Fara í innihald

Lübeck

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Lübęk)
Lübeck
Skjaldarmerki Lübeck
Staðsetning Lübeck
LandÞýskaland
SambandsríkiSlésvík-Holtsetaland
Stjórnarfar
 • BæjarstjóriJan Lindenau (SPD)
Flatarmál
 • Samtals214,14 km2
Hæð yfir sjávarmáli
13 m
Mannfjöldi
 (2021)
 • Samtals216.277
 • Þéttleiki1.000/km2
TímabeltiUTC +1 / UTC +2 (sumar)
Vefsíðaluebeck.de
Norðurálma ráðhússins í Lübeck. Til vinstri sér í annan turn Maríukirkjunnar.

Lübeck (einnig Lýbika [1] á íslensku og stundum Lýbekk [2]) er hafnarborg við ósa Trave á Eystrasaltsströnd Þýskalands og önnur stærsta borg Slésvíkur-Holsetalands með 217.000 íbúa. Borgin var höfuðborg Hansasambandsins og er á heimsminjaskrá UNESCO vegna glæsilegra bygginga í gotneskum stíl.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Lübeck er næststærsta borgin í Slésvík-Holtsetalandi. Hún er hafnarborg við ána Trave, suðaustarlega í sambandsríkinu. Austustu borgarhverfin stóðu við múrinn sem aðskildi Þýskaland á tímum kalda stríðsins. Miðborgin er umlukin vatni, en þar er samflæði ána Trave og Wakenitz. Utar við Trave er hinn stóra höfn Skandinavienkai, en hún er stærsta þýska höfnin við Eystrasalt. Þaðan er siglt til ýmissa áfangastaða við Eystrasalt og víðar. Yst er borgarhlutinn Travemünde en þar rennur áin Trave til sjávar í Eystrasalti. Travemünde er heilsu- og baðstrandarbær. Næstu stærri borgir eru Schwerin til suðausturs (60 km), Hamborg til suðvesturs (65 km) og Kíl til norðvesturs (80 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerkið sýnir tvíhöfða svartan örn á gulum skildi. Örninn er ríkisörninn, sem merki um að Lübeck var fríborg í ríkinu, allt þar til hún varð hluti af Slésvík-Holtsetalandi. Merkið kom fyrst fram 1450 og er þar með elsta skjaldarmerki Slésvíkur-Holtsetalands. Í erninum er hvítrautt brjóstmerki. Hvítt og rautt eru borgarlitirnir en þannig eru allir Hansafánar

Lübeck er nefnd eftir slavneska bænum Luibice, sem merkir Hin yndislega. Á íslensku hefur heitið Lýbíka stundum verið notað. Borgin er einnig kölluð Stadt der Sieben Türme, (Borg hinna sjö turna), vegna þess að kirkjurnar fimm í miðborginni mynda samanlagt sjö turna sem sjást langt að.

Saga Lübeck

[breyta | breyta frumkóða]
Pólsk mynd af Lübeck

Slavar settust að á svæðinu í kringum 700 e.Kr. Slavneska þorpið stóð rétt fyrir norðan núverandi miðborgareyju, við samflæði Schwartau og Trave, og hét Liubice. Sá bær kemur fyrst við skjöl árið 819 og er sennilegt að þá þegar hafi verið einhvers konar virkisveggur í kringum hann. Ranar, slavneskur ættbálkur, brenndu bæinn til kaldra kola 1127. Á þessum tímum stendur landnám þýskra fursta yfir í norður- og austurhluta núverandi Þýskalands. Það var Adolf II. greifi af Schauenburg og Holtsetalandi sem stofnaði borgina Lübeck árið 1143 og nefndi hana eftir heiti gamla slavneska bæjarins. Borgin var fyrsta hafnarborg Þjóðverja við Eystrasalt og var það raunar tilgangur með stofnun hennar að efla samgöngur og verslun við borgir og landsvæði við Eystrasalt. Adolf byggði kastalavirki á núverandi miðborgareyju, en varð að afsala sér borginni allri til Hinriks ljóns (Heinrich der Löwe) vegna afskipta sinna af danska krúnustríðinu. Eftir daga Hinriks áttu hinir og þessir aðilar borgina. 1226 veitti Friðrik II keisari borginni leyfisbréf til að vera fríborg, það er óháð furstum og konungum.

