Burgtor

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Burgtor eins og það lítur út núna. Portin er orðin fjögur.

Burgtor er annað af tveimur miðalda borgarhliðum sem enn standa í Lübeck. Hitt er Holstentor. Harðir bardagar áttu sér stað við Burgtorhliðið árið 1806 er her Napoleons hertók borgina. Burgtor er nyrsta byggingin í miðborg Lübeck sem er hluti af heimsminjaskrá UNESCO.

Saga Burgtor[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Hliðið sjálft var reist 1444 og var þá innra hliðið af tveimur á þessum stað. Hitt var eldra, eða frá 14. öld. 1622 var svo þriðja hliðinu bætt við og var það yst. Sitthvoru megin við Burgtor gengu borgarmúrarnir í báðar áttir. Hliðið stóð við hliðina á virki einu sem nú er horfið og þaðan er heitið Burgtor komið (Burg = virki, tor = hlið).

Bardaginn um Lübeck[breyta | breyta frumkóða]

Bardaginn við Burgtor.

1806 voru Frakkar á þýskri grundu. Napoleon hafði sigrað í orrustunum við Jena og Auerstedt. Blücher herforingi var fyrir prússneska hernum. Hann náði að safna liðinu saman og bjarga 34 fallbyssum að auki og flýja til Lübeck. Frakkar fylgdu í humátt á eftir og réðust á borgina tveimur dögum eftir að Blücher komst þangað. Þar sem Burgtor var veikasta af borgarhliðunum þremur í Lübeck, afréðu Frakkar að ráðast á borgina þar. Prússar vörðust þar af miklu harðfylgi, en voru langtum færri en Frakkar. Blücker skipaði fyrir að hindra inngöngu Frakka með öllum ráðum. Það tókst þó ekki. Eftir fjögurra tíma bardaga við Burgtor kom skipun um að hörfa. Fyrstu Frakkarnir voru þá að komast inn fyrir og opnuðu hliðið fyrir samherja sína fyrir utan. Þá upphófust miklir götubardagar, en í þeim tókst Prússum að hrinda árás Frakka nokkrum sinnum. En að lokum höfðu Frakkar betur og fóru rænandi og ruplandi um borgina. Mörgum Prússum tókst að flýja með Blücher herforingja í gegnum hið vel varða Holstentor. Lübeck var á valdi Frakka.

Síðustu aldir[breyta | breyta frumkóða]

Burgtor var upphaflega aðeins með eitt gat. Nokkrum árum eftir að Frakkar yfirgáfu borgina á ný, var farið að velta fyrir sér þeirri hugmynd að rífa hliðið til að skapa byggingasvæði. Hliðið var einnig hindrun fyrir síaukna umferð. Slíkum hugmyndum var hins vegar hafnað á þeirri forsendu að verið væri að rífa niður sögulega byggingu. Af sömu ástæðu fékk Holstentor, aðalhlið borgarinnar, einnig að standa. Mylluhliðið í suðri var hins vegar rifið og er horfið. 1850 var ákveðið að rífa borgarmúrana sitthvoru megin við Burgtor og búa til annað gat fyrir umferðina, þannig að hægt var að fara í gegnum hliðið í báðar áttir samtímis. 1875 var enn einu gati bætt við fyrir gangandi umferð. 1920 var svo fjórða gatinu bætt við. Burgtor er því með fjögur port núna. 1912 var innréttuð lítil íbúð í hliðinu. Þar fékk rithöfundurinn Ida Boy-Ed að búa til æviloka. Í dag er aðstaða fyrir myndlistarmenn i hliðinu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]