við sérstaka fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki, meðal annars líkur á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis séu líklega fyrir hendi eða líkur standi til að það geti ekki uppfyllt kröfur um lágmarks eigið fé og að úrræði Fjármálaeftirlitsins séu ekki líkleg til þess að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Þá er með sérstökum aðstæðum meðal annars átt við ef fjármálafyrirtæki hefur óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamninga eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota.
  20. 20,0 20,1 „Lög um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl“. 7. október 2008. Sótt 14. október 2008.
  21. „Lög um fjármálafyrirtæki“. 20. desember 2002. Sótt 23. október 2008.
  22. Til útskýringar kemur fram að: Með sérstökum aðstæðum eða atvikum er átt við sérstaka fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki, meðal annars líkur á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis séu líklega fyrir hendi eða líkur standi til að það geti ekki uppfyllt kröfur um lágmarks eigið fé og að önnur úrræði Fjármálaeftirlitsins séu ekki líkleg til þess að bera árangur. Þá er með sérstökum aðstæðum meðal annars átt við ef fjármálafyrirtæki hefur óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamninga eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota.
  23. 23,0 23,1 „Lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta“. 27. desember 1999. Sótt 23. október 2008.
  24. „Lög um húsnæðismál“. 3. júní 1998. Sótt 23. október 2008.
  25. „Á grundvelli nýsettra laga grípur Fjármáleftirlitið inn í rekstur Landsbankans til að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi á Íslandi“ (pdf). 7. október 2008. Sótt 7. nóvember 2008.
  26. „Starfsemi Landsbankans óbreytt og bankastjórn ber áfram ábyrgð á daglegum rekstri“. 7. október 2008. Sótt 7. nóvember 2008.
  27. „Á grundvelli nýsettra laga grípur Fjármáleftirlitið inn í rekstur Glitnis til að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi á Íslandi“. Fjármálaeftirlitið. 7. október 2008. Sótt 7. nóvember 2008.
  28. „Efling gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands“. Sótt 11. október 2008.
  29. 29,0 29,1 „Baksvið: Hvaða „vinir" brugðust?“. Sótt 11. október 2008.
  30. „Segir ákvörðun um lán ekki liggja fyrir“. Sótt 11. október 2008.
  31. „Efling gjaldeyrisforðans“. Sótt 11. október 2008.
  32. „Seðlabankastjóri: Viðræður standa yfir við Rússa“. Sótt 11. október 2008.
  33. „Ríkið borgi ekki skuldir óreiðumanna“. 7. október 2008. Sótt 10. október 2008.
  34. „Hvað sagði Davíð?“. 13. október 2008. Sótt 19. janúar 2009.
  35. Richard Portes (12. október 2008). „The shocking errors of Iceland's meltdown“. Sótt 19. janúar 2009.
  36. „Unnið að lausn gjaldeyrisvanda“. Sótt 18. mars 2009.
  37. „Gjaldeyrismarkaður“. Sótt 18. mars 2009.
  38. „Foreign exchange market“. Sótt 18. mars 2009.
  39. „Gjaldeyrismarkaður“. Sótt 18. mars 2009.
  40. „Tímabundin temprun á útflæði gjaldeyris“ (pdf). 10. október 2008. Sótt 18. mars 2009.
  41. „Bankastjórn Seðlabanka Íslands samþykkir að lækka stýrivexti um 3,5%“. Sótt 18. mars 2009.
  42. „Seðlabanki Íslands hækkar stýrivexti“. 28. október 2008. Sótt 18. mars 2009.
  43. Jón Daníelsson og Gylfi Zoega. „Hagkerfi bíður skipbrot“ (pdf).
  44. Fjármálaeftirlitið. „Á grundvelli nýsettra laga grípur Fjármáleftirlitið inn í rekstur Kaupþings hf. til að tryggja áframhaldandi viðskiptabankastarfsemi á Íslandi“.
  45. FME yfirtekur Kaupþing
  46. Kaupþing í London í greiðslustöðvun
  47. Ríkið íhugar að fara í mál vegna Kaupþings
  48. Tímaspursmál hvenær leitað verður til IMF
  49. Opið bréf Sigurðar Einarssonar stílað á vini & vandamenn, 26. janúar 2009
  50. Stærstu mistökin voru að fara ekki úr landi
  51. Segir sig úr Seðlabankaráði
  52. Borgað fyrir að yfirtaka lán
  53. Viðskipti fyrirtækja við útlönd liggja niðri
  54. Vilja að stjórn Seðlabanka víkji sem fyrst
  55. Saklausir vegfarendur[óvirkur tengill]
  56. https://www.forlagid.is/vara/sofandi-ad-feigdarosi/
  57. https://www.forlagid.is/vara/hruni%C3%B0/
  58. https://www.landogsaga.is/section.php?id=12706&id_art=13301
  59. http://www.palgrave.com/us/book/9781137358196
  60. http://www.hi.is/vidburdir/horgull_i_allsnaegtum_hid_byggda_umhverfi_og_hrunid_a_islandi
  61. http://www.palgrave.com/us/book/9781137331991