Hansaborgin Lübeck

[breyta | breyta frumkóða]
Lübeck 1820. Fyrir miðju er markaðstorgið. Til hægri er ráðhúsið fræga. Í bakgrunni er Maríukirkjan.

1227 háði Lübeck, ásamt þýskum bandamönnum, sigursæla orrustu við Valdimar II Danakonung við Bornhöved í Holtsetalandi. Í kjölfarið varð Lübeck mikilvægasta verslunarborgin við Eystrasalt. Þetta markaði upphaf Hansakaupmanna. Hansasambandið myndaðist ekki við einhvern stóratburð, heldur þróaðist smám saman af verslunarmönnum í hinum og þessum hafnarborgum. 1356 var fyrsti Hansadagurinn haldinn í Lübeck svo vitað sé. En framan af var borgin Visby á Gotlandi aðalaðsetur Hansakaupmanna. Þegar Valdimar IV Danakonungur (kallaður Atterdag) hertók Visby 1361, fluttist það hins vegar til Lübeck. 1369 náði lýbískur sjóher að vinna danska Helsingjaborg í Svíþjóð (sem þá var dönsk). Við þann atburð og þau viðskiptasambönd sem Lübeck náði við það, var borgin á hátindi veldis síns. Hún var þá meðal þriggja stærstu borga þýska ríkisins, ásamt Köln og Magdeburg. Lübeck og Hamborg voru í nánu samstarfi og náðu góðu skipulagi saman. Meðan Hamborg verslaði aðallega við Norðursjó, einbeitti Lübeck sér aðallega við Eystrasalti. Á ofanverðri 14. öld var Stecknitz-skipaskurður lagður milli Alster (sem rennur í gegnum Hamborg) og Trave (sem rennur í gegnum Lübeck). Skurðurinn tengdi því Eystrasalt við Norðursjó. Það auðveldaði samstarfið og verslunina á allan hátt. Á næstu öldum háði Lübeck hins ýmsu sjóstríð við Dani um verslunarforréttindi í Eystrasalti og hafði borgin stundum betur, stundum verr. Eyjan Borgundarhólmur (Bornholm) var t.d. lýbísk 1525–1576. Í 30 ára stríðinu náði Lübeck að halda hlutleysi sínu og græddi meira að segja á stríðinu. 1629 voru friðarsamningar gerðir í borginni milli keisarahersins og Kristjáns IV Danakonungs, en sá síðarnefndi beið ósigur í stríðinu eftir aðeins stutta þátttöku. Eftir stríðslok gekk verslunin hins vegar hratt til baka. Landafundirnir miklu voru í algreymingi og siglingaþjóðir eins og Englendingar, Hollendingar, Portúgalar og Spánverjar voru búnir að koma sér upp nýlendum í Afríku og Asíu. Hansamenn urðu færri. Síðasti Hansadagur í Lübeck fór fram 1669. Eftir það lagði Hansaverslunin upp laupana í Lübeck, en einnig í Hamborg og Bremen. Lübeck var þá bara venjuleg hafnarborg við Eystrasalt.

Síðustu aldir

[breyta | breyta frumkóða]
Dómkirkjan og hluti af miðborginni brennur eftir loftárásir Breta 1942.

