Fara í innihald

Pelóta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Pelóta er spænskt orð fyrir knött eða bolta. Það er því notað um ýmis afbrigði boltaleikja, en oftast þó í merkingunni basknesk pelóta, sem er rótgróin keppnisgrein. Keppt hefur verið í pelótu á fernum Ólympíuleikum, þar af einu sinni sem fullgildri keppnisgrein.

Lýsing og uppruni[breyta | breyta frumkóða]

Keppt í pelótu á Ólympíuleikunum árið 1900.

Elstu frásagnir af keppni í pelótu eru frá Íberíuskaga á þrettándu öld. Upp frá því hefur íþróttin verið vinsæl víða á Spáni og í Frakklandi en einkum meðal Baska. Í kjölfar landafundanna barst hún til vesturheims og er pelóta í miklum metum víða í Rómönsku Ameríku.

Fjöldamörg afbrigði pelótu eru til, þar sem greinin þróaðist með ólíkum hætti eftir einstökum svæðum. Það er fyrst í seinni tíð sem reynt hefur verið að sæmræma reglur og fækka viðurkenndum keppnisabrigðum.

Í grundvallaratriðum er pelóta ekki ósvipuð tennis. Hún var í fyrstu leikin með berum höndum. Síðar íklæddust keppendur þykum leðurhönskum og loks komu fram sérstakar keppniskylfur, þótt enn í dag megi finna öll þessi afbrigði. Að þessu leyti minnir þróun leiksins nokkuð á frönsku íþróttina Jeu de paume, sem talin er formóðir tennisíþróttarinnar.

Megineinkenni pelótu er hins vegar að hún fer fram á keppnisvelli (innandyra jafnt sem utan), með háum vegg meðfram einni eða tveimur hliðum vallarins. Keppendur standa á vellinum og keppast við að slá knöttinn þannig að hann lendi innan afmarkaðs svæðis á veggnum og skoppi til baka. Stig vinnst þegar mótherjinn nær ekki að slá knöttinn áður en hann skoppar tvisvar eða þegar hann hittir ekki afmarkaða svæðið.

Keppt er ýmist í einliða- og tvíliðaleik í pelótu, en til eru afbrigði þar sem fleiri eru saman í liði.

Alþjóðleg keppnisgrein[breyta | breyta frumkóða]

Nútímakeppnisvöllur í pelótu.

Basknesk pelóta er í dag langkunnasta afbrigði íþróttarinnar. Erfitt er að tímasetja með vissu uppruna hennar. Líklega hefur hún þó verið komin fram í núverandi mynd í upphafi nítjándu aldar.

Um miðja nítjándu öld braust út sannkallað pelótu-æði í baskahéruðunum. Voru atvinnumenn í pelótu taldir einhverir hæstlaunuðu íþróttamenn Evrópu á ofanverðri öldinni. Vegna þessara vinsælda var pelóta meðal keppnisgreina á Ólympíuleikunum í París árið 1900. Keppt var í tvíliðaleik og voru raunar aðeins tvö lið skráð til keppni, frá Spáni og Frakklandi. Fór svo að Spánverjarnir unnu viðureignina en ekki er vitað um stigaskorið.

Pelóta hefur upp frá þessu í þrígang verið sýningargrein á Ólympíuleikum, þegar keppt hefur verið á Spáni, Frakklandi og í Rómönsku Ameríku. Í París 1924 voru þrjú pelótu-afbrigði meðal sýningargreina, þar af eitt þar sem keppendur léku berhentir.

Í Mexíkó 1968 voru fimm afbrigði pelótu kynnt til sögunnar sem sýningargreinar. Þar á meðal var Jai alai-útgáfan, sem oft er sögð hraðasta íþróttagrein í heimi. Dæmi eru um að pelótu-knettir í leik hafi mælst á 300 km. hraða á klst.

Á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992 var pelóta enn á ný á dagskrá. Í það skipti var keppt um tíu verðlaun. Konur voru í fyrsta sinn meðal keppenda í íþróttinni á þessum leikum. Ekki hefur komið til tals að gera pelótu að fastri keppnisgrein á ÓL, enda eru iðkendalöndin í það fæsta og afbrigðin full mörg.

Pelóta er viðurkennd íþróttagrein í fjölda landa, einkum í Vesturálfu, en iðkendurnir eru í ansi mörgum tilvikum brottfluttir baskar eða afkomendur þeirra. Ekki er vitað til að keppt hafi verið í pelótu á Íslandi.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Ingimar Jónsson (1976). Alfræði Menningarsjóðs: Íþróttir a-j. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Pelote basque“ á frönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. júní 2010.