Eftir fall þýska ríkisins 1806 við tilkomu Napoleons, leit út fyrir að Lübeck og nærsveit yrðu sjálfstæð. En Frakkar hertóku borgina þegar þeir eltu Blücher herforingja og var hún undir franskri stjórn til 1813. Eftir Vínarfundinn var borgin sjálfstæð. Hún var enn sjálftætt borgríki innan prússneska ríkisins þegar það var stofnað 1871. Á nasistatímanum fóru fram hreinsanir í borginni. Helmingur gyðinga hafði yfirgefið borgina. Rétt rúmlega 200 urðu eftir og voru þeir fluttir brott. Aðeins 3 þeirra lifðu nasistatímann af. 1942 varð Lübeck fyrir gríðarlegum loftárásum. Bretar höfðu verið að skipuleggja nýjar aðferðir við loftárásir og var Lübeck fyrsta þýska stórborgin sem varð fyrir barðinu á þeim. Margar byggingar í hinni sögufrægu miðborg eyðilögðust eða skemmdust. Skömmu seinna bað svissneski diplómatinn og forseti Alþjóða Rauða krossins, Carl Jacob Burckhard, borginni griða, til að geta sett upp hafnaraðstöðu fyrir Rauða krossinn í borginni. Bandamenn samþykktu þetta og því slapp Lübeck við frekari loftárásir og skemmdir af völdum stríðsins. 23. apríl 1945 kom Heinrich Himmler til Lübeck til að bjóða bandamönnum vopnahlé í gegnum sænska greifann Bernadotte, en Harry S. Truman, Bandaríkjaforseti, hafnaði því. Nokkrum dögum seinna hertóku breskir hermenn borgina nær átakalaust og héldu henni fram að stofnun sambandslýðveldisins. Hún varð landamæraborg að Austur-Þýskalandi. Í hverfinu Schlutup var nyrsta landamærastöð þýsku ríkjanna. 1987 var hluti miðborgarinnar settur á heimsminjaskrá UNESCO, en það var í fyrsta sinn sem heill borgarhluti fékk slíkan heiður í Norður-Evrópu. Byggingar sem hér um ræðir eru m.a. ráðhúsið mikla, Koberg-svæðið í heild, litlu göturnar milli Péturskirkjunnar og dómkirkjunnar, Salthúsin og Holstentor, svo eitthvað sé nefnt.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Marzipan-Show er marsípansýning, en Lübeck er fræg fyrir marsípanið sitt.
  • Volks- und Erinnerungsfest er nokkurs konar þjóðhátíð borgarinnar, en á síðustu árum hefur hún þróast í að vera skemmti- og leiktækjahátíð.
  • Travemünder Woche er siglingahátíð í borgarhlutanum Travemünde, en sú hátíð hefur verið haldin síðan 1889. Hér er einnig um kappsiglingar að ræða.
  • Nordische Filmtage Lübeck er kvikmyndahátíð, sú eina í Þýskalandi sem snýst um skandínavískar kvikmyndir. Meðal þátttakenda á hátíðinni hefur m.a. verið Friðrik Þór Friðriksson.

Lübeck viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Holstentor er eitt þekktasta mannvirki Þýskalands. Til hægri er Péturskirkjan, til vinstri Maríukirkjan.
  • Holstentor er eitt af tveimur miðalda borgarhliðum sem enn standa. Það er eitt þekktasta mannvirki Þýskalands.
  • Ráðhúsið í Lübeck var reist á 13. öld. Það er meðal stærstu og merkustu ráðhúsum Þýskalands.
  • Maríukirkjan í Lübeck var vígð á 14. öld. Hún er móðirkirkja allra gotnesku tígulsteinakirkna í norðurhluta Þýskalands og er fyrirmynd að 70 öðrum kirkjum. Hún er þriðja hæsta kirkja Þýskalands.
  • Burgtor er annað af tveimur miðalda borgarhliðum Lübeck. Það vísar í norður og þar náði franskur her að brjótast inn í borgina 1806.
  • Heiligen Geist Hospital er frá 13. öld og er ein elsta félagsstofnun heims. Hún var reist sem stofnun fyrir sjúka og fátæka. Eftir siðaskiptin var stofnuninni breytt í elliheimili og er það hlutverk hennar enn þann dag í dag.
  • Dómkirkjan í Lübeck er fyrsta tígulsteinakirkjan við Eystrasalt. Hún var reist 1173-1230 í rómönskum stíl af Hinrik ljón, sem einnig stofnaði og byggði upp Lübeck.
  • Travemünde er nyrsti borgarhluti Lübeck. Hann stendur við ósa árinnar Trave og er einn þekktasti baðstaður og heilsubær Þýskalands.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls
  2. Timarit.is